Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 134. fundur,  2. sept. 2020.

húsnæðismál.

926. mál
[19:47]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, hlutdeildarlán. Þegar þetta frumvarp kom fyrst fram fagnaði ég vel og innilega. Ég hugsaði með mér: Loksins erum við að fara að taka á málefnum þeirra sem helst þurfa á húsnæði að halda. Ég hugsaði með mér að þetta væri gott mál sem vel væri hægt að styðja. En því miður fæ ég enn og aftur óbragð í munninn vegna galla á máli. Hin gífurlega flýtimeðferð á þessu máli gerir það að verkum að málið er illa unnið. Það er af mörgu að taka. Ég var hugsi yfir því hvort ég ætti að vera á nefndarálitinu með fyrirvara, samþykkja það með fyrirvara, vegna þess að ég vildi gera það. En ég þurfti að hugsa mig vel og vendilega um og sá að ég þyrfti að setja svo marga fyrirvara að það væri ekki víst að það kæmist fyrir í þessu blessaða nefndaráliti.

Hvað er það sem er svona skrýtið við þetta frumvarp? Í fyrsta lagi nær þetta úrræði eingöngu til nýrra íbúða nema úti á landi þar sem verður hægt að gera gamla íbúðir upp, taka þær í gegn. Þá telst það í lagi. En við verðum líka að spyrja okkur: Hvað þýðir það á höfuðborgarsvæðinu að við erum eingöngu að lána til nýrra íbúða? Ég þekki það af eigin reynslu eftir að hafa átt bæði gamla og nýja íbúð og af nákvæmlega sömu stærð að verðmunurinn þar á milli er svakalegur, hann getur verið 20–40%. Sá sem ætlar að fara inn í þetta kerfi þarf að eiga 5% af eigin fé og síðan fær hann sennilega 20% hlutdeildarlán í flestum tilfellum, getur fengið allt að 30% hlutdeildarlán. Það sem ég óttast er að hlutdeildarlánið dekki ekki einu sinni verðmuninn á gamalli og nýrri íbúð ef þessi einstaklingur keypti sér hreinlega, ef hann gæti, gamla íbúð frekar en nýja. Og hvað segir það okkur líka? Það segir sig sjálft að ef maður er að kaupa gamla íbúð sem kostar 40 milljónir þá hefði hún sem ný íbúð kostað 55–60 milljónir. Þá er það gífurleg skuldsetning, mun meiri skuldsetning sem viðkomandi þarf að taka á sig.

Síðan er annað í þessu sem er eiginlega það furðulegasta. Í upphafi var í frumvarpinu gert ráð fyrir 25 ára lánstíma á hlutdeildarláninu en hann er kominn niður í 10 ár, með framlengingu um fimm ár, í 15 ár, og svo þarf aftur að fara í framlengingu, frá 15 árum í 20 ár og jafnvel aftur um fimm ár, úr 20 í 25 ár. Einfalt kerfi? Nei. Samt var einmitt krafa um að hafa kerfið eins einfalt og hægt væri. Það voru skilaboðin sem þeir sem kynntu sér kerfið í Bretlandi og Skotlandi fengu: Gerið kerfið eins einfalt og hægt er. En því meira sem maður skoðar frumvarpið, þeim mun betur sér maður hversu flókið kerfið er.

En fyrir hverja er þetta kerfi? Hvaða hópur er líklegastur til að komast inn í kerfið? Því miður er þetta kerfi ekki fyrir stóran hóp öryrkja og ekki fyrir ákveðinn hóp fólks á lágmarkslaunum. Það er algjörlega staðreynd. Tökum dæmi sem er í frumvarpinu sjálfu. Gert er ráð fyrir að 70 fm íbúð sé keypt á 35 millj. kr. Það sem er eiginlega best við það er að þetta er íbúð fyrir tvo fullorðna og tvö börn, þannig að þröngt mega sáttir sitja en látum það vera. Þetta er 35 millj. kr. íbúð og til þess að geta staðið sæmilega undir lánum nokkurn veginn er gefið upp að ráðstöfunartekjur viðkomandi þurfi að vera 525.916 kr. Þegar búið er að draga frá grunnframfærsluviðmið, rekstrarkostnað húsnæðis og námslán er greiðslugetan komin í 206.796 kr., það sem þessir einstaklingar þurfa til að geta vel staðið undir láninu.

