150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[15:20]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Eins og ég nefndi áðan er þetta náttúrlega ekki mál sem neinn hefði kosið að þyrfti að taka fyrir en aðstæðurnar eru þannig í samfélaginu í dag að reksturinn er þungbær hjá mörgum fyrirtækjum. Icelandair er kerfislega mikilvægt fyrirtæki, það deilir held ég enginn um það. Hvað það felur í sér er nokkuð sem við höfum rætt mikið hér á þingi undanfarin ár og ekki síst með hliðsjón af því hvernig ríkið eigi að koma að bæði reglusetningu sem snýr að kerfislega mikilvægum fyrirtækjum en líka aðstoð við þau þegar þörf er á. Mér hefur hingað til ekki litist svakalega vel á það að veita ríkisábyrgð með þessum hætti og ég verð að viðurkenna að trú mín á þá tilteknu leið minnkaði við andsvörin sem voru hér áðan vegna þess að bara í einu af fimm tilfellum svaraði hæstv. fjármálaráðherra spurningu hv. þingmanna með beinu svari og það var í tilfelli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar þar sem kom vissulega nokkuð gott svar. En í öllum hinum tilfellunum vantaði svör, ekki síst við spurningu minni um hvaða sviðsmyndir voru teknar fyrir. Þetta skiptir máli þegar maður er að tala um ríkisábyrgð upp á annan tug milljarða eða þar um bil, 108 milljónir dollara, vegna þess að þetta verður gert í dollurum. Það skiptir máli að búið sé að greina þetta í þaula og þá hlýtur að vera hægt að ræða hvaða möguleikar komu til skoðunar. Höfum í huga að hlutverk okkar á þingi og ekki síður í ríkisstjórninni er að taka bestu mögulegu ákvarðanir fyrir landið. Í því felst að við þurfum að vera með blákalt mat á hagsmunum sem getur þýtt að við stöndum í pontu Alþingis og fabúlerum um hvort tiltekið fyrirtæki eigi að fara eina leið eða aðra. Í öllu falli þurfum við að geta rætt alla möguleikana. Og vegna einmitt þessa og vegna þess að ég átti ekkert sérstaklega von á því að fá gott svar frá hæstv. fjármálaráðherra þá gerði þingflokkurinn minn í Pírötum sína eigin sviðsmyndagreiningar í málinu, til þess að reyna að skoða hvaða möguleikar væru fyrir hendi.

Staðreyndin er sú að það er engin leið gallalaus. Ef maður gengur út frá þeirri grunnforsendu að það þurfi með einhverjum hætti að bregðast við uppkomnu ástandi hjá Icelandair þá eru voðalega fáar góðar leiðir. Reyndar eru engar góðar leiðir. Það voru einna helst þrjár sviðsmyndir sem stóðu upp úr og það er fyrst sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið að fara, að veita ríkisábyrgð, sem hefur þá kosti að það er veð sem er hægt að innkalla ef til gjaldþrots kemur síðar meir. En höfum í huga að það veð byggir m.a. á merkjum fyrirtækisins sem í eru fólgin einhver verðmæti en þau eru ekkert endilega svakalega mikil. Svo er það bókunarkerfi sem snýst í raun ekki um forritskóðann, jú, hann er einhvers virði en það sem er verðmætt þar eru gögnin. Það eru verðmæti falin í því að skilja hegðun farþega sem koma til landsins en eins og hefur verið fjallað svolítið mikið um undanfarnar vikur er komið upp það ástand í flugrannsóknum á heimsvísu að öll gögn sem öll flugfélög hafa eru allt í einu orðin marklaus vegna þess að enginn veit hvernig farþegar munu hegða sér núna þegar Covid-reglur eru í gangi og reglum er breytt jafnvel margsinnis í viku í sumum löndum. Gögnin eru minna virði í dag en þau voru áður. Síðan kemur þriðja atriðið og það eru lendingarheimildir eða það sem hefur verið kallað á ensku, með leyfi forseta, „slots“, sem liggur ekki einu sinni fyrir að sé hægt að framselja. Það eru dæmi um það, t.d. frá Chicago í fyrra, þegar flugfélag seldi lendingarheimildir sínar og var samningnum um lendingarheimildir í raun rift. Það stendur víst til að komast að því hvort hægt sé að framselja þær en það er óvissa um það, fyrir utan að það er kannski minni eftirspurn eftir þeim en oft áður. Annar kostur við að veita ríkisábyrgð er að sú leið rekst minna en margar aðrar leiðir utan í 3. gr. EES-samningsins og það er vissulega búið að fá samþykki ESA fyrir þessu, sem er ágætt. Þriðji hugsanlegi kosturinn væri að ríkið myndi fá áhættugjald ef allt gengi upp, nema það að í þessu frumvarpi er einmitt verið að taka úr sambandi öll lög um ríkisábyrgðir og fyrir vikið er ekkert áhættugjald til staðar. Enginn þeirra varnagla sem eru til staðar í lögum um ríkisábyrgðir eru látnir gilda um þetta verkefni á sama hátt og þeir voru ekki látnir gilda um Vaðlaheiðargangaverkefnið á sínum tíma, og mér þykir út af fyrir sig ástæða til að hafna þessu, burt séð frá því hvort maður trúi á markmiðið. Það eitt að vera að taka lög um ríkisábyrgðir úr sambandi í hvert einasta skipti, liggur við, er mjög slæmt og sýnir ákveðinn brotavilja gagnvart því markmiði sem var í þeim lögum til að byrja með.

