150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[17:13]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða stórt og mikið mál sem hefur á sér margar hliðar sem vert er að gefa gaum. Það blasir við okkur öllum að miklir erfiðleikar eru í flugrekstri víða um heim og Ísland er engin undantekning frá því. Það má nánast segja að landið sé lokað eða einangrað í þeim skilningi að flugferðir til og frá landinu eru svo til engar nú um stundir. Ég held að ég hafi heyrt í fréttum í dag eða í morgun að það væru tvær ferðir til og frá landinu með flugfélaginu Icelandair en heldur fleiri á vegum erlendra flugfélaga.

Nú er það þannig að við búum í markaðshagkerfi þar sem ríkir samkeppni og við erum með lög og reglur sem um hana gilda. Sá sem hér stendur telur a.m.k. — og ég held að mjög margir þingmenn séu sömu skoðunar — að það eigi að vera frjáls markaður og að ekki eigi að vera ríkisinngrip í markaðinn. Á flugmarkaði er mikil samkeppni. Við höfum séð þegar uppgangur hefur verið í flugi til og frá landinu að mikil samkeppni ríkir. Flugmarkaðurinn er líka þeirrar gerðar að hann er mjög kvikur, í þeim skilningi að menn eru tiltölulega röskir að koma upp flugrekstri og hefja rekstur. Flugfélög koma og fara bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, þ.e. þau taka upp nýja áfangastaði og hætta síðan að fljúga á þá og flugfélögin sjálf koma síðan og fara vegna þess að þau standast ekki samkeppnina og leggja upp laupana.

Icelandair, sem er auðvitað hluti af Icelandair Group sem við erum að ræða, er mjög stórt fyrirtæki á alla mælikvarða á Íslandi. Það stundar ekki bara millilandaflug. Það stundar alls konar aðra starfsemi sem hefur, þegar best hefur gengið, mikil áhrif á hagkerfið, snertir marga einstaklinga sem hjá því vinna og skapar umtalsverðar tekjur vegna þeirra ferðamanna sem hingað koma á þess vegum. En fyrirtækið er líka mjög stórt. Það rekur alls konar starfsemi sem er flugrekstrartengd og ferðaþjónustutengd. Þar á það líka í samkeppni við íslenska og erlenda aðila. Öll inngrip ríkisvaldsins þurfa að vera mjög yfirveguð og hafa, ef þau á annað borð eru til álita, eins litla röskun í för með sér og nokkur kostur er. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál. Þetta er stór ákvörðun, eins og ég held að ég hafi sagt hér í upphafi, og það er langur vegur frá því að hún sé endilega sjálfsögð. Það er líka hægt að færa mjög sterk rök fyrir því að ekki eigi að fara þessa leið, að frekar ætti að fara aðrar leiðir sem séu jafn færar.

Það blasir við í frumvarpinu um ríkisábyrgð á lánalínum, sem ég ætla ekkert að fara að lýsa nánar, að henni fylgir mikil áhætta. Ef dregið er á lánalínurnar liggur fyrir að rekstur félagsins er kominn í veruleg vandræði. Þau veð sem eru sett til ábyrgðar eru ekki traust. Það er mjög óvíst um verðmæti þeirra. Það kann að vera að þau verði verðmæt. Ég efast þó um að þau nái 15 milljarða markinu. Það kann líka að fara svo að þau verði algerlega verðlaus. Og ég held að það eigi ekkert að reyna að draga fjöður yfir það eða fara í kringum það að þessi veð skipti í raun einhverju stóru máli í því samhengi sem við ræðum hér.

Það er auðvitað þannig að Icelandair á sér langa sögu. Það hefur byggt upp starfsemi hér og víða um heim, það hefur byggt upp stórt net og viðskiptavild og það flytur vörur og fólk yfir hafið, til Ameríku og til Evrópu. Þetta er mjög mikilvæg starfsemi og án nokkurs vafa kerfislega mikilvæg fyrir okkur Íslendinga. En það má samt aldrei blanda alveg saman því að einhver starfsemi eða þjónusta sé kerfislega mikilvæg og því að fyrirtækið sem slíkt þurfi endilega að vera kerfislega mikilvægt. Þetta er líka mjög mikilvægt að hafa í huga.