En hvernig stæðu þessi einstaklingar undir því ef allt færi á versta veg, ef vextir færu á fleygiferð? Sýnt hefur verið fram á það að þegar vaxtaprósenta fer af stað þá hækka lánin. Það kemur fram hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem lét reikna það út, að árið 2016 var greiðslubyrði 130.000 kr. af 21 millj. kr. óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum upp á 7,2% — 70% lánshlutfall á 30 millj. kr. íbúð, spáið í það — en hún var komin niður í 80.000 kr. miðað við 3,5% vexti. Þarna munar 50.000 kr. Ef lánstaki í þessum aðstæðum lenti í því að versta mögulega dæmið kæmi upp þá segi ég bara guð hjálpi honum.

Í dæminu sem er tekið í frumvarpinu er gert ráð fyrir rúmum 525.000 kr. í ráðstöfunartekjur. Segjum að öryrki ætli að reyna að komast inn í þetta kerfi, einstaklingur sem er með útborgaðar 220.000 kr. Við getum gleymt því, hann á ekki séns. Í fyrsta lagi myndi hann ekki fá greiðslumat og í öðru lagi er það skilyrði að ekki megi fara yfir 40% af ráðstöfunartekjum við kaup á íbúðinni. Hann á því ekki séns og þetta á líka við um þá sem eru á lægstu laununum, þeir komast ekki inn í þetta kerfi.

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta kerfi er svolítið furðulegt. Við þyrftum og hefðum átt, ef við ætluðum að búa til einfalt kerfi, sem hefði þá verið algjörlega nýtt kerfi frá grunni, að ræða hvernig við getum byggt upp kerfi og tekið lánin og allt sem varðar íbúðir út úr neysluvísitölu þannig að verðtrygging væri ekki til staðar þar inni. Þannig værum við í sömu stöðu og flestar nágrannaþjóðir okkar, að vita vextina frá upphafi til enda. Það væri lágir fastir vextir og engar áhyggjur þyrfti að hafa af verðbólgu. En við lifum ekki við þann munað og samkvæmt þessu er það ekki á döfinni.

Við verðum að átta okkur á því að það var stór hópur fólks sem missti íbúðirnar sínar í hruninu. Og hvar er staða þessa fólks í dag? Eins og hefur komið fram í ræðum dag þá er það á vanskilaskrá. Ef maður er á vanskilaskrá kemst maður ekki inn í þetta kerfi, er á svörtum lista, hundeltur. Þetta er hópur sem getur á furðulegan hátt, ef við hugsum út í það, verið á leigumarkaði og leigt fyrir 80–90% af ráðstöfunartekjum sínum en þarf síðan að leita til hjálparstofnana til að fá mat, til að lifa af. Á sama tíma kemur fram í frumvarpinu að í þessu kerfi megi ekki lána nema óverðtryggt lán til 25 ára. Verðtryggt lán til 40 ára hefur verið kallað eiturpilla, og ég veit um ýmis fleiri nöfn á því en hvað hefur 40 ára verðtryggt lán gefið þeim sem hafa tekið það? Það hefur gefið þeim möguleika á að kaupa íbúð með lágmarksgreiðslubyrði. Eignamyndunin verður mun minni en öryggið er til staðar, það öryggi að ráða við greiðslubyrðina og vita að hún rýkur ekki upp úr öllu valdi bara við einhverjar vaxtabreytingar. Með verðtryggt lán veistu nokkurn veginn vextina og ef verðbólgan fer af stað fer hún aftast á lánið. Eignahlutfallið minnkar kannski en greiðslubyrðin eykst ekki í sama hlutfalli.

Eitt af því sem ég tók eftir í þessu frumvarpi er svolítið furðulegt, og það kom einmitt inn spurning í nefndinni í sambandi við þetta og ég spurði líka að því. Eins og við vitum er því miður mikið um skilnaði hjá hjónum. Þegar spurt var hvernig staðan yrði þá var svarið að annar aðilinn yfirtæki íbúðina. En hvað verður um hinn? Hann dettur út úr kerfinu, honum er vísað út á guð og gaddinn. Ég óttast að þetta þýði að það verði barátta um að halda íbúðinni. Hvaða afleiðingar hefur það ef börn eru á heimilinu? Hvorugur aðilinn sér fram á að geta farið út úr kerfinu og lifað af. Það sem hefði verið einfalt að gera í sambandi við þetta er að sá aðili sem færi út fengi tækifæri til að fara inn í kerfið aftur. Þessir einstaklingar eru inni í kerfinu vegna þess að þeir eru í þeirri aðstöðu að komast ekki inn í neitt annað kerfi. Þetta er mjög einfalt mál og eiginlega óskiljanlegt að ekki hafi verið hægt að gera þetta. Í sjálfu sér hefði það ekki kostað eitt né neitt að gefa bara viðkomandi þetta tækifæri og ekki breytt neinu í sambandi við málið í heild sinni.