Ókostirnir við ríkisábyrgð eru margir. Þetta er í fyrsta lagi áhætta fyrir almenning. Almenningur er að taka á sig ákveðna áhættu fyrir hönd fyrirtækis og fær í raun mjög lítið fyrir og sannarlega ekki áhættugjaldið. Það mætti segja að það sé óábyrg notkun á almannafé að gera þetta og auk þess er þetta siðferðisleg áhætta. Það er verið að búa til það fordæmi að ef fyrirtæki er nógu mikilvægt geti það gengið að því vísu að ríkið muni hlaupa undir bagga með því. Þetta býr til vont fordæmi og er einnig hinn klassíski CC-PP-leikur, þ.e. einkavæðing á hugsanlegum framtíðarhagnaði en þjóðnýting á allri áhættunni. Maður veltir því auðvitað fyrir sér í þessu samhengi hvort þetta væri til umræðu ef ekki væri fyrir pólitísk tengsl. Höfum líka í huga að ríkið er ekki hlutlaus aðili á markaði. Með því að undirgangast ríkisábyrgð er ríkið að skapa trúverðugleika fyrir fyrirtækið og það skiptir auðvitað máli fyrir væntanlegt hlutafjáruppboð. En það er verið að segja samtímis: Við trúum nógu mikið á þetta fyrirtæki til að veita þessa ábyrgð en leyfum samt markaðinum einhvern veginn að ráða þessu. Svo er látið eins og þetta sé hrein markaðslausn, sem það er augljóslega ekki. Það er verið að koma inn í þetta með ríkisafskipti.

Þá að því hvaða aðrar leiðir eru í boði. Einn möguleiki, sem ég hef rætt áður, er að kaupa hlutafé eða þynna út hlutaféð, sem hefur kosti og galla. Það væri t.d. mikill kostur ef fyrirtækið yrði minna skuldsett eftir að öllu væri lokið. Þetta fellur ekki undir hina klassísku CC-PP-áhættu. Það þýðir að ríkisstjórnin hefði möguleika á því að skipa meiri hluta í stjórn, sem þýðir ekkert endilega að það yrði skipt út en það byggi til þann möguleika að búa til eigendastefnu fyrir fyrirtækið. Þetta hefur þann ókost að flokkast líka sem pólitísk afskipti. Það er líka hætta á að það verði til einhvers konar, með leyfi forseta, „sunk cost fallacy“, þ.e. að til verði það ástand að góðu fé sé kastað á eftir slæmu ef fyrirtækinu gengur illa. Og vissulega er það rétt sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan, að ef til gjaldþrots kæmi yrði ekkert eftir, en bókunarkerfi og upplýsingar og eitthvað álíka kæmi á móti. Þarna er annar valkostur. Ég er ekki viss um að hann sé endilega verri, ég held jafnvel að hann gæti verið betri en að veita ríkisábyrgð. Ég skil alveg að fólk gefi sér mismunandi forsendur en við þurfum alla vega að bera þetta saman.

