150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál .

926. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. 20% út á land, svo ég byrji nú á því. Það er ákveðinn sveigjanleiki í því. Þetta er á ársgrundvelli og ef ekki er eftirspurn úti á landi þá færist það til höfuðborgarsvæðisins. Það var einmitt kallað eftir þessu. Í frumvarpsdrögunum var ekki gert ráð fyrir því en landsbyggðin kallaði eftir úrræðum hvað þau varðar vegna þess að á þeim svæðum þar sem fasteignaverð er lægra en byggingarkostnaður er ekki verið að byggja. Á sumum stöðum úti á landi, sem telja jafnvel yfir 1.000 manns, hefur ekki verið byggt húsnæði í 30 ár. Þannig að það fer enginn að byggja hagkvæmt húsnæði til að falla undir þessi skilyrði. Þá settum við inn þessi 20% og líka varðandi breytt húsnæði og endurgert húsnæði með aðra notkunarmöguleika til að koma til móts við þetta. Ég held að það sé ákveðinn misskilningur hjá sambandinu hvað þetta varðar. (Forseti hringir.) Ég kem þá bara að varasjóðnum á eftir.