150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir spurninguna. Hún er góð og það má nálgast hana út frá nokkrum atriðum. Ég vil byrja á því að segja að allar okkar aðgerðir snúa að því að efla hag heimila og fyrirtækja í þeirri viðleitni að við höfum hér öfluga viðspyrnu. Þess vegna erum við að endurskoða markmiðin í ríkisfjármálastefnunni þannig að við eigum fyrir því, svo við getum tekið lán til að fjármagna aðgerðir í þeim tilgangi. Okkur greinir svo á um hversu langt er gengið hér og þar í þeim efnum.

Ég skil hv. þingmann og tek undir áhyggjur hans af verðbólgu. Þær væntingar sem eru í kortunum — og nú vísa ég í sjálfstæða peningastefnu Seðlabankans og álit hans og fund með hv. efnahags- og viðskiptanefnd — eru um að verðbólga muni halda sig í nálægð við markmiðin. En auðvitað hefur maður áhyggjur af því, þegar gengið hefur gefið eftir um 14%, hvort það komi allt fram í hækkuðu vöruverði. Á móti vinnur sá slaki sem verður í efnahagslífinu við þessar efnahagslegu kringumstæður. En ég deili áhyggjum hv. þingmanns og við eigum alltaf að vinna að því að hér sé stöðugt verðlag. Það er bara eitt af meginmarkmiðum hagstjórnar. Árið 2001 gáfum við Seðlabankanum sjálfstæði til að vinna með peningastefnu. Ég held að það hafi verið heillaskref en á sama tíma erum við hér og allar aðgerðir í ríkisfjármálum skipta jafnframt máli.