150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að ríkisstjórnin skuli leggja áherslu á að bjarga hagsmunum fyrirtækja fremur en að senda bjarglínu til fátæks fólks. Stefna hennar hefur aldrei verið önnur. Þetta fjáraukalagafrumvarp snýst að stórum hluta um að ríkisstjórnin hvetur vinnuveitendur til að rjúfa ráðningarsamband við launþega sína. Aðferðafræðin er með ólíkindum þar sem skattgreiðendum er ætlað að greiða fyrir vinnuveitendurna laun launþegans í uppsagnarfresti. Þetta leiðir af sér stóraukið atvinnuleysi sem sannarlega er nóg fyrir, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti svo réttilega á í ræðu sinni. Að sjálfsögðu verða stjórnvöld að axla ábyrgð á þessum fordæmalausu tímum en sú ábyrgð á einnig að ná til þeirra sem ekki síður eru hjálpar þurfi en fyrirtækin í landinu. Það má gera á ýmsa vegu og skila þannig miklum ábata og auknu öryggi til þeirra sem verða hvað harkalegast fyrir efnahagslegum áföllum vegna Covid-19.

Enn og aftur sniðgengur ríkisstjórnin stuðning við þann samfélagshóp sem vísvitandi, virðulegi forseti, takið eftir, sem vísvitandi er haldið í fátækt og hefur svo verið um áratugaskeið. Því leggur 2. minni hluti til fjórar breytingartillögur við frumvarpið sem allar eru í þágu lágtekjufólks, góðgerðarsamtaka og geðheilbrigðismála. Tillögurnar krefjast ekki hárra útgjalda úr ríkissjóði með tilliti til allra þeirra gífurlegu fjármuna sem notaðir eru í björgunaraðgerðir vegna Covid-19 faraldursins, t.d. í þessum fjárauka sem er tæplega 70.000 millj. kr., hátt í 70 milljarðar kr. 2. minni hluti óskar einungis eftir ríflega 1,5% af þeirri upphæð til að hjálpa mjög mikið fólki sem virkilega er hjálpar þurfi. Það ætti ekki að vera mikill vandi fyrir okkar góðu ríkisstjórn að samþykkja þessar breytingartillögur í þágu þeirra sem mest þurfa á hjálp hennar að halda. Sá þingmaður sem hér stendur yrði sannarlega ekki hissa þó að þaðan væri litla hjálp að finna.

Heildarkostnaður við tillögurnar sem 2. minni hluti kemur hér með er um 1,1 milljarður kr., 1.150 millj. kr. Í fyrsta lagi er það eingreiðsla til lífeyrisþega sem fá undir 300.000 kr. á mánuði. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi það þegar allir verða komnir á strípaðar atvinnuleysisbætur og fá ekki nema um 290.000 kr. á mánuði. Hver getur lifað á því, virðulegi forseti? Sá sem dregur fram lífið á því á í rauninni ekkert annað en það að reyna að draga fram lífið, ekkert annað. Hann getur ekki veitt sér neitt, akkúrat ekkert, hvorki sjálfum sér né börnunum sínum. Það er nákvæmlega þetta sem við erum að horfast í augu við núna. Öryrkjar og aldraðir finna ekki síður fyrir efnislegum áhrifum Covid-19 faraldursins en aðrir. Krónan hefur fallið um 17% frá áramótum og verðlag heldur áfram að hækka í samræmi við það. Áhrifin á tekjulága eru óumdeild þar sem svigrúm þeirra til að takast á við aukin útgjöld er ekkert, akkúrat ekki neitt. Það þarf ekki að minna á að þessir samfélagshópar eru skattlagðir í sárafátækt og hafa verið um árabil. Við ætlum ekki að rétta þeim almennilega bjarglínu og ég er ekki einu sinni að tala um almennilega bjarglínu, það er ekki einu sinni hægt að biðja um það. Maður biður alltaf um lágmarkið í von um að því verði einhvers staðar mætt. Til að vega upp á móti þeim erfiðleikum sem Covid-19 faraldurinn hefur lagt á herðar þeim aðilum, sem eru með undir 300.000 kr. á mánuði frá almannatryggingum, leggur 2. minni hluti til 100.000 kr. eingreiðslu, einskiptisaðgerðargreiðslu, sem renni frá Tryggingastofnun til þeirra sem búa við langverstu kjörin og hafa það lágar tekjur að þeir ná ekki þessum 300.000 kr. á mánuði. 2. minni hluti óskar eftir því að miðað verði við tekjuáætlun ársins 2020. Nákvæmlega þessi þáttur er, takið eftir, virðulegi forseti, langlangdýrasti pósturinn af breytingartillögum mínum og hann er upp á um 850 millj. kr. Hann nær til þess að styðja við um allt að 8.500 einstaklinga. Það munar um minna, virðulegi forseti, og þar tala ég af reynslu. Það er víst alveg óhætt að segja.

