150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[17:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa umfjöllun þar sem hann fór víða um og kom með margar ágætisábendingar og hugleiðingar hvað þetta varðar, því að þetta er nýtt úrræði og það skiptir máli hvernig það er. Ég ætlaði að benda hv. þingmanni á útleigu á húsnæðinu. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að sett verði reglugerð um að hægt verði að veita tímabundna undanþágu um útleigu íbúðarhúsnæðis. Við í nefndinni fengum tillögu að reglugerð, sem hefur kannski ekki ratað til hv. þingmanns þar sem hann kom svolítið seint inn í umræðuna. Þar er gert ráð fyrir að tímabundin undanþága fyrir útleigu íbúðarhúsnæðis taki m.a. tillit til atvinnu lántaka fjarri lögheimili eða til náms, veikinda, fötlunar eða annarra málefnalegra ástæðna sem væru tilgreindar og HMS myndi meta. Mig langaði bara til að koma því að.

Hv. þingmaður talaði mikið um skilyrðin í þessu, það yrði að vera ákveðið húsnæði og að verið væri að stýra búsetu. Væri ekki betra að hafa þetta þannig að hægt væri að vera víðs vegar um borgina eða um landsbyggðina, það væru fleiri valmöguleikar, en að byggja eitthvert hagkvæmt hverfi og stýra tekjulágum hópum þar inn?