150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[14:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um fjármálastefnuna. Það sýndi sig að ekki stóð steinn yfir steini í fjármálastefnu sem var samþykkt í upphafi þessa kjörtímabils. Það kom strax í ljós vorið 2019 að nauðsynlegt reyndist að endurskoða hana vegna þess að eitt flugfélag fór á hausinn. Og nú erum við komin í þá stöðu að efnahagsleg áhrif Covid-19 faraldursins eru orðin svo veruleg að við þurfum eiginlega að leita heila öld aftur í tímann til að finna sambærileg áföll. Það breytir þó ekki því að hefði ríkisstjórnin sett strax í upphafi kjörtímabilsins raunhæfa og hóflega fjármálastefnu hefðum við verið betur í stakk búin til að takast á við óvænt áföll.

Nú horfum við fram á hallarekstur ríkissjóðs og mikla skuldasöfnun. Horfur eru á yfir 500 milljarða kr. halla á ríkissjóði á þessu ári og hinu næsta og skuldir ríkissjóðs gætu vaxið upp í 850 milljarða.

Þegar við gengum í gegnum hrunið fyrir rúmum áratug þá brugðust stjórnvöld við með því að draga saman útgjöld. Stjórnmálamenn veittu fögur loforð um skjaldborg sem slegin yrði um heimilin og ekki yrði vegið að öldruðum og öryrkjum. Við vitum hvernig það fór, við vitum hvað varð um tugþúsundir heimila og við vitum hver staða eldri borgara og öryrkja er í dag. Engu að síður var skorið niður í stuðningi við fátæka, aldraða og öryrkja með gífurlega slæmum afleiðingum sem þessi hópur glímir enn þá við í dag. Við vitum að fjöldi fólks missti heimili sín í þrotabú í eigu erlendra vogunarsjóða án þess að stjórnvöld gerðu neitt þeim til varnar. Því er eðlilegt að fólk hafi nú áhyggjur og sérstaklega eftir umræðu sem var fyrr í dag í sambandi við Covid og fjármálastefnu núna.

Það verður að tryggja að ríkið styðji við þjóðfélagshópa sem gjarnan verða hvað mest fyrir áhrifum samdráttar. Það eru þeir sem minnst hafa á milli handanna, fátækt fólk, aldraðir og öryrkjar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í andsvörum áðan: Belti og axlabönd. Þannig væri búið að tryggja kjör eldri borgara og öryrkja í almannatryggingakerfinu. Það verður að segjast eins og er að á sínum tíma sagði Davíð Oddsson þetta sama, þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að búið var að ganga frá nýjum lögum um almannatryggingar. Í 69. gr. laganna segir að ákvörðun um bætur skuli taka mið af launaþróun og bara taka mið af vísitölu neysluverðs ef hún er hagkvæmari. Hefur verið farið eftir þessu? Nei. Það er alltaf farið eftir neysluvísitölunni. Við sáum dæmi um það um síðustu áramót þegar launavísitalan var um 7% en hækkunin til eldri borgara og öryrkja var ekki nema rétt rúm 3%. Það er því ekki verið að fara eftir lögum og eldri borgarar og öryrkjar eru ekki með belti og axlabönd.

Síðan var tekist á um það að almannatryggingakerfið hefði hækkað um 100%, úr 40 milljörðum í 80 milljarða, og þetta væri þvílíkt góðæri fyrir eldri borgarana að þeir hefðu aldrei séð annað eins. Það er rétt að stór hópur eldri borgara hefur það rosalega gott. En það er líka stór hópur sem hefur það mjög slæmt. Það er stór hópur þarna úti sem hefur það þannig að lífeyrissjóðir hafa ekki skilað sér til þeirra eins og var haldið fram hér. Það verður að taka allt inn í dæmið, alla útreikninga í dæminu. Í því samhengi, á þessu sama tímabili sem menn eru að hæla sér af því að almannatryggingakerfið hækki úr 40 í 80 milljarða, hafa skerðingarnar í kerfinu hækkað mikið á sama tíma. Þær eru komnar yfir 60 milljarða í dag og eru að aukast. Ef allt þetta er dregið í rétta línu þá þurfa þeir sem verst eru staddir í þessu kerfi að herða sultarólina enn einu sinni og það verulega.