Síðan höfum við ítrekað heyrt um þann vanda sem hefur verið á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Hugsa sér að við skulum vera þekkt fyrir það að andlega veik börn skuli vera á biðlista eftir læknishjálp og neyðarúrræðum. Á sama tíma og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur ítrekað furðað sig á fjölgun öryrkja gerir ríkisstjórnin ekkert til að draga úr þeirri meintu fjölgun, heldur þvert á móti viðheldur hún kerfi sem fjölgar öryrkjum jafnt og þétt. Vill 2. minni hluti sérstaklega benda á hóp barna sem býr við andlega og félagslega erfiðleika en fær ekki aðstoð við hæfi. Þessi börn eru tugum saman á biðlistum eftir faglegri meðferð. Það þarf nauðsynlega að efla meðferðarúrræði fyrir öll börn sem eru með geðræn vandamál. Það er mikilvægt að þau sem þurfa slík úrræði lendi ekki á biðlista eftir viðeigandi meðferð. Þetta snýst um að koma þeim börnum af stað út í lífið, að gera allt til að koma í veg fyrir að þau lendi á örorku til lífstíðar. Því er nauðsynlegt að efla meðferðarúrræði fyrir börn með geðræn vandamál og það strax. Því leggur 2. minni hluti til að framlög til barna- og unglingageðdeildar Landspítalans verði aukin um 100 millj. kr. Þessi börn eru líka ganga í gegnum Covid. Við höfum heyrt það staðhæft, bæði af lögreglu og félagsmálayfirvöldum, að í Covid-faraldrinum þegar allt var hér í hæstu hæðum og við héldum okkur mismörg heima, ýmist í sjálfskipaðri sóttkví til að verja sjálf okkur eða aðstandendur eða hreinlega vorum sett þangað, þá jókst ekki bara mjög svo mikið sala á áfengi heldur jókst heimilisofbeldi í rauninni líka mjög mikið, því miður. Hverjir skyldu nú aðallega vera fórnarlömb heimilisofbeldis? Það eru venjulega þeir sem eru minni máttar og það eru venjulega börn.

Þó að hér snúist allt um pólitík, um meiri hluta og minni hluta, um ríkisstjórn og stjórnarandstöðu — og þegar verið er að úthluta fjármunum í hundruða milljarða vís, eins og verður á þessu ári en áætlað er að um 300 milljarðar fari til björgunaraðgerða og, eins og hæstv. fjármálaráðherra segir, hugsanlega um 200 strax á næsta ári, hugsanlega verða þetta um 500 milljarðar kr. á árunum 2020 og 2021 — þá get ég ekki skilið þá pólitík sem getur ekki samþykkt það sem við erum að tala um, 100 millj. kr. til að hjálpa börnum í geðrænum vanda, til að taka þau af biðlista, til að reyna að koma í veg fyrir að þau fari á örorku, til að koma þeim út í lífið. Mér er það algerlega fyrirmunað.

Síðan er nauðsyn á algerum neyðarstuðningi til SÁÁ. Starfsemi SÁÁ hefur orðið fyrir mjög miklu fjárhagslegu áfalli vegna Covid-19 faraldursins. Sjálfsaflafé samtakanna hefur ekki skilað sér vegna þeirra sóttvarnaaðgerða sem grípa varð til vegna faraldursins. Afleiðingarnar eru alvarlegar fyrir alla þá áfengis- og vímuefnasjúklinga sem þurfa að leita sér hjálpar. Staðan er það alvarleg að meðferðarheimilinu Vík verður lokað í júlí, eins og hefur verið á undanförnum árum. Meðferðarheimilið á Vík hefur þurft að loka vegna fjárskorts sem í rauninni hefur aldrei verið þyngri biti en akkúrat núna þegar aldrei hafa verið fleiri sem þurfa á hjálpinni að halda, aldrei. Við vorum með samkomubann. Við vorum með alls konar takmarkanir þannig að þeir aðilar sem voru í bata eftir að hafa verið í meðferð, eftir að hafa fengið hjálp og eftir að hafa farið á Vík, gátu ekki farið á fundi. Þeir gátu ekki notað þau meðul sem þeim var í rauninni ráðlagt og uppálagt og þeir tilbúnir að nota til þess að reyna að halda sér frá vímunni og Bakkusi. Við getum hjálpað þessu fólki. Við getum gert svo miklu meira. Allt sem þarf er bara vilji. Vert er að geta þess að sjúkrahúsið Vogur er afeitrunarstöð og fyrsta skrefið í bataferli sjúklings, hin eiginlega uppbygging og meðferð, fer fram á Vík. Þess vegna er afskaplega dapurt að vita að nú er allt fullt af veiku fólki inni á sjúkrahúsinu Vogi, margt í fyrsta skipti, sem gjarnan og nauðsynlega hefði þurft að komast inn á Vík í sex vikur, en Vík var lokað 16. júní. Því hlýtur það að teljast kaldlynt af hálfu stjórnvalda að stíga ekki strax inn í þessa alvarlegu stöðu með auknum fjárframlögum á þessum erfiðu tímum og koma um leið í veg fyrir að veiku fólki sé neitað um lækningu.

