150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin.

[13:45]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, þær eru margar, ákvarðanirnar sem eru erfiðar og snúnar vegna heimsfaraldurs sem enginn hér inni ber ábyrgð á. Við sjáum fram á mikla kreppu, mikinn bráðavanda og mikið atvinnuleysi. Ég er hrædd um að það verði meiri og dýpri kreppa vegna pólitískra ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Við sáum mikla samstöðu fyrri part ársins, allt var gert til að koma böndum á veiruna og það tókst með ágætum. Það var árangur sem við getum öll verið stolt af. En afleiðingar þeirra hörðu aðgerða voru líka gríðarlegar, sérstaklega fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem fótunum var kippt undan.

Í maí var síðan tekin ákvörðun, vel að merkja af hálfu ríkisstjórnarinnar, af því að ekkert samráð hefur verið, um að liðka fyrir því að fólk gæti komið til landsins. Við í Viðreisn báðum ítrekað um sviðsmyndir og plan á þeim tíma en fengum engin svör. Sumarið gekk síðan ágætlega en svo fór veiran að láta á sér kræla að nýju. Við báðum aftur um sviðsmyndir og plan, einhverjar upplýsingar á þeim tímapunkti, en fengum engin svör.

Um miðjan ágúst varð svo kúvending í stefnu ríkisstjórnarinnar. Landinu var hér um bil lokað fyrirvaralaust og aftur höfum við beðið um sviðsmyndir og plan. Okkur er ekki svarað en mér sýnist atvinnuvegaráðherra í raun hafa svarað þeim spurningum okkar. Undirbúningurinn er ónægur. Kallað er eftir auknum greiningum. Við getum því sagt: Á meðan veiran er sjálfri sér samkvæm er ríkisstjórnin það ekki.

Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé raunverulega svo að litlar sem engar greiningar hafi legið á bak við þær ákvarðanir sem voru teknar bæði í sumar og nú í ágúst. Hvar eru þær greiningar? Í öðru lagi, og ég ítreka að ég vil fá svar við þeirri spurningu, spyr ég: (Forseti hringir.) Var samstaða um þessar ákvarðanir meðal allra ráðherra í ríkisstjórninni, og þá ekki síst um hertar aðgerðir á landamærunum? (Forseti hringir.)