150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[01:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem á sér stað um það mikilvæga markmið sem þetta frumvarp fjallar um, sem við erum flest hér inni sammála. Í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks setti þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, þessa vinnu af stað, startaði þessu skrefi. Núverandi ríkisstjórn hefur með neyslurýmum og fleiri aðgerðum unnið áfram að þessu þannig að það eru allir að vinna að þessu mikilvæga markmiði. Við erum því ekki að greiða atkvæði hér í dag um hvort við viljum vinna að þessum markmiðum eða ekki heldur erum við miklu frekar að greiða atkvæði um hvaða leið við ætlum að fara. Ég tel að við þurfum að fara réttu leiðina og við þurfum að finna bestu leiðina til þess að ná þessu mikilvæga markmiði. Ég tel þessa leið ekki fullnægjandi og ekki vera til bóta og því greiði ég atkvæði gegn málinu.