Í fyrri fjárauka sem við samþykktum að mig minnir 11. maí sl. voru 30 millj. kr. veittar til starfsemi SÁÁ. Það var liður í því að reyna að koma til móts við það að þeir hefðu ekki getað farið af stað með álfasöluna akkúrat út af nálgunarbanni og samkomubanni. Það var ekki hægt að labba hús úr húsi. Þær góðu fréttir voru að berast mér ekki alls fyrir löngu, bara fyrir nokkrum dögum, því að ég var nú alltaf að rífast og röfla um þetta í fjárlaganefnd, að þeir væru búnir að fá þessa fjármuni greidda, að þeir fjármunir hefðu skilað sér. Það á hins vegar ekki við um 50 milljónir sem áttu að fara inn á Vog og við samþykktum í fjárauka 2018 og ég röflaði ítrekað um allt árið í fyrra. Það var skýr vilji löggjafans, algjörlega skýr vilji. Ég held að við höfum öll verið sammála um það, aldrei þessu vant, að styðja þyrfti við rekstur SÁÁ. Við vissum að hátt í 800 sjúklingar væru á biðlista inn á sjúkrahúsið. Vilji okkar, bæði fjárlaganefndar og Alþingis, var sá að reyna að höggva á þá biðlista og reyna að koma fólki í fyrstu hjálp. En enn þá er þriðjungurinn ógreiddur. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja svona vinnubrögð, ég átta mig engan veginn á þeim. Við erum fjárveitingavaldið, við gefum grænt ljós á eitthvað, við viljum þó hjálpa, við viljum gera gagn. Og svo gerist það svona. 2. minni hluti leggur til að í þessum fjárauka verði fjárframlög til endurhæfingarþjónustu SÁÁ aukin tafarlaust um 100 millj. kr., burt séð frá öllum samningum samtakanna við Sjúkratryggingar Íslands, enda er hér um einskiptisneyðaraðstoð vegna Covid-19 faraldursins að ræða og ekkert annað.

Fjórða tillagan hjá 2. minni hluta snýr að stuðningi við góðgerðarsamtök sem sinna matarúthlutunum. Nú þegar hefur atvinnuleysi á Íslandi náð sögulegu hámarki á lýðveldistíma og þótt lengra væri litið. Það hlýtur því að teljast afar mikilvægt að tryggja grunnþarfir fólks sem býr við fátækt. Það á enginn að þurfa að svelta þrátt fyrir það fordæmalausa ástand sem þjóðin gengur í gegnum, okkar ríka þjóð. Því leggur 2. minni hluti til að þær hjálparstofnanir sem sannarlega hafa staðið að því að gefa fátækum fjölskyldum að borða, eins og Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd og fleiri, fái strax úthlutað 100 millj. kr. til skiptanna.

Fjárlaganefnd hafði einnig samþykkt að 25 milljónir færu í að styrkja hjálparsamtök sem gefa svöngu fólki að borða. Þetta var ákveðið á sama tíma og 30 milljónirnar áttu að fara til SÁÁ. Þetta var ákveðið 11. maí. Ég veit ekki um neinn sem hefur fengið af því eina einustu krónu. En ég veit að það eru svangir minkar í landinu. Ég veit að minkabúin þrjú, eða tvö eða hvað sem þau eru mörg, eru í vanda af því að þau hafa ekki getað selt á uppboði sín loðskinn. Og það er tengt við Covid, en það furðulega er að uppboðið fór heldur ekki fram í desember í fyrra þannig að kannski er nú eftirspurnin minni. 80 milljónir á að setja í það á þessu ári og 80 milljónir á að setja í það á næsta ári. 160 milljónir eiga að fara í það að hjálpa minkabændum að gefa minkunum sínum að borða. 2. minni hluti biður um 100 milljónir til að gefa fátækum börnum og fátækum Íslendingum að borða.