150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[13:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni hér prýðisræðu við fyrri umr. og mjög gagnlegar ábendingar. Ég tek undir með honum að fram undan er vinna hv. fjárlaganefndar við að rýna þau afkomumarkmið, skuldamarkmið, horfur og þróun og samræmi í texta og greinargerð. Ég rak augun í sitthvað af því sem þingmaður benti á og var búinn að rýna. Mér fannst athyglisvert að hv. þingmaður kom inn á í texta á bls. 14. Þar kemur fram að byggt sé á mismunandi sviðsmyndum og skuldaþróunin sem birtist í töflunni er þetta hámark, 64%, árið 2022, en í texta er talað um 51%. Þar er miðað við að við þurfum ekki að nýta óvissusvigrúmið og vonandi fer nú svo.

En ef við þurfum að nýta allt svigrúmið sem birt er í töflunni og til að gefa stefnunni sveigju þannig að áætlanir haldi betur þá kann að fara svo að við þurfum að nýta 64%. Það er frekar til útskýringar. En ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að þetta eru mjög háar tölur ef uppsafnað óvissusvigrúm er 8% á þessum þremur árum, 2%, 3% og 3%, það eru þá 240 milljarðar. En ef við förum í skuldahámarkið erum við að tala um 300–400 milljarða þannig að það er svolítið mikill munur þar á sem við verðum að horfa til og fá útskýringar á.

Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi þennan samanburð á samdrætti hjá öðrum þjóðum. Ég skoðaði sjálfur Norðurlöndin og er þar vísað í Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og spá þar talað er um 6–7% samdrátt. Hann er einna mestur hér, 7,2%, en minnstur í Finnlandi, 6%, en þetta eru mjög sambærilegar tölur.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég segja frekar til upplýsingar en að vera með beint andsvar til hv. þingmanns og þakka honum fyrir ræðuna.