Þegar við metum hvort og hvernig á að taka á þeirri stöðu sem uppi er tel ég líka rétt að við séum fyllilega meðvituð um það hverjir eru eigendur Icelandair Group, eins og það er fjármagnað í dag. Almenningur á mjög stóran hlut í félaginu. Það gerist í gegnum marga lífeyrissjóði landsmanna. Almenningur ber þegar mikla áhættu í gegnum lífeyrissjóði sína. Í einhverjum skilningi hafa sjóðirnir lagt hluta framtíðarlífeyris að veði í þessari fjárfestingu. Almenningur er því tvímælalaust komin þar að. Það blasir líka við að viðskiptabankar félagsins, a.m.k. þeir langstærstu, eru ríkisbankarnir tveir og við almenningur erum eigendur að þeim bönkum. Félagið skuldar þeim umtalsverða fjármuni. Það er verið að opna fyrir þau viðskipti að nýju og þar að auki er verið að sölutryggja umtalsverðan hluta af útboðinu. Þannig að ekki þarf að vera í neinum sérstökum feluleik með það að ríkið, lífeyrissjóðirnir, og þar með almenningur í landinu, er undir í þessu máli. Það þurfum við öll að hafa í huga. Auðvitað erum við ekki öll í þeim lífeyrissjóðum sem þarna eru stærstir. Sumir félagar í lífeyrissjóðum leggja þarna undir og aðrir ekki. Það sem ég er að reyna að koma að er að nú þegar er félagið í einhverjum skilningi að stórum hluta til — ég veit ekki hvaða orð ætti að nota — í félagslegri eigu og á félagslega ábyrgð okkar allra. Þannig er nú það. Ég held að það sé alveg dagljóst að horft er til lífeyrissjóðanna um fjárfestingar í félaginu í hlutafjárútboðinu sem búið er að auglýsa og fer fram um miðjan þennan mánuð. Það er horft mjög til þeirra. Ég held að ég geti nánast sagt að ætlast er til að þeir taki þátt í útboðinu.

Það er alveg ljóst að staða sjóðanna er að mörgu leyti þvinguð, bæði vegna þess að þeir eiga þegar umtalsverðan hlut í félaginu, sem auðvitað má spyrja sig hvers virði er við þær aðstæður sem nú eru uppi, og ekki síður af því að þeir eru í mjög þröngri stöðu. Þeir eru í einhvers konar valþröng um fjárfestingar sínar því að ríkisvaldið hefur beint og óbeint komið í veg fyrir að þeir geti fjárfest þar sem þeir kjósa sjálfir. Og ég er þá fyrst og fremst auðvitað að vísa til erlendra fjárfestinga. Sjóðirnir mega svo sem fjárfesta eins og lög leyfa hér innan lands en hér eru settar á þá takmarkanir. Staðan er því þessi og ég held að við eigum ekkert að vera að draga fjöður yfir það eða kalla það einhverju því nafni að það sé meira og minna prívat og að ríkið komi bara að þessu alveg til þrautavara að síðustu. Það er auðvitað ekki þannig. Við erum þarna allt um kring.

Ég tel óhjákvæmilegt að víkja aðeins að því að málið á sér talsverðan aðdraganda, þ.e. í viðræðum fjármálaráðuneytisins eða ríkisvaldsins og félagsins um hugsanlega aðkomu ríkisins. Að sama skapi hefur þingið haft til þess að gera lítinn tíma til að velta málinu fyrir sér. Ég vil þó taka fram að mér finnst fjárlaganefnd hafa unnið ágætlega og gert það sem í hennar valdi stóð. En staðan var auðvitað orðin þannig að það var eiginlega ekki rúm til að gera einhverjar grundvallarbreytingar á þeirri aðferð sem fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra höfðu ákveðið að beitt skyldi. Það hefur komið fram í umræðum að menn hafa á því ýmsar skoðanir og ég hef það líka. Staðan var og er orðin mjög þröng að þessu leyti. Það á að fara fram hlutafjárútboð eftir tíu daga. Í morgun var gefin út endurnýjuð fjárfestakynning með félaginu og þar eru gerðar breytingar þannig að skilmálarnir eru ekki alveg þeir sömu og þeir voru þegar nefndin fjallaði um þá. Vissulega eru það ekki stórvægilegar breytingar en engu að síður er þetta allt á ferð.

