150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:14]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja ræðu mína á því að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir vinnu hans og stjórn í nefndinni við umfjöllun um þetta mál. Ég vil sömuleiðis þakka kollegum mínum í nefndinni, sem skilað hafa minnihlutaálitum. Ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni þannig að ég get ekki skilað sérstöku nefndaráliti en ég ætla að reyna að draga fram nokkur atriði í öllu þessu máli sem mér finnst skipta máli.

Verið er að endurskoða fjármálastefnuna öðru sinni. Ég byrja þar sem fjármálaráð gerir þetta að umtalsefni í samantekt sinni á blaðsíðu 13 í áliti þeirra þar sem þeir segja, með leyfi forseta:

„Að sama skapi er það áhyggjuefni að núgildandi stefna var komin að eigin þolmörkum áður en kórónaveirufaraldurinn hófst, sé litið til stefnumiða um afkomu. Það sama gilti um upprunalega stefnu sem taka þurfti upp fyrir rúmu ári.“

Mér finnst eiginlega óhjákvæmilegt að minnast á þetta í upphafi vegna þess að a.m.k. við í Viðreisn vöruðum ítrekað við því að fjármálastefna stjórnarinnar á hverjum tíma byggði ekki á nógu traustum grunni, hún væri of bjartsýn. Á það var ekki mikið hlustað. En síðan kemur á daginn að skynsamlegra hefði verið að hlusta á þessi varnaðarorð og taka tillit til þeirra.

Það fer ekkert á milli mála að það er brýn nauðsyn á að skoða fjármálastefnuna. Um það deilir enginn og um það erum við, held ég, öll sammála. Fjármálaráð er sammála því að nú hafi verið nauðsynlegt að gera róttækar breytingar, að hverfa frá hinum hefðbundnu markmiðum en halda sig meira við grunngildi þess sem fjármálastefnan á að byggja á. Þá er spurningin um þá endurskoðun sem nú er verið að ræða og meiri hlutinn leggur til, hvort hún sé að sama skapi raunhæf og dugi við þessar aðstæður eða hvort áherslur í henni séu réttar. Það er alveg ljóst að óvissan er umtalsverð, en þó er gengið út frá því í spám helstu spáaðila að kreppan — því að nú erum við komin formlega í kreppu, kórónukreppuna — verði það sem kallað er V-laga, þ.e. að hún verði stutt og snörp og taki — ja, hvað á ég að segja, í kringum 12 mánuði frá því að hún hefst og þar til viðspyrnan er komin á fulla ferð aftur. Þá ríður á að stefnan sem nú verður tekin sé raunhæf. Hún er í raun og veru endurskoðun til mjög skamms tíma, því að eins og okkur er öllum ljóst mun verða kosið hér að ári og þá verður sett ný fjármálastefna, þannig að það er auðvitað mjög skynsamlegt að menn einbeiti sér fyrst og fremst að því ári sem fram undan er, sem verður væntanlega mesta kreppuárið. Þá þurfum við að fylla upp í þá dæld, ef við getum orðað það þannig, eða þetta V sem verður, en um leið þurfum við að hafa það í huga að fyrir ofan strik, ef svo má segja, er atvinnuleysi, sem fer að sama skapi vaxandi. Það er orðið mjög mikið og mun enn vaxa.

Það endurspeglar að mjög margt fólk fær mjög skert lífsviðurværi, mjög skertar tekjur og það er ákaflega brýnt að við höldum vel utan um þann hóp um leið og reynum af öllum mætti að byggja upp atvinnulífið eins hratt og nokkur kostur er. Það þarf að vera algjört forgangsverkefni og þess vegna er það skoðun mín og okkar í Viðreisn að áætlanirnar sem kynntar eru og liggja til grundvallar þurfi að vera framhlaðnari. Að leggja skuli alla áherslu á að horfa á árin 2020–2021 frekar en að horfa til áranna 2022 og 2023. Það er líka þannig að ríkissjóður hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið í betri færum til þess en nú að taka lán á mjög hagstæðum vöxtum og hægt er að gera það til lengri tíma. Það þarf ekki endilega að gera það bara til árs eða tveggja ára, það má gera það til lengri tíma, t.d. tíu ára, og nota það fé til að hjálpa fólki og fyrirtækjum yfir þessa dýfu. Við vitum það, og ég held að við séum öll sammála um að atvinnuleysið er það versta sem við er að fást í þessu samhengi. Við verðum líka að hafa það í huga að þessi kreppa, þetta áfall, þetta högg sem við erum að verða fyrir núna lendir misþungt á fólki í samfélaginu.

