150. löggjafarþing — 136. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[16:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að í tillögum meiri hlutans er hvergi minnst á fólkið sem nú þegar þarf að framfleyta sér á grunnatvinnuleysisbótum. Hvergi er minnst á fólkið sem nú er í erfiðustu stöðunni og það eru þúsundir manna. Þessi tillaga gengur út á að grunnatvinnuleysisbætur hækki upp í 95% af lágmarkstekjutryggingu og verði þannig í eitt ár. Ég vísa algerlega til föðurhúsanna þeim fullyrðingum að ef við hækkum grunnatvinnuleysisbætur kjósi fleiri að vera án atvinnu. Ég vísa líka á bug þeim fullyrðingum að þetta sé of kostnaðarsamt. Til þess að setja tölurnar í samhengi myndi þessi hækkun kosta á árinu 2020 1 milljarð og 35 millj. kr. á meðan ferðagjöfin svokallaða kostaði 1,5 milljarða. Á næsta ári yrði þetta undir 5 milljörðum kr. ef miðað væri við 12.000 manns. Stjórnarliðar lækkuðu eins og (Forseti hringir.) ekkert væri bankaskatt um 11 milljarða kr. Það er enginn vandi á höndum, þetta er ekki of dýrt (Forseti hringir.) en þetta er hins vegar til þess að bæta stöðu heimila sem verst standa og um leið auka (Forseti hringir.) eftirspurn í hagkerfinu. Ég hvet ykkur til að skipta um skoðun, stjórnarliðar, (Forseti hringir.) og standa með fólkinu sem verst er sett nú um stundir. (Gripið fram í: Heyr, heyr. )