Ég held að þriðja leiðin, sem ég nefndi stuttlega í andsvari áðan, hefði getað verið skásta leiðin og hún er vissulega mesta markaðsleiðin. Hún væri að hreinlega eftirláta markaðinum að ákveða hvort hann trúi á þetta fyrirtæki eða ekki og ekki skipta okkur af því frekar nema ef til þess kæmi að fyrirtækið færi í þrot og ganga þá inn í það á sama hátt og gengið var inn í bankana árið 2008. Það hefur ákveðna kosti, myndi búa til hreint fyrirtæki með flugrekstrarinnviði og annað. Það er engin siðferðisáhætta við þessa leið. Það eru engin fordæmi sem verða til með henni. Þetta er nákvæmlega það sem Ísland hefur margsinnis verið hrósað fyrir að hafa gert í tilfelli bankanna. En leiðin er ekki heldur gallalaus, t.d. myndi hún minnka líkurnar á endurfjármögnun. En það sem er erfiðast í þessu er að það tekur marga mánuði að fá allar heimildirnar hjá EATA, fyrir utan það að lendingarheimildirnar, eins og ég nefndi áðan, eru ekki endilega framseljanlegar. Það eru samskipti og viðskiptasambönd við alls konar birgja og annað sem myndu væntanlega rofna í þessu tilfelli og þetta yrði almennt frekar erfitt.

Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki hver rétta leiðin er. Það kann að vera að þetta sé fín leið sem ríkisstjórnin er að fara en ég hef ekki verið sannfærður enn þá og svaraleysi hæstv. ráðherra hjálpaði ekki til. En við munum eiga þetta samtal á næstu dögum. Til framtíðar ættum við að horfa aðeins í hvaða möguleika Icelandair hefur. Icelandair er og hefur verið mjög burðugt fyrirtæki í gegnum tíðina og það er markvert að það hefur ekki þurft ríkisaðstoð mjög lengi. Það hefur verið vel rekið. Mörg áföll hafa dunið á undanfarið, Max-vandinn og þessar óvenjulegu aðstæður í kringum Covid o.fl. Auðvitað er mikilvægt fyrir þjóð eins og Ísland að hafa góð tengsl og góða möguleika á því að komast út úr landinu. Fyrirtækið er rosalega vel staðsett og er tenging milli Evrópu og Ameríku. Það er ákveðin þróun í flugiðnaðinum að fara meira í það sem hefur verið kallað langar og mjóar flugleiðir. Sú þróun á örugglega eftir að halda áfram og það á eftir að gjörbreyta aðstæðum bæði í Evrópu og Ameríku og mögulega styrkja stöðu okkar á Íslandi sem millilendingarstaðar. Eftirspurnin á eftir að aukast, trúi ég, og það er ýmislegt sem bendir til þess að Icelandair geti orðið mjög sterkt fyrirtæki ef það lifir þessa krísu af.

Þegar maður skoðar hvaða fyrirtæki í flugiðnaðinum hafa átt erfitt í þessari krísu eru þau náttúrlega fjölmörg og eiginlega merkilega mörg en það hafa mjög fá endað í gjaldþroti. Flybe er eitt þeirra og það var svo sem í tæknilegu gjaldþroti áður en Covid-faraldurinn byrjaði. Avianca í Kólumbíu fór einnig á hausinn en það var bara að fylgja systurfélögum sínum og svo yfirtók ítalska ríkið flugfélagið Alitalia, sem var kannski undarlegasta yfirtakan af þessu tagi. En yfirleitt hafa ríki hér og þar um heiminn annaðhvort lagt til lánalínur eða bara keypt sig inn í flugfélög með nýju hlutafé. Það er auðvitað hægt að bera saman rekstraraðstæður hér við annað og sjá hvaða möguleikar eru í boði en til þess þarf einmitt þessi sviðsmyndagreining að hafa átt sér stað og til þess þarf að liggja fyrir þinginu og almennt í umræðunni af hverju ein leið er valin fram yfir aðra. Þetta er ekkert mikið flóknara en það.

Ég er ekki persónulega í þeirri stöðu á þessum tímapunkti að geta mælt með eða á móti þessari leið eða öðrum leiðum. Mér finnst ámælisvert að verið sé að kippa lögum um ríkisábyrgðir úr sambandi og ég held að við ættum jafnvel að sleppa því. En að öðru leyti þurfum við að gera eitthvað og þá þurfum við að skoða allar mögulegar leiðir og finna réttu leiðina. Ég bara vona að við göngum í það af eins miklum heiðarleika og hægt er.