150. löggjafarþing — 139. fundur,  4. sept. 2020.

breyting á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

972. mál
[14:12]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum nú atkvæði um nauðsynlegar aðgerðir sem því miður ganga allt of skammt til að hægt verði að grípa þá sem eiga hvað erfiðast hér á Íslandi, í okkar ríka landi, á þessum faraldurstímum. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði að ríkisstjórnin ætti erfitt með að gera nokkra áætlun og það er alveg ljóst. En við vitum að þau 12.000 sem nú eru á grunnatvinnuleysisbótum þurfa um hver einustu mánaðamót að velja þá reikninga sem þau treysta sér til að greiða ætli þau ekki að sleppa því að gefa börnunum sínum að borða þann mánuðinn. Við vitum líka að foreldrar langveikra og fatlaðra barna þurfa að finna út úr því hvernig þau eigi að útskýra fyrir vinnuveitendum sínum að þau geti ekki verið í vinnu þann mánuðinn og að ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um að þau eigi að bera skaðann af því. En ríkisstjórnin segist eiga erfitt með að gera áætlun og það er okkur alveg ljóst.