150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

frestun kjarasamningsbundinna launahækkana.

[10:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Um helgina velti einn af þremur leiðtogum ríkisstjórnarinnar því fyrir sér í viðtalsþætti hvort ekki væri eðlilegt að fresta launahækkunum á opinberum og almennum markaði, fresta launahækkunum og kjarabótum sem samið var um í lífskjarasamningunum í a.m.k. eitt ár vegna efnahagsþrenginga. Í Kastljóssviðtali á þriðjudag endurtók hann sig og sagðist telja skynsamlegt að skoða að fresta öllum hækkunum.

Formaður Sjálfstæðisflokksins tók síðan undir með honum í viðtali í Morgunblaðinu í gær og gaf í skyn að launafólk gæti ekki krafist þess að fá umsamdar launahækkanir í svona efnahagsástandi. Þannig að nú liggur fyrir að tveir af þremur forsvarsmönnum þessarar ríkisstjórnar hafa viðrað þá hugmynd að fresta kjarasamningsbundnum launahækkunum. Því er eðlilegt að spyrja: Hefur þetta verið rætt af formönnunum þremur og jafnvel í ríkisstjórninni? Og í öðru lagi: Er hæstv. forsætisráðherra sammála samstarfsfélögum sínum?