150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[17:54]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann að einu vegna þess að hann spurði mikilvægrar spurningar, hvort sveitarfélögin verði tilbúin til að taka við og bjóða upp á möguleikann á uppbyggingu hagkvæms húsnæðis. Verða þau tilbúin með skipulag? Verða þau tilbúin með lóðir? Verða þau tilbúin með innviði, allt sem þarf til þess að þetta gangi upp? Það þykir mér sérstaklega stór spurning í ljósi þess að meiri hlutinn leggur til að endurskoðun laganna verði flýtt þannig að uppbyggingin eigi sér stað tveimur og hálfu ári eftir að þau taka gildi. Þótt sveitarfélögin vilji vera tilbúin með þetta allt saman getur samt liðið dálítið drjúgur tími þangað til að við komumst á þann áfangastað að úrræðið verði komið í fullan gang. Ef öll sveitarfélög fara 1. nóvember á fullt í að skipuleggja, gera og græja það sem þarf til að byggja upp hagkvæmar íbúðir á þeirra svæði, er ekkert víst að lyklar verði afhentir fyrr en að tveimur til þremur árum liðnum. Mig langar að heyra rök meiri hlutans fyrir því að endurskoðun laganna sé færð svo ofboðslega nálægt okkur í tíma. Tvö og hálft ár er örskotsstund þegar kemur að því flókna skipulagsferli sem fram undan er.