150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski fljótlegasta leiðin en ekki endilega skilvirkasta leiðin. Þegar við horfum á nýsköpun í stærra samhengi þá skiptir máli að byrja snemma því það tekur smátíma að vinna þar inn. Fólkið sem er með aðgang að þessum framleiðslutækjum er fólkið sem á að hafa tækifæri til að gera eitthvað annað, nýtt og betra úr þeim, það á ekki endilega að henda þremur milljörðum í Íslandsstofu eða eitthvað svoleiðis og redda því hinum megin frá.

Stjórnarandstaðan lagði fram breytingartillögu í fyrsta pakkanum upp á níu milljarða í nýsköpun á meðan ríkisstjórnin var með þrjá milljarða. Það er að koma upp úr hattinum núna þegar við tölum við nokkra umsagnaraðila í nýsköpun að þær tölur, þeir sex milljarðar sem munar þarna, eru tölur sem eru mjög raunhæfar. Það eru tölur sem falla auðveldlega í þau stöðluðu mót sem við erum með í nýsköpunarsjóði, Tækniþróunarsjóði, Rannsóknasjóði o.s.frv. Þeir fjármunir hefðu auðveldlega getað nýst miðað við aðsóknina í sjóðina. Það er tækifæri sem við erum að missa af, því að þaðan koma jú framtíðarstörfin. (Forseti hringir.) Þótt við séum að sjálfsögðu að reyna að verja það sem við höfum (Forseti hringir.) og það sem er ónotað, (Forseti hringir.) þá er samt við það verið að horfa til fortíðar en ekki bara framtíðar þegar kemur að lausnum.