150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[18:27]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ríkisábyrgðir og um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020. Við stöndum frammi fyrir ófyrirséðu og fordæmalausu ástandi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og allar efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa miðað að því að standa vörð um atvinnu fólks. Fyrir 70 árum, eða árið 1950, sóttu um 5.000 erlendir ferðamenn okkur heim allt árið. Árið 1950 kom svipaður fjöldi ferðamanna til Íslands á heilu ári og að meðaltali hefur heimsótt okkur á dag á undanförnum árum, en erlendir ferðamenn á Íslandi hafa verið um tvær milljónir.

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur á síðustu árum verið um 8% af landsframleiðslu. Íslenskur flugrekstur er inni í þeirri tölu og reyndar veigamikill hluti af hlutfalli ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að ég efist um að í nokkru öðru vestrænu ríki sé flugrekstur jafn stór og mikilvægur atvinnuvegur og hér á landi. Öflugur flugrekstur með höfuðstöðvar á Íslandi og með tengimiðstöð á Íslandi í miðju Norður-Atlantshafi er íslenskri þjóð gríðarlega mikilvægur.

Með því að heimila fjármálaráðherra að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði fyrir allt að 108 millj. bandaríkjadala er verið að bregðast við tekjufalli fyrirtækisins en algjört hrun hefur orðið í flugrekstri í heiminum á undanförnum mánuðum. Samdrátturinn hefur farið nærri því að vera 100% á tímabilum á þessu ári hér á landi. Það blasir við að mjög óhagkvæmt er að reka flugfélag við þessar aðstæður. Sterk eiginfjárstaða Icelandair ásamt almennum aðgerðum íslenskra stjórnvalda hefur gert það að verkum að raunhæft er að félagið sæki sér fjármagn á markað til að mæta breyttum veruleika. Það má telja þau flugfélög á heimsvísu á fingrum handalauss manns sem ekki hafa óskað ríkisaðstoðar, Bretar, Svíar og Danir hafa aðstoðað sín flugfélög og hið sama gildir um Þjóðverja. Þúsundir starfsmanna og fjölskyldur þeirra treysta á að fyrirtækið lifi. Einnig er vert að nefna að fyrirtækið er lykilaðili þegar kemur að ferskfiskútflutningi til og frá landinu. Þegar uppsagnir Icelandair áttu sér stað síðastliðið vor var um að ræða stærstu hópuppsögn sögunnar hér á landi en rúmlega 2.000 starfsmönnum var þá sagt upp og hafði það mest áhrif á áhafnir, viðhaldsþjónustu og starfsfólk í flug- og farþjónustu.

Með frumvarpinu er lögð til heimild til handa ráðherra til að veita Icelandair Group hf. sjálfskuldarábyrgð frá ríkissjóði af lánum vegna tekjufalls fyrirtækisins í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru. Gert er ráð fyrir að heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna þess geti numið allt að 180 millj. bandaríkjadala eða sem jafngildir allt að 15 milljörðum kr. miðað við gengi bandaríkjadals við framlagningu frumvarpsins.

Í frumvarpinu sem lagt var fyrir þingið kemur fram að rík ástæða þurfi að liggja að baki slíkri aðgerð sem er í senn veruleg að fjárhagslegu umfangi og afar sértæk. Það leiðir af landfræðilegri stöðu Íslands að nauðsyn ber að tryggja traustar og samfelldara samgöngur fyrir vöru- og fólksflutninga. Þá hefur vægi ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum, þar sem starfsemi Icelandair hefur algjöra grundvallarþýðingu, vaxið óðfluga á síðustu árum. Umfang farþegaflutninga á vegum félagsins hefur skapað mikilvægan grundvöll fyrir vöxt og viðgang allra annarra greina ferðaþjónustunnar. Því má segja að um verulega almenna samfélagslega hagsmuni sé að tefla ásamt mjög umtalsverðum beinum fjárhagslegum hagsmunum fyrir fjölda launamanna og fyrirtækja. Enn fremur kemur fram í texta frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Í upphafi þess ferlis sem nú hefur leitt til þess að leitað er heimilda Alþingis til að veita ábyrgð ríkisins á lánalínu til Icelandair var talið brýnt að skýrlega lægi fyrir á hvaða forsendum slíkur atbeini yrði veittur. Aðkoma ríkisins um að veita félaginu ábyrgð eða tryggja því aðgang að lánsfé hefur verið háð eftirfarandi lykilforsendum:

1. Að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg í þeim tilgangi að tryggja traustar og órofnar flugsamgöngur til og frá landinu.

2. Að tryggja að til staðar sé flugrekstraraðili sem taki öflugan þátt í efnahagslegri viðspyrnu þegar þar að kemur.

3. Að rekstrar- og samkeppnishæfni til lengri tíma sé tryggð.

4. Að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum, en hafi ekki að markmiði að verja hag hluthafa eða lánardrottna.

Eins og framangreind skilyrði bera með sér er stuðningur við félagið háður því að fyrir lægi það mat að það þjónaði skýrum almannahagsmunum að verja opinberu fé til þess að styðja við félagið. Er aðkoma stjórnvalda þar af leiðandi háð því að fullnægjandi árangur náist í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins í samræmi við þær áætlanir sem kynntar hafa verið, þ.m.t. að afla nýs hlutafjár.“

Í störfum fjárlaganefndar var mikil umræða um að ef gengið yrði á þær lánalínur sem kæmu til með ríkisábyrgð gengju þær aðeins til dótturfélags Icelandair Group, Icelandair, og afmörkuðust þannig við flug til og frá landinu þannig að fullvíst væri að lánalínunum með ríkisábyrgð yrði ekki ráðstafað til annarra dótturfélaga Icelandair Group. Vinna fjárlaganefndar hefur að töluverðu leyti snúist um þennan þátt undanfarna viku.

