150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[18:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er árið hálfnað og það er ekki komin ríkisreikningur fyrir árið 2019 enn þá. Það er fjallað aðeins í áliti meiri hluta um heildaráhrifin á stöðuna varðandi tekjuhlið og gjaldahlið og mögulegan halla á næsta ári og þessu ári. En ég velti því dálítið fyrir mér hvar, hvenær og hvernig, því að fjárlaganefnd hefur í rauninni ekki fengið greinargott yfirlit yfir þróun mála, áhrif einstakra aðgerða og þar fram eftir götunum. Ég velti fyrir mér hvort það sé kannski tímabært þegar það er verið að taka ákvarðanir um 70 milljarða í þessum fjáraukalögum að vita hvar við erum eiginlega stödd þegar allt kemur til alls. Hvernig er áætlunin í framhaldinu? Hvernig er áætlunin út úr þessu, upp úr holunni?

Þegar ég sé fullyrt að ríkissjóður standi svo vel, skuldir séu lágar með tilliti til vergrar landsframleiðslu o.s.frv., þá horfi ég samt alltaf líka á samgönguáætlunina sem við erum að afgreiða hérna þar sem stendur að það sé fjárfestingarþörf í innviðum samgangna upp á 400 milljarða. Það er líka skuld. Hún er ekki reiknuð á sama hátt en hún er samt alveg jafn mikil skuld fyrir því, út af framkvæmdaleysi á undanförnum árum og skorti á ábata þar af og auknum viðhaldskostnaði og þess háttar. Viðhaldskostnaðurinn er vextir á þá skuld. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki tímabært að við förum að fá alvöruyfirlit yfir stöðuna eins og hún er í dag og hvernig við búumst við að þróunin verði á næstu árum.