150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla bara beint í pólitíkina. Þetta er eitt þýðingarmesta þingmálið sem við ræðum á þessum þingvetri. Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann fjárlaganefndar: Hvernig stendur á því að hér er haldið í fyrri aðhaldskröfur á skóla, spítala, heilsugæslu, listafólk, rannsóknir og nýsköpun í miðjum heimsfaraldri? Af hverju grípur hv. fjárlaganefnd ekki boltann á lofti og gefur þau skilaboð að nú sé ekki tíminn til að halda í fyrri aðhaldskröfur á þessa aðila? Við ræddum þetta ítrekað hjá fjárlaganefnd og það hefði verið hægur leikur að gefa skýr skilaboð, pólitísk skilaboð um að þetta væru ekki þær stofnanir sem þyrftu á aðhaldskröfu að halda í dag. En það er raunin því að meiri hluti nefndarinnar treysti sér ekki til að tækla þetta í nefndaráliti sínu. Þess vegna spyr ég og spurði hæstv. fjármálaráðherra sömu spurningar í 1. umr. Auðvitað vildi hann styðja aðhald og niðurskurð gagnvart þessum stofnunum en það er sérkennilegt að Framsóknarflokkurinn með sína félagslegu taug, alla vega sögulega séð, styðji að sama skapi að haldið sé í fyrri aðhaldskröfur, hvað þá Vinstri grænir sem sitja ekki einu sinni í salnum þegar þessi umræða fer fram, eða hvað?

Mér finnst þetta gagnrýnisvert. Þetta er pólitík og ég skil ekki af hverju við tókum ekki höndum saman og sendum þau skilaboð að Landspítalinn, heilsugæslan og skólarnir, sem eru að drukkna í umsóknum vegna sögulegs atvinnuleysis, þurfi ekki á sérstakri aðahaldskröfu að halda. Ég veit ekki hvort þjóðin eða fjölmiðlar og aðrir hafa áttað sig á því að þetta eru ákveðnar fréttir og að þessi aðhaldskrafa er ekki lítil, ég get farið yfir það á eftir, þegar litið er til heildarinnar, herra forseti.