150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég er hér með stutt nefndarálit enda er ekki gríðarlega mikill tími til að vinna málin þessa dagana eins og gengur og gerist. Þetta er kannski aðeins tæknilegra nefndarálit en í hinum hlutanum, sem er ekki beint í álitinu heldur í ræðunni, verð ég með aðeins meiri pólitík í ræðunni.

Stefna Pírata hefur verið frá því að kófið hófst að hugsa til framtíðar, sjá hvernig samfélagið er að þróast og breytast. Á sama tíma og við hugsum til framtíðar segir fjármálaráðherra: Við þurfum Ísland 2.0, en hann fattar ekki að sú stefna var í gildi um aldamótin. Þá var 2.0 byltingin að ganga yfir og við erum komin í 4, 5, „Next“ og ýmislegt svoleiðis, við erum komin langt í burtu frá 2.0, virðulegi forseti.

Hér hafa samt nýlega verið samþykktar áhugaverðar stefnur um klasa og stafrænar smiðjur. Ég taldi í vor að það væri prýðisgott tækifæri að grípa til samþykkta þingsins um klasastefnu og um stafrænar smiðjur til að byggja upp kjarna nýsköpunarstarfsemi úti um allt land. Tækifærin sem liggja í því eru nefnilega gríðarleg. Við fáum upplýsingar frá Tækniþróunarsjóði sem segir að þær úthlutanir sem þar eru veittar fari jafnt til hvers landshluta í hlutfalli við fjölda umsókna en langflestar umsóknirnar eru á höfuðborgarsvæðinu. Hérna um árið var t.d. engin umsókn frá Austurlandi. Þetta er eitthvað sem væri auðvelt að tækla ef það væri betri aðstaða fyrir fólk til þess að nálgast og hjálpast að við að byggja upp til framtíðar. Lausnir sem við sjáum í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar eru lausnir sem er búið að reyna, búið að prófa og virkuðu ekki. Bjuggu til bólu og sprungu í andlitið á okkur, vissulega með hjálp heimsfaraldurs en öll teikn voru á lofti um að þetta færi niður á við áður en hann hófst, eins og sést augljóslega í endurskoðaðri fjármálastefnu í fyrra. Þetta er önnur endurskoðaða fjármálastefnan á þessu kjörtímabili.

Við Píratar höfum hugsað næstu skref fram á við þannig að við einbeitum okkur að því að styrkja fólk til þess að valdefla sjálft sig í stað þeirrar miðstýringar sem við höfum séð í stefnu stjórnvalda hingað til. Þar er hellt milljörðum í miðlægt markaðsátak í stað þess að nýta og dreifa kröftunum og byggja upp frá rótum. Við höfum talað um skilyrðislausan stuðning, sérstaklega í svona ástandi, af því að það er góð hugmynd að leyfa fólki að prófa hluti eins og kom fram í breytingartillögu áðan frá þingflokki Viðreisnar um að hækka frítekjumörk á atvinnuleysisbótum þannig að fólk gæti leitað sér einhverra tekna og prófað nýja hluti án þess að missa öryggið sem er í atvinnuleysisbótum. Við Píratar hefðum viljað ganga lengra, en þetta er dæmi um þær hugmyndir sem við Píratar höfum talað fyrir. Við viljum nefnilega horfa til framtíðar og finna lausnir þar en ekki horfa til fortíðar. Við viljum ekki halda áfram, eins og við höfum gert á Íslandi, að setja alltaf öll eggin í sömu körfu. Við erum alltaf að því. Síldarævintýrið: Við veiddum allan fiskinn. Ál: Byggjum álver fyrir 80% af orkunni sem við framleiðum. Bankar: Tökum alla bankana, verðum best í bönkum í öllum heiminum. Og núna ferðamennskan. Hún var stjórnlaus, virðulegi forseti, gersamlega stjórnlaus. Vissulega kom hún með tekjur og hagvöxt til landsins en það varð eyðilegging á mörgum stöðum á landinu, á náttúruperlum, vegna ágangs þar sem ekki var hugað að móttöku á þeim fjölda ferðamanna sem kom hingað. Ég vil kalla þetta hvalrekahagkerfi þar sem við bíðum alltaf eftir næsta hvalreka og rekum hagkerfi okkar og hagvöxt áfram á hvalreka. Það er ekki sjálfbært til lengdar.

Ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að hún byggi stefnu sína á stöðugleika. En það er einmitt vandamálið, virðulegi forseti. Það er sjálfbærni en ekki stöðugleiki sem skiptir máli því að sjálfbærni getur af sér stöðugleika en ekki öfugt. Stöðugleiki er líka ákveðin stöðnun. Í síbreytilegu samfélagi — það eru ekki meira en þrettán, fjórtán ár síðan fyrsti snjallsíminn kom — tekur samfélagið gríðarlegum breytingum í því hvernig við nálgumst síbreytileg vandamál og áskoranir framtíðarinnar. Við sjáum fram á gríðarlega framþróun í orkuframleiðslu og tækninýjungar í matvælaframleiðslu sem gætu kollvarpað öðrum grundvallaratvinnuvegum hér á landi, bæði landbúnaði og sjávarútvegi. Tækninýjungar í orkumálum geta líka gjörbreytt samkeppnisstöðu okkar til að mynda í áliðnaði o.fl. þar sem ódýr og umhverfisvæn orka verður ekki lengur sérstaða Íslands. Þetta er framtíðin sem við horfum fram á og við höfum ekki tekið skref í áttina að þeirri framtíð á neinn hátt hingað til.

Í lögum um opinber fjármál er fjallað um grunngildi fjármálastefnu og fjármálaáætlunar, ef ég skipti núna yfir í tæknilega hlutann. Þar vek ég athygli á grunngildinu gagnsæi, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Gagnsæi sem felst í því að sett séu auðsæ og mælanleg markmið til meðallangs tíma um þróun opinberra fjármála í samræmi við grunngildi [...]. Birta skal reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum.“

Það er ekki bara í fjármálaáætlun heldur líka í fjármálastefnu. Þetta er rosalega mikilvægt. Grunngildið um gagnsæi skiptir mjög miklu máli, sérstaklega í krísuástandi eins og við glímum nú við í kófinu. Þegar Alþingi veitir ríkisstjórninni opnar fjárheimildir, eins og hefur verið framan af árinu í þeim pökkum sem við höfum gefið heimildir fyrir, er það skylda framkvæmdarvaldsins að gefa Alþingi reglulegar upplýsingar um þróun opinberra fjármála. Skylda framkvæmdarvaldsins verður þeim mun meiri í krísuástandi með svona opnar heimildir en engar upplýsingar hafa borist hingað til.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi þrjá fjárheimildapakka upp á tugi milljarða króna en engar upplýsingar hafa borist fjárlaganefnd um þróun mála síðan þá. Ekkert um það hvernig gengur með þær fjárheimildir sem voru veittar og ekkert um það hvort staðan sé betri eða verri en gert var ráð fyrir í vor. Einu svörin sem við fáum er óvissa. En það er einmitt hlutverk stjórnvalda að setja grundvöll, að setja gólf, búa til stöðugt gólf til að standa á og eyða óvissu. Ég skal taka undir það að í þessari fjármálastefnu er það gert að hluta til með því að staðfesta að fylgja eigi stefnu um sjálfvirka sveiflujafnara. Þrátt fyrir niðursveiflu og minnkandi tekjur hins opinbera verði samt staðið við þau réttindi sem borgarar hafa og þá þjónustu sem hið opinbera veitir. Ríkið tekur á sig þann kostnað sem munar þar um í tekjum og gjöldum. Það er eitthvað sem á að gera í niðursveiflu. Það á ekki að hrósa sérstaklega fyrir það í raun og veru nema það sé kannski óvenjulegt að það sé gert, ótrúlegt en satt, að það sé gert sem á að gera. Þannig að hrósið er jafn mikið og það.