Síðan kom hérna fram sú ótrúlega fullyrðing að króna á móti krónu skerðingin væri horfin. Hún er ekkert horfin, við vorum að samþykkja hana núna í vor í búsetuskerðingunum fyrir allra verst stöddu eldri borgara á landinu, sem voru áður með kannski 70.000–80.000 kr. Við samþykktum það, og ég varð að samþykkja það vegna þess að það var ekki hægt annað, að þeir færu í 90% af þessum ömurlegu lægstu bótum sem þetta fólk á að lifa af. Bara 90%, þeir eru 90% ríkisborgarar, 10% tekin af þeim. Og allt sem þeir fá aukalega er skert krónu á móti krónu. Þannig að núna er hægt að dusta rykið af þessu máli fyrir næstu kosningar og segja að þeir ætli afnema krónu á móti krónu skerðingar í búsetuskerðingum niður í 65 aura á móti krónu eins og er hjá öryrkjunum og hefur verið undanfarin ár. Og hvað hefur ríkið sparar sér mikið á þessu tímabili eftir að hafa tekið krónu á móti krónu af ellilífeyrinum og hefur látið það viðgangast í þrjú ár hjá öryrkjum?

Ljóst er að leita verður einhverra lausna ef við eigum að vinna okkur út úr þessari kreppu. Það þarf að endurskipuleggja núverandi fiskveiðikerfi til að tryggja að þjóðin fái fullt verð fyrir auðlindina og gefa t.d. handfæraveiðar frjálsar, það væri þjóðráð núna, en ekki að stoppa þær. Þeir sem eru í laxeldi á Íslandi, eins og hér kom fram, borga ekkert en í Noregi borga menn tugi milljarða. Hvers vegna í ósköpunum látum við þá ekki borga, þó ekki væri nema helmingurinn af því sem menn borga í Noregi, og nota það inn í almannatryggingakerfið og heilbrigðiskerfið?

Þá þarf að breyta skattkerfinu og koma í veg fyrir sívaxandi ójöfnuð og skattleggja þá sem maka krókinn í stað þess að skattleggja þá sem herða sultarólina, því að þeir eru búnir að finna breiðu bökin. Það eru eldri borgarar, öryrkjar, láglaunafólk og atvinnulausir. Við þurfum að vernda heimilin gegn kröfuhöfum og koma í veg fyrir að aftur safnist þúsundir íbúða á hendur nokkurra auðmanna sem síðan sjá um að stórhækka leiguverð, hækka húsaleiguna hjá þeim sem síst skyldi. Ég hef séð húsaleiguhækkanir frá 30.000 kr. og upp í 50.000 kr. hjá fólki sem hefur ekki einu sinni efni á því að hún hækki neitt. Óskammfeilnin er algjör. Á sama tíma erum við að fara að samþykkja 16 milljarða kr. lánalínu til Icelandair.

Hvað erum við að gera til að sjá til þess að við séum sjálfbær í matvælaframleiðslu, sjálfbær t.d. með grænmeti? Ekkert. Hvernig væri nú að við settum peninga í það að við værum sjálfbær með grænmeti á Íslandi? Ef það er hægt að framleiða grænmeti erlendis þá eigum við líka að geta framleitt það á Íslandi. Tæknin er orðin það mikil og fullkomin að það ætti ekki að vera nokkurt vandamál að setja af stað risagrænmetisframleiðslu. En það er enginn metnaður til þess. Það er enginn metnaður til að fara út í svoleiðis hluti vegna þess að metnaðurinn liggur í furðulegum hlutum eins og krónu á móti krónu búsetuskerðingum, líkt og ég sagði áðan. Þegar þau lög voru samþykkt var það furðulegasta við þetta allt saman að það kostaði aukna vinnu, kostaði tugi milljóna, 40–50 milljónir aukalega, að setja krónu á móti krónu skerðinguna á. Ríkisstjórnin var tilbúin til þess að setja mann í vinnu, breyta tölvukerfinu með tilheyrandi kostnaði í þeim eina tilgangi að skerða þá sem síst skyldi.

Ég segi fyrir mitt leyti: Ég held að það sé kominn tími til þess að sú ríkisstjórn fari frá sem hefur ekki meiri metnað en það að hún er tilbúin að borga og auka skuldir ríkissjóðs við það að skerða þá sem síst skyldi. Þarna hefði hún getað sparað sér tugi milljóna.