150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gæti nefnt dæmi um tvö fyrirbæri á því sviði frá þessu ári sem ekki voru hugsuð til skamms tíma, heldur til langs tíma. Matvælasjóður — honum er ekki komið upp sem einhverju tímabundnu fyrirbæri á árinu 2020. Þetta er nýr sjóður sem við ætlum að láta lifa og sem fjármagna mun verkefni til aukinnar matvælaframleiðslu til langs tíma. Sama gildir um Kríu, sem fær mjög góða meðgjöf frá fyrsta degi og mun hjálpa til við að fjármagna nýsköpunarfyrirtæki þar sem einkaframtakið hefur sýnt að það hafi sömuleiðis trú á verkefnunum. Meðfjárfestir, Kría, ekki tímabundið fyrirbæri heldur langtímafjármögnunarsjóður sem skort hefur á Íslandi. Til viðbótar við þetta höfum við á undanförnum árum og áfram á þessu og næstu árum verið að stórauka framlög í samkeppnissjóðina. Ég er ekki í neinum ágreiningi við hv. þingmann um að fólk þarf að geta gert langtímaáætlanir. Það er ekki hægt að setja fólk af stað með stór verkefni og kippa síðan öllum stuðningnum af því á því næsta. En ég held einfaldlega að okkar verk segi allt sem segja þarf um þessi mál.