150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að þessir skilmálar séu komnir í ríkisábyrgðina er ekki bara allt í einu einhver töfralausn komin. Það er langt frá því. Samkeppni er alls ekki tryggð þrátt fyrir þessar takmarkanir ríkisábyrgðarinnar. Það kemur skýrt fram í áliti Samkeppniseftirlitsins að hið opinbera hefur ákveðnar skyldur þrátt fyrir þær takmarkanir. Hitt sem ég spurði um var að ríkisábyrgðin er í raun og veru gagnvart lánum til bankanna. Lánin sem bankarnir veita eru með ríkisábyrgð. Ef Icelandair hverfur fara peningar frá ríkissjóði til bankanna til að bæta upp tap þeirra af láninu sem þeir veita Icelandair. Þar er ríkisábyrgðin þegar allt kemur til alls. Þá þarf að meta samkeppnisáhrif á bankamarkaði vegna ríkisábyrgðarinnar.