150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Já, þetta er pólitík og þetta er þýðingarmikið mál. Ég vil byrja á að taka undir það, þetta er mjög stórt mál sem grundvallar fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp. Varðandi spurninguna um aðhaldskröfuna vil ég taka fram að ég geri skýran greinarmun á því sem við köllum almenna aðhaldskröfu á stofnanir og opinbera geirann í þeim tilgangi að hvetja á hverjum tíma til hagræðingar í rekstri — ég aðgreini það fyllilega og mér finnst að það eigi alltaf að vera uppi, það er bara hugarfar, viðhorf — og pólitískum ákvörðunum okkar um hvað þurfi mikil útgjöld til að ná markmiðum um mismunandi málefnasvið og málaflokka.

Það er ágætt að draga það fram að á seinni hluta gildandi fjármálaáætlunar er dregið úr þessum aðhaldsmarkmiðum og fallið frá þeim, t.d. þegar kemur að heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum. En þá erum við að horfa á meiri hagvöxt. Ég vil herða á, ef eitthvað er, aðhaldskröfum við þær aðstæður vegna þess að ég horfi á aðhaldskröfu sem jákvæða viðleitni til að hagræða í opinberum rekstri með öllum tiltækum ráðum, þar með talið að reyna að gera hlutina með skilvirkari hætti í stafrænum heimi o.s.frv., og ég aðgreini það algerlega frá pólitískum ákvörðunum um það hvaða útgjöld þurfi til til að standa undir þeim markmiðum sem við setjum okkur í þeim málaflokkum sem um ræðir. Ég get kannski tekið heilbrigðiskerfið og Landspítalann sem dæmi í seinna andsvari, af því hv. þingmaður ræddi það.