150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:47]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Í framhaldi af því sem ég spurði áðan langar mig að spyrja, vegna þess að í fjölmiðlum hefur verið rædd hugsanleg sölutrygging hlutabréfa í fyrirhuguðu útboði og í því sambandi hafa verið nefndir ríkisbankarnir, Íslandsbanki og Landsbankinn: Hefur áhætta ríkisins vegna þess verið metin? Hefur hæstv. ráðherra gefið Bankasýslunni einhver fyrirmæli um það hvernig stjórnir bankanna eigi að beita sér í þeim efnum? Ég vil líka leyfa mér að spyrja um mat á verðmætum veðandlaganna sem eru upp talin, þ.e. vörumerki, bókunarkerfi o.s.frv. á móti þeirri fjárhagslegu áhættu sem tekin er af hálfu ríkisins í þessum efnum.