Það er svo margt hægt að segja um samkeppnina og hvernig þarf að passa upp á hana. Þetta snertir svo marga. Samkeppniseftirlitið sendi inn ítarlega umsögn um málið og vakti athygli á því að enda þótt ríkinu væri heimilt að grípa inn í með ríkisaðstoð í þessu tilviki leysti það íslensk stjórnvöld ekki undan því að gæta að samkeppnissjónarmiðum í málinu. Auðvitað ber að fagna því að í meðförum nefndarinnar sé aðeins hert á því að gæta eigi mjög vel að samkeppninni. Eins og hefur komið fram og ég ætla ekki að endurtaka var líka mikil umræða um það hvernig ætti að afmarka aðstoðina. Og ég tel að það hafi að mörgu leyti tekist ágætlega að afmarka til hvaða hluta megi nota lánalínurnar ef á þær verður dregið. Því segi ég: Það er ljóst að fjárlaganefndinni tókst að gera vissar úrbætur á málinu sem sýnir enn og aftur hvað það er mikilvægt að þingið fái að fara höndum um mál. Og í svo stóru máli þar sem mörg sjónarmið eru uppi og mörg stór álitamál hefði þingið að sjálfsögðu þurfti að hafa enn lengri tíma til að hægt hefði verið að gera alvörubreytingar hefði vilji og samstaða náðst til þess. Í öllu falli hefur málið batnað umtalsvert.

Eins og ég nefndi áðan fer væntanlegt hlutafjárútboð fram eftir nokkra daga. Ég verð að segja það alveg af hjartans einlægni að það hefur verið mér býsna erfitt að taka afstöðu til þess hvaða stefnu ég ætti að taka varðandi stuðning eða ekki stuðning við málið. Það hefur verið mjög erfitt og ég hef sveiflast til því að mér finnst margir annmarkar á málinu og að það hefði verið hægt að hugsa það betur, gera það betur og í það minnsta ræða það betur þannig að allir gætu haft djúpa sannfæringu fyrir því að þetta væri rétt leið. Á endanum var niðurstaða mín, sem ég komst að í hádeginu í dag, sú að ég ákvað að vera á nefndaráliti meiri hlutans þó að þar séu atriði sem ég hefði kosið að hafa öðruvísi og ýmislegt í málinu hefði ég kosið að hafa öðruvísi. Engu að síður tók ég þá ákvörðun að styðja málið. Af hverju ertu að styðja málið? kynni einhver að spyrja eftir ræðu mína þar sem ég hef frekar talað um að agnúar væru á málinu og það væri varasamt, ýmis stór prinsipp væru í húfi sem maður hefði kannski ályktað að hefðu leitt til þess að ég hefði ekki stutt málið. Þarna lá stóra klemman. En maður verður stundum að taka ákvarðanir og ég ákvað að styðja meiri hlutann í málinu. Það geri ég fyrst og fremst vegna þess að tíminn er einfaldlega að hlaupa frá okkur.

Við tölum gjarnan um það stjórnmálamennirnir að það þurfi vissu og að við þurfum að skapa traust á framtíðina. Ég kýs að líta þannig á að með þessu skrefi — þó að það hefði örugglega mátt gera þetta öðruvísi og betur — sé í það minnsta þeim fjárfestum sem íhuga að fjárfesta í félaginu veitt einhver vissa. Það kann að leiða til þess að þeir verði viljugri til þess og að það takist. Öll viljum við auðvitað að félaginu gangi vel, að það komist á fæturna og verði öflugt. En ég mun líka ætlast til þess og ég mun fylgja því eftir að sérstaklega verði hugað að því að þetta stóra og mikla félag hagi sér vel í samkeppninni og það geri það í raun, hvort sem verður dregið á þessa ábyrgðarlínu eða ekki. Það verður að passa upp á samkeppni á þessum markaði. Þó að við berum flest hlýjar taugar til félagsins Icelandair og séum stolt af því er það eftir sem áður bara fyrirtæki sem er fullt af fólki. Fyrirtækið sjálft er svo sem ekki neitt nema fólkið og fólkið getur fundið sér farveg annars staðar ef til þess kemur. Mín niðurstaða eftir þessar vangaveltur er að rétt sé að stíga þetta skref. En ég geri það vitandi að almenningur er allt um kring í málinu. Ég geri það vitandi að svo kann að fara að ábyrgðin falli. Og ég geri það líka vitandi að ekki er víst að ábyrgðir eða veð dugi til að bæta tjónið. Og ég geri það vegna þess að ég hef þá trú að þessi umsvif skipti máli fyrir íslenskt samfélag og viðspyrnuna í kreppunni ef við getum varðveitt þau í a.m.k. einhver ár. (Forseti hringir.) Það er þess vegna sem ég ákvað að stíga þetta skref.