Í endurskoðaðri fjármálastefnu eru pólitísk markmið ríkisstjórnarinnar reifuð. Það er annars vegar viðspyrna í opinberum fjármálum sem fjallar um hvernig á að halda þeirri þjónustu sem þó er þrátt fyrir samdrátt í tekjum. Fínt. Frábært. Það er mjög gagnsætt í rauninni hvernig því er framfylgt með helstu opinberum tölum um vinnumarkaðinn o.s.frv. Síðan eru tvö markmið; um verðmæt störf, fjárfestingar og aukna hagsæld, þar fylgir texti, og um skilvirkari þjónustu og sjálfbær opinber fjármál. Þetta er ekkert rökstutt, ekki neitt. Það eru engin, eins og menn segja, mælanleg markmið til að hægt sé að fylgjast með því hvort verið sé í raun og veru að ná markmiðum stefnunnar. Það skiptir lykilmáli þegar framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin, kemur og segir: Við þurfum pening til þess að ná markmiðum í stefnu okkar. Við ætlum ekki að segja ykkur hver markmiðin eru en gefið okkur samt fullt af pening. Hvernig er það sanngjarnt gagnvart þinginu sem fer með fjárveitingavaldið? Hvernig er það sanngjarnt gagnvart almenningi sem þarf að greiða skatta og standa skil á sínu?

Álit mitt snýst einmitt um þennan skort á gagnsæi í markmiðum stjórnvalda. Orðin eru kannski fögur og örugglega eitthvað sem ég myndi sjálfur setja í fjármálastefnu en ég myndi vilja hafa betri rökstuðning. Það skiptir nefnilega öllu máli að markmið stjórnvalda séu rökstudd. Það er gólfið sem við getum staðið á, að rökstuðningurinn haldi. Að við getum sagt að atvinnuástandið batni af því að við erum að gera þetta og þetta. Markmiðið er að ná atvinnuleysi úr 6,7%, eins og er spáð á næsta ári í þjóðhagsspá, í 3–4%. Væri það ekki verðugt markmið? Væri það raunsætt markmið? Það er eitt sem fjármálaráð hefur gagnrýnt að vissu leyti í lögum um opinber fjármál, að það vanti ákveðið raunsæi í lögum um opinber fjármál sem grunngildi. Það er hægt að segja hvað sem er. Það er hægt að segja að atvinnuleysi eigi að fara niður í 1% en það er ekkert endilega raunsætt að það náist, hvað þá á einu ári, ef það er yfirleitt hægt. Það mótmælir nefnilega enginn markmiðum um verðmæt störf og aukna hagsæld eða áherslu á menntun, nýsköpun og skilvirkari þjónustu. Við segjum þetta alltaf. Það segja þetta allir, að sjálfsögðu. Ætlar einhver að segja annað? Nei, við ætlum að sleppa menntun, við ætlum að einbeita okkur að verðlausum störfum. Þetta eru sjálfsögð sannindi þannig að þau þýða í rauninni ekki neitt nema það sé útskýrt af hverju þau eru til staðar.

Í fjármálastefnu vantar þau mælanlegu markmið sem eru nefnd í lögum um opinber fjármál til þess að sé hægt að gera reglulega samanburð á markmiðum og árangri með skýrum mælikvörðum. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir, miðað við t.d. hagspár núna, er atvinnuleysi. Það þarf að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Þegar hagspá segir 6,7% atvinnuleysi á næsta ári hlýtur fjármálastefna ríkisstjórnarinnar að ætla að breyta því einhvern veginn. Ekkert er sagt um það nema að við ætlum að einbeita okkur að verðmætum störfum. Hvaða verðmætu störf eru það? Ég fór yfir það í andsvari við hv. formann fjárlaganefndar áðan. Við sjáum áherslu ríkisstjórnarinnar á störf í ferðaþjónustu sem er góðra gjalda vert, en eru það verðmæt störf? Vissulega skapa þau fullt af gjaldeyri o.s.frv., en þetta eru láglaunastörf. Er það skilgreining ríkisstjórnarinnar á verðmætum störfum, arðurinn sem þau skapa fyrir samfélagið en ekki fyrir einstaklinginn sem vinnur starfið? Er ekki til fullt af hugmyndafræði þar sem rifist er um hvað það þýðir þegar mikill arður verður af starfi en viðkomandi fær lítinn hluta af þeim arði? Er skilgreining stjórnvalda á verðmætum störfum að hjúkrunarfræðingar þurfi enn og aftur að fara fyrir gerðardóm? Hver eru verðmætin þar? Væntanlega í þjónustu og störfum hjúkrunarfræðinga en eru þau í launum hjúkrunarfræðinga? Hver ætli sé ástæðan fyrir því að hjúkrunarfræðingar hafa átt í svona löngum deilum um kaup sín og kjör? Er það af því að þeir eru með góð laun? Væntanlega ekki. Niðurstaðan er enn og aftur gerðardómur af því að verðmætin liggja einhvers staðar annars staðar en í launaumslögum hjúkrunarfræðinga. Þetta er gegnumgangandi saga það sem af er kjörtímabilinu. Það er nefnilega dálítið skrýtið þegar allt kemur til alls.

