150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:52]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, svo sannarlega, ég tek undir orð hv. þingmanns. Við þurfum að huga að þeim innviðum sem við höfum nú þegar. Við höfum ótrúlega þekkingu og mannauð í ferðaþjónustunni. Um 30.000 manns unnu við ferðaþjónustu og hluti af atvinnuuppbyggingu okkar væri að byggja aftur upp ferðaþjónustu. Og þegar bóluefnið finnst munu ferðamenn auðvitað koma hingað aftur. Við höfum svo margt að bjóða. Já, að sjálfsögðu þurfum við að hlúa að ferðaþjónustunni.

En á meðan hún er í frosti þurfum við að hugsa um eitthvað annað. Þess vegna ætla ég bara að nefna eitt dæmi. Ég er mjög hrifinn af því að veðja á sjónvarps- og kvikmyndagerð. Það er risaiðnaður. Ef við fáum hér frekari verkefni frá Netflix og fleiri risum á því sviði myndi það einmitt búa til eftirspurn hjá þeim aðilum sem starfað hafa í ferðaþjónustu. Hvað gera svona tökulið? Þau nýta sér veitingastaði, hótel, rútufyrirtæki, leiðsögumenn o.s.frv. Þetta væri einmitt iðnaður þar sem við gætum laðað fólk til okkar sem myndi búa til störf hjá því fólki sem var að missa vinnuna. Þetta er ekki lítið dæmi. Mörg ríki veðja nú á kvikmynda- og sjónvarpsefni. Það er mikil eftirspurn eftir efni og við sjáum að Netflix gaf út yfirlýsingu um að Ísland væri eitt af fáum stöðum þar sem hægt væri að taka upp nýtt efni. Það sem var svo sorglegt var að við tókum það skref ekki í vor. Ég man að ég öskraði mig hásan hérna í vor: Gerum þetta, sagði ég þá. En ókei, gott og vel, gerum þetta þá núna. Annað sem ég gat um í ræðu minni varðaði grænmetisframleiðslu. Ég veit að hv. þingmaður er sammála mér þar. Já, hlúum að ferðaþjónustunni, hlúum að þeim innviðum sem við höfum nú þegar. Gerum margt en útilokum ekki neitt. Við þurfum að kasta netinu vítt, herra forseti.