150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[17:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég held að það sé ekki mótsögn. Og þá ætla ég að minna á að það er ekki aðhaldskrafa á allt. Í fjármálaáætluninni, aðhaldskrafan á að haldast þaðan, kemur fram að það er engin aðhaldskrafa á bótakerfi almannatrygginga og atvinnuleysis. Það er engin aðhaldskrafa á sjúkratryggingar og dómstóla. Ef ríkisstjórnin er tilbúin að sleppa aðhaldskröfu á dómstóla, af hverju er hún ekki tilbúin að sleppa aðhaldskröfu á skóla, sjúkrahús, heilsugæslu og öldrunarstofnanir? Það er það sem ég er að kalla eftir, á þessum tíma a.m.k.

Prinsippið um að hafa enga aðhaldskröfu er fyrir hendi. Ég get þess líka að þessi aðhaldskrafa var sett fyrir Covid — takið eftir því. Nú er Covid, nú er heimsfaraldur. Nú er ótrúlega mikið álag á fólki okkar í framlínu. Og fyrst við erum tilbúin að hafa enga aðhaldskröfu á dómstóla hljótum við að geta tekið þá pólitísku ákvörðun að sleppa aðhaldskröfunni, að sinni a.m.k., á heilbrigðisstofnanir, öldrunarstofnanir og skóla. Það er það sem ég er að kalla eftir.

Ég vona að næsti slagur um þetta verði þegar fjármálaáætlunin kemur. Ég held bara að þetta sé vanhugsað. Ég veit ekki hve mikið þetta var rætt hjá stjórnarflokkunum, ég vona að þetta hafi bara verið mistök. En þeir fengu tækifæri til að leiðrétta þetta í nefndarvinnunni og kusu að gera það ekki. Ég get því ekki annað en ályktað að það sé pólitískur vilji stjórnarinnar að halda í þessa aðhaldskröfu.

Mig langar líka aðeins að minna á varðandi sprotana, ég kom að þessu í fyrra andsvari, að yfirlýsingar komu frá samtökum sprotafyrirtækja. Þar kom fram að hlutfall sprota sem fá styrk frá Tækniþróunarsjóði hefur aldrei verið lægra. Þetta er þvert á það sem nýsköpunarráðherrann hefur verið að segja, að hér sé verið að spýta svo mikið í nýsköpun að við getum verið stolt af. Hlutfall styrkja úr Tækniþróunarsjóði hefur aldrei verið lægra en (Forseti hringir.) nú á tímum Covid. Þetta er það sem ég vil draga fram hér og að við getum gert betur. Ég held að hv. þingmaður sé sammála því, það vona ég alla vega.