Það er stærra vandamál sem við stöndum frammi fyrir og það er hugmyndafræðilegt vandamál. Þegar fjárhagslega íhaldssöm stjórn tók við eftir hrunið var öll áhersla lögð á að greiða upp skuldir, sem er gott og blessað upp að vissu marki. Skuldir Íslands voru ansi háar og vaxtabyrðin einnig mjög há en það var ekki tekið tillit til allra skulda. Áherslan var á að greiða niður peningalegar skuldir en það gleymdist að huga að innviðaskuldum, eins og ég hef oft talað um. Á meðan greiddar voru niður peningalegar skuldir sem voru með auðútreiknanlega vexti gleymdist að viðhalda samgöngukerfi, menntakerfi, heilbrigðiskerfi, þar sem erfitt er að reikna út vexti sem hljótast af því viðhaldi. Það vantar að huga betur að þeim skuldum. Við sjáum það núna að eftir að slitabúin voru loksins kláruð og peningalegar skuldir gerðar upp og við komumst út úr hruninu á nokkuð góðum stað þá varð eftir risavaxin innviðaskuld á stórum sviðum samfélagsins upp á nokkur hundruð milljarða samkvæmt greiningum Samtaka iðnaðarins. Verkefnið var vissulega farið að hökta í gang, t.d. í samgöngumálum, við vorum að ná framlögum til samgöngumála í fyrra hlutfall af landsframleiðslu síðan fyrir hrun eða bara yfirleitt, en það var ekki komið lengra en það. Og enn og aftur sitjum við uppi með þessa innviðaskuld í enn einni niðursveiflu.

