150. löggjafarþing — 137. fundur,  3. sept. 2020.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

968. mál
[19:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir ræðuna. Ég deili mjög mörgu sem kom fram í máli hans hér um það afmarkaða en þó stóra mál sem við ræðum, sem er endurskoðun á stefnu. Afmarkað, segi ég, vegna þess að við erum að endurskoða afkomuhlutföll, skuldahlutföll og óvissusvigrúmið sem hv. þingmaður kom inn á.

Ég þakka hlý orð í minn garð. Hv. þingmaður sagði sjálfur að hann væri áheyrnarfulltrúi en ég get staðfest að hann tekur af fullum krafti þátt í störfum nefndarinnar. Ég ætlaði einmitt að beina spurningu til hans af því að ég veit að hv. þingmaður er mjög meðvitaður um málið. Viðreisn segir að stefnan þurfi að vera framhlaðnari. Það er meginmarkmið okkar allra, sem blasir við, og fjármálaráð dregur fram, að takast á við atvinnuleysið sem óx mjög hratt. Við þurfum að huga mjög sterklega að því. Hér er gert ráð fyrir töluverðum halla á ríkissjóði svo að við getum farið í þær mótvægisaðgerðir sem þarf til að takast á við það og tekið lán fyrir því.

Okkur er viss vandi á höndum út frá lögunum hvað það varðar að gera stefnuna framhlaðnari. Þegar ég segi það á ég við að okkur er áskilið að taka mið af hagspám. Við erum að teikna inn fyrirkomulag, óvissusvigrúm, sem varð til við síðustu endurskoðun og hv. þingmaður kom inn á það. Óvissusvigrúmið var til að koma í veg fyrir að við værum í spennitreyju eigin markmiða. En svigrúmið má heldur ekki vera svo vítt að stefnan verði marklaus. (Forseti hringir.) Hvernig ætlar hv. þingmaður að kljást við það þegar hann talar um að auka óvissusvigrúmið strax og þegar á þessu ári og því næsta?