150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[18:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við urðum vitni að því og fengum fjármálaráð í heimsókn þar sem teknar voru saman aðgerðir fjármálaráða víðs vegar í heiminum þar sem slíkt fyrirkomulag er, þótt fyrirkomulag hérna sé pínulítið öðruvísi því að fjármálaráðið hefur ekki eins stórt hlutverk og í mörgum öðrum löndum. En á ýmsum öðrum stöðum var fjármálaráð eða einhverjar stuðningstofnanir með rauntímasviðsmyndagreiningu eða rauntímastöðu á þróuninni eins og hún lá fyrir hverju sinni. Við höfum fengið upplýsingar um stöðu mála með mjög brotnum hætti og mjög ónákvæma stöðu í rauninni yfir mismunandi málaflokka. Við erum að sjá núna t.d. að umsóknir í Háskóla Íslands, sem er með rúmlega 13.000 nemendur, eru 12.000. Hvað mun það þýða fyrir komandi fjárlög í haust? Það eru stuðningslán og brúarlán sem fara ekki til afgreiðslu. Það eru hlutabæturnar sem fóru langt fram úr áætlunum samkvæmt frumvarpinu sem var lagt fram á Alþingi. Allt þetta plúsast saman. Já, við erum að gera svipaða hluti og þjóðir í kringum okkur en við erum að afrita þá dálítið án þess að vita endilega hvaða árangri þeir eiga að skila, hvaða vandamálum þeir eru að mæta. Við erum einfaldlega að gera það sem aðrir eru að gera án þess að hafa nægilega góðar upplýsingar um það í rauninni hvaða árangri það fjármagn sem við erum að leggja í þetta á að skila. Við fáum ekki að vita það fyrir fram og eftir á þá kostar þetta allt í einu miklu meira en við var búist. Það er í svona ástandi sem maður spyr: Væri hægt að fá meiri upplýsingar?