150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir prýðisræðu. Hann kom inn á nokkra þætti sem eru afar mikilvægir í samhengi þess að við erum að fjalla um stefnu. Ég kom hér fyrst og fremst til þess að bregðast við því að hv. þingmanni gafst ekki færi á að veita andsvar þegar ég mælti fyrir áliti meiri hluta fjárlaganefndar og ætla því að snúa þessu við og vona að forseti geri ekki miklar athugasemdir við það.

Ég ætla að koma inn á eitt atriði til að nýta tímann. Ég held að ég hafi skilið spurningu hv. þingmanns í ræðunni svo — sem snýr að óvissusvigrúminu og kannski fyrst að því sem sneri að texta í nefndaráliti meiri hluta — að einvörðungu væri minnst á halla til tveggja ára. Meiri hlutinn lagði sig fram um það, svona til glöggvunar, að setja afkomuhlutföll, skuldahlutföll og óvissusvigrúmið sem hlutfall af vergri landsframleiðslu í rauntölur þannig að hægt væri einmitt að glöggva sig á því sem hv. þingmaður dró fram. Þetta er tafla á bls. 3 þannig að uppsafnaður halli fyrir 2021 og 2022 er að mér sýnist 1.156 milljarðar. Ásamt óvissusvigrúmi sem yrði þá uppsafnað 248 milljarðar, eru það samanlagt 1.404 milljarðar sem er allveruleg fjárhæð, uppsöfnuð. Við reynum að setja þetta, til glöggvunar og gagnsæis, í eitthvert raunsamhengi þannig að við áttum okkur á (Forseti hringir.) stærðarsamhengi talnanna og hlutfallanna og hvað við erum að fara að kljást við á komandi misserum.