150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru .

972. mál
[14:11]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér er ágætt, svo langt sem það nær. Það nær samt of stutt ef við lítum til tímans sem því er ætlað ná til, og tíminn líður. Það er ansi slæmt að standa hér og horfa upp á það að hæstv. barnamálaráðherra skilur eftir foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna og réttindi þeirra til launa í sóttkví. Það er ansi lélegt að sjá allar þær girðingar sem settar eru upp varðandi það sem kallað er Nám er tækifæri. Það hefði verið nær að fjölga þeim einingum á háskólastigi upp í það mark sem skilur á milli þess og svo þeirra sem geta tekið námslán. Þarna er verið að setja inn óþarfa flækjustig og einnig er verið að setja inn óþarfa flækjustig vegna þeirra sem eru að ljúka starfsendurhæfingu.