Við getum sagt gróflega að kannski 50–60% íbúanna finni lítið eða ekkert fyrir því sem gengur á núna. Síðan finna kannski um 20% talsvert fyrir því en svo erum við með hóp sem eru þá þau sem misst hafa vinnuna og finna verulega mikið fyrir því. Það er skylda okkar að halda mjög vel utan um þann hóp. Við þurfum að tryggja því fólki framfærslu og gerum það þá þannig að það hafi öryggi til lengri tíma. Vissulega er verið að stíga skref í þessa átt og því ber að fagna og hrósa fyrir það. En hér þarf að ganga lengra. Við í Viðreisn höfum hugmyndir um aðferðir til að ganga enn lengra því að þetta er mjög dýrmætt fyrir fólk, og má kannski segja að þetta geti verið þríþætt: Það er tekjutenging atvinnuleysisbótanna. Það er að hækka tímabundið grunnbæturnar, því að margt fólk er á grunnbótum. Og síðast en ekki síst er mjög mikilvægt að auka svigrúmið sem fólk hefur til að skapa sér eigin tekjur með einhverjum hætti. Því þarf að hækka mjög umtalsvert svigrúmið sem fólk hefur. Ég held að frítekjumarkið sé núna um 70.000 kr., ef ég man þetta rétt, og það er mjög mikilvægt að hækka það verulega, t.d. þrefalda það. Það er í sjálfu sér algjörlega útgjaldalaust fyrir ríkið en það mætti hins vegar segja að það gæti skapað ríkinu tekjur. Þetta er nauðsynlegt að gera til að tryggja að við sitjum ekki uppi með langtímavandamál.

Þá er líka mjög mikilvægt að arðbærum fjárfestingum sem tilbúnar eru, sé flýtt þannig að sem mest af þeim geti komist í fullan gang á þessu ári og því næsta vegna þess að það er ekki endilega skynsamlegt þegar viðspyrnan er komin á fullt og samfélagið er að taka við sér að ríkið komi inn með aukin umsvif, með stórframkvæmdum sem hefjast ekki fyrr en viðspyrnan er komin vel á veg og gangur er kominn í atvinnulífið. Þá er ekki heppilegasti tíminn fyrir stórkostlegar innviðafjárfestingar ofan í það. En það þýðir ekki að við eigum ekki að vinna okkur í haginn. Við eigum að sjálfsögðu að undirbúa arðbærar innviðafjárfestingar, að sjálfsögðu, og við eigum að hafa þær tilbúnar þannig að hægt sé að ráðast í þær þegar efnahagsaðstæður eru þannig að það er skynsamlegt.

Fjármálaráð vekur athygli á því að lítið sé fjallað um arðsemi fjárfestinganna og saknar þess og ég tek heils hugar undir það. Þegar við eigum við mikinn vanda að stríða, sem við eigum vissulega núna, og talsverður hluti þjóðarinnar sér fram á mjög harðan vetur og erfið misseri fram undan þurfum við að gera allt til að milda það með öllum hætti. Með því að fólk hafi ráðstöfunartekjur og að fyrirtækjum sé kleift að ráða til sín fólk, t.d. með því að slaka á tryggingagjaldi, þá haldast viss umsvif í samfélaginu, þá helst reynslan uppi í samfélaginu og um leið er komið í veg fyrir að fólk lendi í vanskilum með skuldbindingar sínar. En það þarf líka að hugsa til framtíðar. Það á að undirbúa arðbærar fjárfestingar þannig að þær séu tilbúnar þegar á því þarf að halda og skynsamlegt er að ráðast í þær.

