150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég held samt að við séum enn þá hvor að tala um sinn hlutinn. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður er svo ólánsamur að vera með yfirdrátt, en þeir sem eru með yfirdrátt til að mæta jafnvel óvæntum skakkaföllum eða óvæntum útgjöldum eða tímabundnum breytingum á atvinnu eða einhverju, þurfa um síðir að greiða yfirdráttinn aftur upp. Það sem á ég við með því að ríkissjóður og almenningur séu eitt og hið sama er að ef við rekum ríkissjóð með halla, eins og við þurfum að gera núna í nokkur ár, þá gengur það náttúrlega ekki til lengdar. Við munum á einhverjum tíma þurfa að jafna þá aðstöðu, það reikningsdæmi, að ná þeim halla til baka með einhverju móti. Og það munum við að sjálfsögðu gera með því að almenningur og fyrirtæki munu á einhverjum tímapunkti væntanlega vera með meiri greiðslugetu af því að þau hafa staðið í skjóli ríkissjóðs, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. En mér finnst það einföldun að orða þetta svona vegna þess að skuldadagarnir munu koma og það er þess vegna sem það er svo brýnt núna að gera langtímaáætlanir sem byggist á því að hér sé fólk ekki skattað í drep. Við höfum reyndar spor til að hræðast. Við höfðum hérna ríkisstjórn árið 2009 sem ætlaði að skatta okkur út úr kreppu og reyndi það með skelfilegum afleiðingum. Fjöldi fólks missti eigur sínar og var á vonarvöl og er það enn. Þannig að við ætlum ekki að fara í þau fótspor. En það kemur að því, hv. þingmaður, að við þurfum að leiðrétta halla ríkissjóðs, þ.e. að endurgreiða hann með einhverjum hætti þegar storminum slotar. Þannig að mér finnst rangt að gefa það til kynna að almenningur sé frír og frjáls að því að ríkissjóður taki höggið þó að hann geri það tímabundið.