Mig langaði að vitna í kaflann í nefndaráliti meiri hlutans sem tekur á þessum þætti en það er kafli sem heitir Skilmálar ríkisábyrgðar á lánsfjármögnun:

„Á fundum nefndarinnar hefur verið fjallað um hvort nægilega tryggt sé í skilmálaskjali um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair Group hf. að fjármunir úr henni renni ekki til annars rekstrar Icelandair Group hf. en flugrekstrar.

Að frumkvæði nefndarinnar hefur viðræðunefnd stjórnvalda tekið þetta upp við félagið sem hefur staðfest að það hafi verið sameiginlegur skilningur beggja aðila að lánalínu með ábyrgð ríkisins hafi eingöngu verið ætlað að styðja við flugrekstur félagsins en ekki annan rekstur. Félagið hefur fallist á fyrir sitt leyti, komi til þess að Alþingi samþykki að veita ríkisábyrgð, að í endanlegum samningum um lánalínur með ábyrgð ríkisins verði kveðið á um það að fjármunum úr lánalínunum verði eingöngu varið til þess að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri Icelandair Group hf. í samræmi við rekstraráætlun félagsins. Að auki verði sérstaklega tekið fram að óheimilt verði að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri eða ráðstafa því með öðrum hætti til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi.

Uppfært skilmálaskjal er fylgiskjal með áliti þessu og breytingar hafa verið gerðar á skilmála sem kallast: Takmörkun á nýtingu láns.“

Skilmálinn er eftirfarandi og eru breytingarnar undirstrikaðar í nefndarálitinu:

„Lántaka skal eingöngu heimilt að nýta lán samkvæmt samningunum til að standa skil á almennum rekstrarkostnaði sem tengist flugrekstri lántaka til og frá landinu í samræmi við rekstraráætlun félagsins. Til almenns rekstrarkostnaðar teljast m.a. laun og launatengd gjöld, rekstraraðföng, leiga, önnur rekstrartengd gjöld, samningsbundnar afborganir og vaxtagreiðslur í samræmi við rekstraráætlun, olíuvarnir vegna vöru- og þjónustuviðskipta, endurgreiðslur til viðskiptavina, og reglubundið viðhald. Óheimilt er að nýta lánið til fjármögnunar á rekstri, eða ráðstafa því með öðrum hætti, svo sem til dótturfélaga í samstæðu lántaka sem ekki eru í flugrekstri á Íslandi til og frá landinu.“

Ég vil lýsa yfir ánægju minni með niðurstöðu málsins og vinnuna í fjárlaganefnd, hvernig unnið hefur verið að þeim breytingum sem koma fram í meirihlutaálitinu og í skilmálanum sem eru í fylgiskjali með álitinu.

Ég tel að með þessum breytingum sé fyllilega komið til móts við sjónarmið fjárlaganefndar um takmörkun á nýtingu lána með ríkisábyrgð. Þessi aðgerð stjórnvalda mun veita öflugt mótvægi við efnahagsáhrifin vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í stóru myndinni er að mínu áliti um illskásta kostinn að ræða í þeirri flóknu og erfiðu stöðu sem við eigum við hér. Þetta er gríðarlega flókið mál og breyturnar eru margar og af mörgu að taka. Þegar ástandið fer að skána, sem vonandi verður síðla vetrar eða í vor, en ég hef mikla trú á því að það mun gerast, þá mun viðspyrnan verða öflugri með öflugu flugfélagi Icelandair. Þess má geta, eins og ég nefndi, að ferðaþjónustan er um 8% af landsframleiðslunni og síðustu ár hafa ferðamenn verið um tvær milljónir. Ef það er reiknað í huganum eru 500.000 erlendir ferðamenn um 2% af landsframleiðslu.

Við ræddum fjármálastefnuna hér fyrir nokkrum dögum og vorum að samþykkja hana, en þar kemur fram, og fólk hefur kost á að kynna sér það í þeim pappírum, að framleiðslutap er að verða í samfélaginu og er miðað við það í fjármálastefnunni. Ég tel að ferðaþjónusta og öflugur flugrekstur verði skjótvirkasta leiðina til að vinna það framleiðslutap upp sem nú er gert ráð fyrir í fjármálastefnunni til 2022.

Það eru helst tveir áhættuþættir sem við er að eiga, ef þetta verkefni yrði áhættugreint; endurreisn Icelandair og hversu lengi Covid-19 faraldurinn varir og síðan hver ferðavilji fólks verður í framhaldi af því. Staðan í Bandaríkjunum er síðan sérvandamál í þessari breytu. Bandaríkin eru mjög stór þáttur í rekstri Icelandair í tengslum við rekstur tengimiðstöðvarinnar. Að mínu áliti er þetta áhættuminnsta leiðin sem hér er verið að velja, ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram í vinnu nefndarinnar. Ef ríkið yrði stór aðili með hlutafé í rekstri félagsins yrði um gríðarlega mikla áhættu að ræða fyrir ríkið.

Að lokum vil ég þakka hv. framsögumanni nefndarinnar í þessu máli, hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, fyrir hennar vinnu og síðan allri nefndinni fyrir góða vinnu þessa síðustu níu daga í þessu stóra og mikla og flókna verkefni sem við höfum verið að eiga við.