150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að sú endurskoðaða fjármálastefna sem hér er til umræðu er á frekar almennum nótum að mínu mati og fátt sem kemur á óvart. Samkvæmt lögum um opinber fjármál er gildistími fjármálastefnu til fimm ára eins og við þekkjum, en hér er verið að endurskoða stefnuna til tveggja ára, þ.e. frá 2018–2022. Það er óneitanlega sérstakt að því leytinu til að verið er að endurskoða stefnu aftur í tímann. Í raun ætti endurskoðunin að ná frá 2020–2024 og líta þannig fram á veginn þrátt fyrir að kjörtímabilinu ljúki eftir rúmt ár og ný ríkisstjórn og nýtt þing setji nýja stefnu. Fjármálaáætlun verður síðan lögð fram eftir u.þ.b. mánuð og endurskoðuð stefna skal síðan vera til fimm ára eins og segir í lögunum. Það er að mínu mati svolítið sérstakt að endurskoða það sem er liðið.

Ef við skoðum í upphafi nokkur tæknileg atriði sem ég vil fara yfir þá er á bls. 1 tafla þar sem textinn sem fylgir er ekki nógu skýr að mínu mati. Þegar maður les yfir stefnuna passar texti og tafla stundum ekki saman. Það á að gera ákveðna hluti en síðan er gengið skemur en segir í töflunni. Það er gott út af fyrir sig að þurfa ekki að nýta allt svigrúmið en hér vantar skýringar.

Á bls. 12 í kafla 2.5.1 segir að á næsta ári, 2021, stefni að óbreyttu í að halli ríkissjóðs nemi um 8% af vergri landsframleiðslu. Í töflunni á bls. 1 segir hins vegar að hallinn verði 9%. Þarna er að sjálfsögðu munur. Það er ýmist verið að tala um að svigrúmið sé 8% eða 9% og þetta mætti vera sett fram skýrar. Hér vantar ákveðið gagnsæi eins og krafan er gerð í lögum um opinber fjármál.

Á bls. 14 í kafla 2.5.4 er fjallað um skuldaþróun ríkissjóðs og sveitarfélaga og þar segir að skuldir fari úr 28% 2019 yfir í 51% 2022, sem er náttúrlega gríðarlega mikil skuldasöfnun. Ef farið er síðan í töfluna á bls. 1 má sjá að skuldirnar fara úr 27,5% í 56% árið 2022, en ekki 51% eins og segir á bls. 14. Þarna er heilmikill munur, 51% eða 56%, þegar rætt er um skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hér vantar skýringar í texta á því hvers vegna þessar tölur stemma ekki.

Á bls. 2 segir að lokamálsgrein orðist svo:

„Alþingi staðfestir að fjármálastefna þessi sé samkvæm þeim grunngildum og skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. laga um opinber fjármál, að teknu tilliti til 10. gr. laganna. […]“

Maður spyr sig: Er það svo? Mér þykir gagnsæið ekki nægilegt og ekki nægilega skýrt þegar tölur eru misvísandi þegar rætt er um skuldahlutfallið. Verkefnið núna er sem sagt að þingið staðfesti þessa lokamálsgrein, staðfesti það að stefnan sé samkvæmt lögum um opinber fjármál og fjárlaganefnd þarf síðan að leggjast í töluvert mikla rannsóknarvinnu til að geta sagt að svo sé og borið þau skilaboð aftur hingað í þingsal. Það skiptir miklu hvað fjármálaráð hefur fram að færa í þeim efnum og fjárlaganefnd kemur til með að funda með ráðinu eftir helgi, sem er ákaflega mikilvægt. En tíminn er stuttur til að rannsaka svo viðamikið mál.

Það sem vantar í þessa stefnu að mínum dómi er sérstakur kafli þar sem ráðuneytið gerir grein fyrir því hvernig þetta gengur upp, hvernig fjármálastefna í ríkisfjármálum á tímum mikillar óvissu í efnahagsmálum er í samræmi við lög um opinber fjármál. Það þarf að vera mun ítarlegri umfjöllun um það hvernig grunngildin samkvæmt lögunum eru höfð að leiðarljósi að mínum dómi og hvernig gengur að uppfylla þau. Það vantar meiri texta um það sem er meginverkefni Alþingis. Það vantar ítarlegri umfjöllun um hvert grunngildi fyrir sig og þau síðan öll dregin saman. Fylgir stefnan þeim? Því þarf að svara og það þarf að vera skýrt.

Á bls. 18 er fjallað um aðlögun fjármálastefnu í ljósi fjármálareglna í stuttu máli en það vantar rökstuðninginn fyrir því og að gerð sé grein fyrir því hvernig grunngildin náist í því erfiða árferði sem við erum núna stödd í. Hvernig tryggjum við t.d. grunngildi sjálfbærni á einum versta tíma Íslandssögunnar í efnahagsmálum? Þetta ætti að liggja fyrir með rökstuðningi og þingið og þingmenn síðan að geta metið þann rökstuðning. Því miður eru þessir mikilvægu þættir allt of almennt orðaðir í þessari stefnu. Hvernig ætlar ríkisstjórnin t.d. að tryggja stöðugleika í fjármálastefnu á tímum mikils atvinnuleysis? Stefnan á að varða þá leið sem þarf til að ná þessum markmiðum. Ríkisstjórnin verður að hafa sýn, leið sem er farin til þess að horfa á framtíðina. Heildarhugsunin á að vera framtíðarsýn.