Annað í þessu sem mér hugnast ekki er sú krafa sem verður gerð um að lækka vaxtabætur um 1 milljarð. Kannski er skýringin sú að verið sé að lækka þær hjá þeim tekjuhæstu. En hvaða tekjuháa fólk fær vaxtabætur? Mér þætti gaman að vita það. Þegar ég var ekki á þingi og var að borga af íbúð þá þurfti maður nú ekki að vera mjög tekjuhár til að vaxtabæturnar færu að skerðast.

Ég fór líka í gegnum reglugerðina. Það er mynd af reglugerðinni, og hvað segir hún okkur? Hvað er í gangi þar? Þetta er stórfurðulega vegna þess að ráðherrann fær ótrúlega víðtækar heimildir. Hann getur gert alls konar útfærslur og getur veitt undanþágur. Einnig eru ýmis skilyrði þarna sem valda áhyggjum. Til þess að komast inn í þetta kerfi, eins og ég hef áður komið að, þarf maður að standast greiðslumat frá lánastofnun, sem er hægara sagt en gert. Síðan þarf viðkomandi að gefa upplýsingar um hagi sína og framtíðarhorfur. Framtíðarhorfur? Kannski setur maður upp bjartsýnisgleraugu, kannski svartsýnisgleraugu eða fer bara til spákonu. Ég veit ekki hvernig menn ætla að útfæra þetta. Ég skil ekki svona hluti vegna þess að auðvitað er það staða viðkomandi akkúrat á þeim tíma sem hann sækir um sem skiptir máli. Það er búið að setja inn framtíðarhorfurnar með því að stytta lánstímann úr 25 árum niður í 10, síðan hægt að framlengja í 15, svo 20 og 25. (Gripið fram í.) Það er búið að setja þetta inn og þannig verða framtíðarhorfurnar.

Þetta er líka spurning um verðlagningu á íbúðinni, sem ég sé hérna í reglugerð. Það er einstaklingsíbúð á 30 milljónir, tveggja herbergja íbúð á 35 milljónir, þriggja herbergja íbúð á 38 milljónir, fjögurra herbergja íbúðir á 42 milljónir og fimm herbergja og plús íbúðir á 50 milljónir. Þetta er hámark bjartsýninnar. Ég held að það hefði verið mjög þarft að skoða fasteignamarkaðinn nema það sé ætlunin að einhver byggi þessar íbúðir á mjög ódýrri lóð, einhvers staðar yst á bæjarmörkunum og án alls hagnaðar. En það er ekki raunhæft. Það er ekki gott til afspurnar að hafa hlutina í algjörri óreiðu

Annað hér er að viðkomandi má eiga allt að 1,5% af kaupverði íbúðarinnar í peningum. Við verðum að átta okkur á að þinglýsingarkostnaður á íbúðum er mikill, flutningskostnaður er mikill. Það er dýrt að flytja í nýja íbúð og það þarf að tryggja að fólk eigi líka fyrir þeim hlutum. Þetta má ekki vera of þröngt. Síðan er hér sagt „hófleg bifreið“. Ég set spurningarmerki við það. Hvað er hófleg bifreið?

Öryrkjabandalagið hefur gert ýmsar athugasemdir og bent á að lánstími annarra lána í veðröðinni gæti verið 30–40 ár og hlutdeildarlánin þurfi lengri tíma. Þetta er of stutt, þetta er of knappt. Ég hefði viljað hafa 25 ár og þá hefði verið hægt að endurskoða málið. Miðað við það sem hefur komið frá verkalýðshreyfingunni í Bretlandi þá þurfti ekkert að hafa svona fyrirvara. Fólk vill fara út úr þessu kerfi um leið og það getur vegna þess að það hentar mikið betur að fara inn í annað kerfi. Það getur hentað betur upp á ýmsa þætti; vinnu, skóla, alls konar hluti.

Við verðum að átta okkur á því að við erum að segja við fólk að þetta séu ákveðnar íbúðir á ákveðnum stöðum sem fólk getur keypt, en við vitum ekki hvaða staðir þetta eru. Við höfum ekki hugmynd um það í dag hvar þetta verður, hvar þessar íbúðir verða byggðar eða hvort þær verði yfir höfuð byggðar vegna þess að við eigum eftir að fá vita hvernig í ósköpunum eigi að byggja þessar nýju rosalega hagkvæmu íbúðir á þessum verðgrundvelli.