150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[15:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum endurskoðun ríkisfjármálastefnu í fyrri umr. fyrir árin 2018–2022. Umræðan í dag hefur verið býsna góð að því leytinu til að hún hefur verið afmörkuð. Við erum að leggja drög að þeim ramma sem liggur til grundvallar ríkisfjármálaáætlun, og svo fjárlögum. Hæstv. ráðherra fór í framsögu sinni vel yfir undirliggjandi forsendur og tildrög þess að við erum í þeim sporum að breyta stefnunni öðru sinni, sem er auðvitað nokkuð sem maður leiddi ekki einu sinni hugann að í upphafi kjörtímabils að gæti orðið raunin. Það leikur hins vegar enginn vafi á nauðsyn þess að endurskoða stefnuna nú og markmiðin sem ramma inn ríkisfjármálin, markmið um heildarafkomu, skuldir og skuldaþróun í samhengi við verðmætasköpun eða verga landsframleiðslu. Það er að sama skapi mikilvægt að það sé gert í skilvirku sambandi við peningastefnu. Fyrr í dag var opinn fundur hv. efnahags- og viðskiptanefndar og Seðlabankans þar sem seðlabankastjóri fór yfir nýjustu vendingar í samhengi við útgáfu Peningamála og reglubundna vaxtaákvörðun. Mikill gjaldeyrisvaraforði hefur reynst vel til að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og þrátt fyrir að gengið hafi lækkað hefur tekist ágætlega að halda verðbólgu í skefjum þannig að gengisóstöðugleiki bætist ekki við þær hremmingar sem fylgja afleiðingum af þeim kringumstæðum sem við erum í, m.a. vegna sóttvarnaaðgerða og minnkaðrar eftirspurnar og hægagangs sem fylgir slíkum aðgerðum sem við og allur heimurinn höfum upplifað síðastliðna mánuði.

Seðlabankastjóri orðaði það svo að við værum að hefja seinni hálfleik og að fyrri hálfleikur hefði spilast vel og stjórnvöld og Seðlabankinn hefðu unnið vel saman. Það er mjög dýrmætt, en sú hefur ekki alltaf verið raunin. Ég held að skýr lagarammi opinberra fjármála, og kannski þroski stjórnmálanna og skilningur gagnvart sjálfstæðri peningastefnu, hafi þar eitthvað að segja, en það er auðvitað sagt hér sem órannsökuð ályktun í framhaldi af samræðum í andsvörum við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson. Þetta er kannski meira tilfinning. En sagan, þegar við vinnum með þennan lagaramma, mun leiða í ljós eða alla vega gefa tilefni til að kanna hvernig það þróast. Eftir sem áður má segja að tilgangur laganna sé að stuðla að ábyrgri stjórn opinberra fjármála, gera ákvarðanir gagnsærri og ákvarðanatöku þar af leiðandi betri.

Það er staðreynd að sterk fjárhagsstaða ríkissjóðs, sem blessunarlega er til staðar og byggð hefur verið upp á undanförnum árum með skynsamlegri fjármálastjórn, gerir það að verkum að við höfum getað mætt þessu áfalli af krafti og í senn stutt við hagkerfið, heimilin og fyrirtækin með mótvægisaðgerðum og viðhaldið þeim áformum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í fjárlögum fyrir þetta ár. Við höfum ekki beitt aðhaldi og ég held að allir séu sammála um að það væri afar óskynsamlegt og óráðlegt við slíkar aðstæður og hlýtur að vera full samstaða um að það sé aldrei sjálfgefið. Það er staðreynd að sóttvarnaaðgerðir, eins og takmörkun ferða til og frá landinu, hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir samfélagið. Maður hefur séð það í umræðunni þann tíma sem við höfum verið að kljást við þetta að það er nánast ómögulegt að reikna kostnað algerlega til hlítar samhliða slíkum aðgerðum í einhverjum samanburðarfræðum. Það sem við vitum þó er að áhrifin á samfélagið og ríkissjóð eru mjög afgerandi. Það er mikið tekjufall sem hefur um leið áhrif á þau markmið sem við erum að endurskoða í stefnunni um afkomu, skuldir og þróun á næstu árum. Það mun taka okkur nokkurn tíma að rétta hagkerfið og efnahaginn við og ná fyrri styrk í framleiðslu og verðmætasköpun. Og það er verkefni okkar hér að reyna að feta þá stigu, hvað sé skynsamlegt að gera og hvað við getum gefið okkur langan tíma í að rétta okkur við. Hvað er viðunandi að við lifum við, út frá grunngildum um sjálfbærni og stöðugleika, t.d. varðandi skuldamörkin sem birtast í stefnunni og svo afkomuna fyrir hvert ár? Það er m.a. verkefni okkar í þinginu og nefndum, nefndastarfi næstu daga að ræða þá hluti og komast að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

