150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:09]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst það vera grundvallarmisskilningur á opinberum fjármálum að bera þau saman við fjármál einstaklinga. Að einstaklingur sé með yfirdrátt er bara allt annað mál en að ríkissjóður fjármagni opinberan rekstur með skuldsetningu, vegna þess einfaldlega að sú fjárfesting ríkissjóðs í þjónustunni sem skuldirnar standa straum af, skilar sér í sparnaði þegar fram í sækir. Ef við ætlum að vera með langtímaheildargreiningu á þessu, eins og þingmaðurinn talar um, þá er þetta allt tekið saman. Þá er það ekkert eins og þegar maður skuldar bankanum þúsundkall að þurfa borga honum 1.200 kall þegar kemur að skuldadögum, heldur er maður allt í einu búinn að eignast einhvern pening í verðmætunum sem felast í betra samfélagi, auknu heilbrigði, auknu menntunarstigi, auknum hagvexti, öllu því sem skuldsetning ríkissjóðs í dag snýst um, fyrir utan síðan allar neikvæðu afleiðingarnar sem við losnum við. Við losnum við aukin veikindi, aukið þunglyndi og — ja, bara aukna vansæld í samfélaginu. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður gerir með yfirdráttinn í bankanum, en ég efast um að sá peningur færi honum hamingju. Skuldsetning ríkissjóðs getur fært samfélaginu aukna hamingju með því að fólk þurfi ekki að vera fátækt, neiti sér um læknisþjónustu, svelti. Er það ekki vel til þess vinnandi?