150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hertar aðgerðir ríkisstjórnarinnar við landamærin.

[13:50]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það varð kúvending. Það er ekkert að því. Reynið bara að útskýra fyrir okkur af hverju var kúvent. Það er það sem við erum að biðja um. Af hverju var kúvent í ákvarðanatöku stjórnvalda? Af hverju var það gert? Og enn og aftur svarar forsætisráðherra ekki spurningunni: Var samstaða í ríkisstjórninni meðal allra ráðherra um að fara þessa leið? Ég vil minna á það að hæstv. forsætisráðherra var sammála mér í vor um að það þyrfti að rökstyðja ákvarðanir, bæði efnahagslegar en ekki síst þær sem skerða frelsi fólks. Þær röksemdir hafa ekki komið á mitt borð a.m.k. Dýrmæt samstaða myndast ef fólk fær upplýsingar og skilur forsendur á bak við stórar ákvarðanir. Fólk þarf ekki að vera sammála ákvörðuninni en fólkið okkar þarf að vita, skynja og skilja að á bak við ákvörðunina var nægur undirbúningur og góðar greiningar. Það er það sem fólk er að kalla eftir í mestu vinsemd. Við þurfum meiri upplýsingar. Við þurfum að skilja (Forseti hringir.) hvað býr að baki kúvendingum ríkisstjórnarinnar.