Horfur í efnahagsmálum eru háðar mikilli óvissu, meiri en við erum vön að fást við alla jafna, og því met ég mikilvægast að horfa til þess sveigjanleika sem settur er fram með svokölluðu óvissuvigrúmi. Ég get velt þessari spurningu upp: Er það nóg? Hv. þm. Birgir Þórarinsson kom að hluta til inn á það með samanburði á töflu þar sem hámarksviðmið eru gefin, og greinargerð þar sem ræddar eru mismunandi sviðsmyndir, að þetta eru gríðarlega háar fjárhæðir sem um er að ræða í óvissusvigrúminu sem gefið er. Uppsafnað til þriggja ára erum við að tala um 240 milljarða. Ef við förum í hið algilda skuldahámark sem gefið er upp og verðum komin í það árið 2022 að skulda 64% af verðmætasköpuninni á einu ári, þá er þar mismunur upp á 140–150 milljarða. Það verðum við auðvitað að kanna og það skiptir máli þegar við neglum það í þessari stefnu og römmum inn hvaða möguleika við höfum á næstu árum til að takast á við þetta. Ég met það svo að við þurfum að kanna samhengi óvissusvigrúms og skuldamarka og svo þeirra grunngilda sem setja okkur viss takmörk í þessari vinnu í ríkisfjármálunum. Þegar við horfum á trúverðugleikastefnu er ekki hægt að hafa endalaust svigrúm. Fjármálaráð benti á það frá upphafi að við værum að setja stefnuna í spennitreyju, eins og það kallaði það, þ.e. að sveigjanleikinn væri ekki nægur. Sveigjanleikinn á heima í stefnunni þannig að áætlanir haldi betur og við getum betur tekist á við þær breytingar sem við horfum alla jafna á í hagkerfinu frá einu ári til þess næsta, en kannski ekki við þær hrikalegu aðstæður sem við erum að kljást við akkúrat nú. Ég held að það sé afar skynsamlegt að teikna inn þetta óvissusvigrúm.

Ef ég tek eitthvað eitt út úr umræðunni í dag sem mér finnst við öll vera sammála um — okkur getur greint á um leiðirnar og önnur tengd atriði sem snúa að velferðarkerfinu og bótakerfunum — þá er það að verkefni okkar sé að verja störfin, stækka kökuna hratt aftur, vegna þess að framleiðslutapið er mikið á skömmum tíma og það hefur gerst hratt, og skapa ný störf. Það er verkefnið. Við erum blessunarlega vön því hér á landi í gegnum tíðina að búa við hátt atvinnustig. Það er auðvitað grunnurinn að lífskjörum að hafa vinnu, hafa ofan í sig og á. Það er þannig samfélag sem við höfum litið til, erum vön og viljum byggja upp og við erum öll sammála um að það sé verkefnið. Við verðum síðan að ræða leiðirnar í þeim efnum og það verður rætt meira þegar við förum eftir mánuð að ræða ríkisfjármálaáætlun og fjárlögin og þá málefnasviðin sem fylgja. Við ræðum það nánar þegar þar að kemur, en það er bara mánuður í það.