Á bls. 3 í greinargerð segir að útlit sé fyrir mesta skell í afkomu og skuldaþróun hins opinbera frá stofnun lýðveldisins. Hér vantar að mínum dómi nánari umfjöllun frá ráðuneytinu um þetta af þeim sem komu að vinnu þessarar tillögu og um þetta ætti einnig að vera sérstakur kafli.

Á bls. 4 segir að gert hafi verið ráð fyrir 170 milljörðum kr. í heildarafgang af rekstri ríkissjóðs, uppsafnað á gildistíma fjármálastefnunnar. Þetta var svigrúmið í raun og veru sem við höfðum. Þetta sýnir kannski best höggið sem við höfum orðið fyrir, sem er náttúrlega gríðarlegt en sýnir jafnframt úr hverju ríkissjóður hafði að spila áður en höggið varð.

Ég vil víkja aðeins að töflu á bls. 9 þar sem fjallað er um hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það sem vekur athygli mína er að ekki er minnst á þau lönd sem við berum okkur gjarnan saman við, sem eru Norðurlöndin. Við erum í svokölluðu Norðurlandalíkani, ef svo má segja, og þarna ætti a.m.k. að tilgreina eins og tvö Norðurlandaríki. Síðan er ekki minnst á hvað átt er við þegar talað er um þróuð ríki. Það er margt sem þarf að skýra frekar og er allt of almennt orðað í stefnunni.

Á bls. 20 er rætt um viðbrögð og áherslur stjórnvalda við endurskoðun stefnunnar. Þar er m.a. rætt um verðmæt störf, fjárfestingar og aukna hagsæld. Allt eru þetta göfug markmið á almennum nótum, að verið sé að nota fjármagn til atvinnusköpunar. Slíkt ætti að mínu mati að miða að því að skapa góð störf. Ég hefði viljað sjá meiri umræðu um slíkt, t.d. hvort verið sé að skapa störf fyrir konur og skapa hágæðastörf. Það var réttilega nefnt í þessari umræðu að t.d. á Suðurnesjum er ein kona af hverjum fimm atvinnulaus. Það hlýtur að eiga að vera markmiðið ef ríkissjóður er að leggja fé í atvinnusköpun að hún veiti arðsemi þannig að hér myndist góð störf sem skila tekjum til baka til ríkissjóðs.

Að lokum vil ég koma aðeins inn á verðbólguþróun. Veruleg lækkun gengis krónunnar hefur haft mest áhrif á það að verðbólgan fer vaxandi. Þetta kemur fram í nýbirtum Peningamálum Seðlabankans sem voru gefin út í gær. Þetta er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni. Innflutt matvara hefur hækkað nokkuð og fatnaður og heimilisbúnaður, svo dæmi sé tekið. Vonandi hefur Seðlabankinn rétt fyrir sér en hann telur að þetta verðbólguskot sem nú mælist sé líklegt til að vara ekki lengi og ég vona það heils hugar, en þarna er mikil óvissa. Það eru þó jákvæðar fréttir að almennt er verðbólga lítil alþjóðlega og vextir hafa aldrei verið eins lágir. Það þarf að fylgjast mjög náið með gengissiginu og leita allra leiða til þess að verðbólgan fari ekki úr böndunum ofan á þá efnahagslegu erfiðleika sem við glímum við, það yrði mikið áfall.

Á bls. 15 er gerð grein fyrir dekkri sviðsmynd af afkomu og skuldaþróun hins opinbera. Það er jákvætt að slík sviðsmynd sé núna sett fram. Eftir þessu hefur verið kallað bæði í fjárlaganefnd og af fjármálaráði. Við vonum svo sannarlega, eins og ég nefndi hér fyrr, að þessi dökka sviðsmynd muni ekki raungerast því að það yrði okkur gríðarlegt áfall ofan á það sem nú þegar hefur dunið yfir okkur. Sviðsmyndin gerir ráð fyrir að önnur stór bylgja veirufaraldursins komi upp snemma árs 2021 og efnahagsbatinn hefjist ekki fyrr en 2022 þannig að til mikils er að vinna að það dynji ekki yfir okkur ofan á allt annað.

Ég sé það, herra forseti, að tími minn er á þrotum. Í fyrstu umferð í umfjöllun um þetta mikilvæga mál vil ég segja að mér finnst, eins og ég nefndi í upphafi, þessi stefna vera allt of almennt orðuð. Það er margt sem þarf að skýra betur og það eru misvísandi tölur í töflum (Forseti hringir.) og svo í texta. En að sjálfsögðu er mikil og mikilvæg vinna fram undan þar sem við fáum innan fjárlaganefndar að heyra álit álitsgjafa (Forseti hringir.) og sérstaklega hlakka ég til að heyra hvað fjármálaráð hefur fram að færa. Ég legg áherslu á það að nefndin fái góðan tíma til að fara yfir þetta.