Það sama gildir um framtíðina, að við þurfum að leggja enn meiri áherslu á nýsköpun og þróun. Enn og aftur vil ég taka skýrt fram að það hefur margt gott verið gert í því efni, en það þarf að gera betur. Í fréttum í dag sagði að við hefðum fallið niður um eitt sæti á lista yfir þau ríki sem standa sig vel í nýsköpun og það er miður að svo sé. Við eigum að vera færast upp slíkan lista, en það segir okkur að það er aldrei nóg að gert því að allir aðrir eru að treysta á framtíðina með nýsköpun og þróun. Það er mismunandi hvaðan það fólk kemur sem misst hefur vinnuna. Það kemur fyrst og fremst úr ferðaþjónustunni, það vitum við öll og það blasir við. Síðan er í því misskipt á milli landsvæða eða byggðarlaga. Við því þarf að bregðast og ef við höfum trú á því að viðspyrnan verði kröftug og að það sé ekkert endilega svo langt í hana liggur í augum uppi að það er auðveldast fyrir ferðaþjónustuna að taka aftur við hluta af sínu fólki til baka. Það blasir við því að það tekur alltaf nokkurn tíma að byggja upp eitthvað nýtt og við þurfum að reyna að búa þannig um hnútana að ferðaþjónustan geti tekið við sínu fólki og að fólkið sé til staðar þegar á því þarf að halda.

Varðandi nýsköpunina hafa borist athyglisverðar fréttir þaðan af síðustu úthlutun Tækniþróunarsjóðs. Umsóknarfrestur var færður til og úthlutun var flýtt. Þar var úthlutað umtalsverðu fjármagni. Það kom líka í ljós að umsækjendur hefðu aldrei verið fleiri. Maður hefði kannski haldið að það hefði þýtt að meðalgæðum umsóknanna hefði hrakað, en það er síður en svo. Það er mjög hátt hlutfall af mjög góðum umsóknum sem borist hafa og væri mjög skynsamlegt að reyna að koma þessum góðu umsóknum eða þeim verkefnum sem að baki þeim liggja í gagnið. Þar strax fær fólk eitthvað að starfa. Það er nú einu sinni þannig að í nýsköpuninni er stærsti hlutinn laun. Við vitum að þegar vel tekst til þá skilar þetta miklu. Við höfum líka verið að fá margar gleðifréttir núna á undanförnum dögum af íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum sem hafa verið að sækja sér fjármagn til útlanda svo hundruðum milljóna og milljörðum skiptir, þannig að þetta er mjög mikilvægt.

Auðvitað kann þetta allt að breytast þegar við komum saman í haust og fjármálaáætlun og fjárlög koma fram. En ef Tækniþróunarsjóður heldur sínum takti verður ekki opnað fyrir umsóknir þar að nýju fyrr en eftir níu mánuði. Það er dálítið langur tími. Þetta þurfum við að takast á við. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt, og það er eiginlega höfuðáhersla okkar í Viðreisn við þessar aðstæður, að við beitum miklu meiri þunga og verðum miklu ákveðnari í aðgerðum okkar, og að stjórnvöld verði miklu ákveðnari í aðgerðum sínum við að brúa þetta V-bil, sem ég nefndi, og draga úr kúfinum sem kemur á móti í atvinnuleysinu, því að það skiptir okkur mestu máli. Þannig munum við verða enn sterkari þegar við komum út úr þessari óvenjulegu dýfu.

Það er líka mjög mikilvægt að fólk og fyrirtæki trúi því, að stjórnvöld trúi því, að þessi niðurdýfa, þessi kreppa, verði stutt. Við höfum svo sem enga fullvissu fyrir því að svo verði. Þess vegna er líka mikilvægt að á sama tíma búum við í haginn fyrir það ef svo verður ekki, að þetta taki lengri tíma. Það gerum við m.a. með auknu fjármagni, enn meira fjármagni í nýsköpunar- og þróunarmál. Það gerum við með því að vera mjög dugleg við að undirbúa hagkvæmar fjárfestingar af ýmsu tagi, eiga þær tilbúnar þannig að hægt sé að grípa í þær strax og þarf til þess að hjálpa til í þeirri viðreisn efnahagslífsins sem við viljum öll, trúi ég. En það er ekki sama hvernig það er gert og gagnrýni mín og Viðreisnar lýtur fyrst og fremst að því að ekki sé lögð nóg áhersla á að beina mestu kröftunum að fólki og fyrirtækjum til að koma þeim klakklaust yfir bilið sem margnefnt V í afkomunni skapar.