150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

sjúkratryggingar.

8. mál
[22:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kallast kannski ekki hefðbundið andsvar, en ég vil byrja á því að þakka hv. velferðarnefnd og öllum flokkum og öllum flutningsmönnum sem hafa ekki hvikað í þessu mikilvæga máli sem ég tel vera mikið framtíðarmál, til lengri tíma en líka til skemmri tíma. Það má kannski segja að þetta sé dæmigert Covid-mál líka, að við séum svolítið að sýna fyrirhyggju og forsjálni. Ef við hlustum á sérfræðinga, sem við eigum ekki síst að gera á þessum tímum, þá er verið að spá miklu andlegu álagi og kvíðaröskun o.fl. með haustinu. Við erum með þessu að reyna að fyrirbyggja kostnað á næstu misserum og árum hjá fólki, ekki síst ungu fólki sem hefur til að mynda ekki í sjóði verkalýðsfélaga að sækja eða hefur byggt upp einhverja fjármuni til að leita sér sálfræðihjálpar.

Ég vil sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, en líka fyrrverandi formanni nefndarinnar því að þetta er í annað sinn sem málið kemur fram og það er búið að vinnast mjög vel. Fyrrverandi formaður nefndarinnar, hv. þm. Halldóra Mogensen, vann líka mjög ötullega að þessu. Ég verð að segja að málið hefur tekið jákvæðum breytingum og ég styð eindregið þá breytingu sem nefndin leggur til að í stað orðanna „annarrar klínískrar viðtalsmeðferðar“ og „sérfræðings, heimilislæknis eða sérfræðilæknis“ komi „annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna“ og „heimilislæknis, heilsugæslulæknis eða sérgreinalæknis“. Ég styð þessar breytingar og vil nýta tækifærið til að sýna að þingið geti unnið þvert á flokka. Já, þingið getur unnið bara nokkuð nútímalega. Við vinnum bæði til lengri og skemmri tíma, sýnum þessa forsjálni, en sýnum fyrst og fremst (Forseti hringir.) að það er gott að vinna hér á þingi þegar við sjáum svona mál njóta forgangs.