150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni prýðisræðu. Hann kom víða við, ég ætla aðeins að staldra við hér í lokin, á þessum tímapunkti, þau mál sem við erum að fjalla um og ákváðum í vor að yrðu verkefni þessarar viku, af því að það var að skilja á hv. þingmönnum Pírata að það ætti bara að einangra sig við þau mál og engin önnur en nú ættum við jafnvel að taka til við fleiri mál. Ég er aðeins að velta því fyrir mér, bara ef hv. þingmaður gæti aðeins útskýrt það betur en ég ætlaði nú ekkert að fara út í það.

Ég vil byrja á því að staldra við mjög athyglisverða ræðu af því ég veit að hv. þingmaður var hér með mjög gott mál á sínum tíma sem var samþykkt af þinginu sem eru stafrænar smiðjur og klasar. Við vorum með í nefndaráliti, þegar við vorum að vinna með fjáraukalagafrumvarpið, kannski óútfærða hugmynd að því hvernig við gætum nýtt klasana og smiðjurnar. Þar er auðvitað hugmyndaauðgi og sköpunarkraftur sem á að fá að blómstra og við eigum að nýta. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni þar og veit að hann er nokkuð vel að sér í öllum þeim málum.

Þá er einboðið að við munum taka mál Tækniþróunarsjóðs til kostanna þegar við förum yfir ríkisfjármálaáætlun, það er bara staðfest hér. Ég hef bara eina spurningu: Hefur hv. þingmaður eitthvað velt því fyrir sér hve mikið af verkefnum kemur úr þessum ranni í formi umsókna til Tækniþróunarsjóðs eða Rannsóknasjóðs, sem eru sprottin í (Forseti hringir.) gegnum klasana, sjálfsprottnu klasana og stafrænu smiðjurnar?