Sem betur fer má segja að það sé af nægum verkefnum að taka sem eru ágætlega arðbær og ríkisstjórnin greip til í fjárfestingarátaki. En það fjárfestingarátak nær mjög skammt, ef við lítum til framtíðarstarfa, því að þetta eru tímabundin verkefni. Hvert fara þau eftir það? Jú, kannski erum við komin á nægilega góðan skrið í nýsköpunarmálum til þess að fyrirtæki sem eru stofnuð innan klasanna og stafrænna smiðja úti um allt land, í verkefnum í Brothættum byggðum og alls konar spennandi verkefnum sem eru í gangi hjá t.d. Byggðastofnun, kannski eru þau komin nægilega vel á veg til að grípa þau störf sem eru sett í framkvæmdaáætlun, en það er tiltölulega létt stigið á bensíngjöfina í nýsköpun. Við sjáum núna að mjög lágt hlutfall umsókna fékk úthlutað úr Tækniþróunarsjóði. Gríðarlega lágt. Það voru miklu fleiri umsóknir en venjulega, eins og var búist við í raun og veru, að sjálfsögðu. Það hefur gerst áður, kannski ekki í svo miklum mæli, en það var fyrirsjáanlegt. Það var fyrirsjáanlegt á þann hátt að ríkisstjórnin lagði til 3 milljarða í fyrsta pakkanum, fyrsta viðspyrnupakkanum, á meðan stjórnarandstaðan lagði til 9 milljarða. Núna þegar við fáum umsagnaraðila til að koma og útskýra fyrir okkur hvernig staðan er þá heyrast upphæðir eins og 5 eða 6 milljarðar, sem hefði verið auðveldlega hægt að nota til að fara í verkefni úti um allt land strax. Það að glata þeim tíma sem hefur liðið frá því í vor og þangað til núna hefur snjóboltaáhrif. Við erum búin að glata hálfu ári þegar við hefðum getað verið byrjuð og farið að finna fyrir ábata af þeim verkefnum mun fyrr. Það er sorglega staðan í þessu. Kannski er ég bjartsýnn en ég spurði hvort það væri hægt að fá t.d. fulltrúa frá Tækniþróunarsjóði, fyrst við erum með fjáraukalög til umfjöllunar, til að útskýra fyrir okkur stöðu mála. En því miður var ekki hljómgrunnur fyrir því. Það hefði kannski verið hægt að byrja á þessum 6 milljörðum núna fyrst það var ekki gert fyrir hálfu ári. En, nei, ekki heldur núna, kannski seinna. Kannski kemur það í ljós í nýrri fjármálaáætlun sem kemur út eftir tæpan mánuð. Það er nýkomin út stefna Vísinda- og tækniráðs sem er svipuð og fjármálastefnan hérna, full af flottum orðum en lítið um mælanleg markmið. Engar upphæðir nefndar. Í fyrri stefnu Vísinda- og tækniráðs voru sett viðmið um t.d. hlutfall framlaga til menntamála miðað við OECD o.s.frv., en það var aldrei staðið við nein af þeim tölulegu markmiðum sem voru sett í þeim stefnum á árum áður. Kannski er það ástæðan fyrir því að það var hætt að setja inn töluleg markmið, af því að stjórnvöld stóðu aldrei við það sem þau sögðu. Er það ekki merkilegt? Mér finnst það mjög merkilegt og mér finnst það mjög upplýsandi.

Við sjáum þetta aftur og aftur. Það er verið að lofa verkefnum hingað og þangað úti um allt land. En svo gerist ekkert nema bara bitlingar. Þegar að lokum kemur að skuldadögum, rétt fyrir kosningar, er hent inn 100 milljónum hérna, 10 milljónum þarna o.s.frv., til þess að segja: Verkefnið er komið af stað. Það er hausverkur næsta kjörtímabils að klára það. Það er sífellt verið að krafsa svona í öll þau mikilvægu verkefni sem bíða úti um allt land og eru tilbúin og við erum tilbúin til að njóta góðs af þeim. En einhverra hluta vegna eru þau aldrei fjármögnuð. Ég hef þá tilgátu, bara mín persónulega tilgáta, að stjórnmálamönnum, svona klassískt séð, finnist þægilegt að hafa ókláruð verkefni úti um allt því að þá er hægt að lofa svo miklu. Þannig er það t.d. með strandveiðikerfið. Ef við myndum bara klára það almennilega og setja upp alvöruveiðikerfi um frjálsar handfæraveiðar gætu ýmsir stjórnmálamenn ekki lofað plástrum ofan á núverandi strandveiðikerfi, rétt fyrir hverjar kosningar, og barið sér á brjóst og sagt: Ég hef nú barist fyrir þessu kerfi og við fundum upp þetta kerfi. En kerfið er ekki gott. Það er það ekki. Það vita það allir, það eru gallar á því. Það ætti að vera frekar augljóst mál að koma t.d. í gegn nýjum hugmyndum um að leyfa veiðar í september. Nei, það er ekki nógu gott. Það er kannski hægt að lofa því fyrir næstu kosningar. Enn ein kosningabarátta til að koma einhverjum smámunum í gegn.

Engar alvörubreytingar, engin alvörufjármögnun, á þeim stöðum þar sem það skiptir máli. Engin ný stjórnarskrá þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki nýtt kvótakerfi þrátt fyrir augljós vandamál. Ekki nýsköpunarstefna til framtíðar. Það er verið að grafa í ruslakistu fortíðar eftir lausnum sem virkuðu einhvern tímann undir einhverjum kringumstæðum en ekkert endilega til framtíðar. Þar erum við stödd í stjórnmálunum í dag.