150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[19:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar fyrst af öllu til þess að segja að þessi umræða hér í dag um þetta mál, eða þau tvö mál sem eru rædd saman, hefur um margt verið mjög athyglisverð. Þegar stór og mikil og margslungin og flókin mál eru til úrvinnslu þá er það nú yfirleitt vilji Miðflokksins að um þau sé rætt vel og lengi og vandað. Það er eins með það verkefni sem við erum með hér í dag. Það var eiginlega í gegnum þessa umræðu sem ég fór að velta fyrir mér hvert verkefni stjórnmálanna er við aðstæður eins og þær sem nú ríkja. Það vill sem betur fer þannig til, herra forseti, að við fáumst ekki á hverjum degi við verkefni og vandamál og aðsteðjandi vanda sem enginn sá fyrir og kippir fótunum að mörgu leyti undan tilverugrundvelli okkar á mjög margan hátt og við eigum kannski ekki því að venjast að lenda í þeim aðstæðum að einhver utanaðkomandi ógn, í þessu tilfelli ósýnileg, geti snert okkur öll jafn mikið og hér um ræðir.

Þá kem ég að því hvert verkefni stjórnmála er við þessar fordæmalausu aðstæður. Það er að reyna að tryggja með öllum ráðum að þegar þessu ástandi linnir, og við höfum vonir til þess að ástandinu linni innan mjög langs tíma, séu grunnstoðir þjóðfélagsins ekki það illa laskaðar að þær geti ekki byrjað að vinna að fullu eða af nokkru afli strax. Þess vegna er mikilvægt að reynt sé að styðja þannig við grunnatvinnuvegi og skapa þeim þannig skilyrði að þegar ástandinu linnir séu þeir færir um að taka þegar til hendinni og gera það besta úr því ástandi sem þá verður. Ég ætla að vera svo bjartsýnn, herra forseti, að segja það og ég hef sagt það reyndar áður, að að loknu þessu fári, því að því mun ljúka, þá verður Ísland í kjörstöðu vegna þess að veiran hefur í sjálfu sér ekki leikið þjóðfélagið illa. Sóttvarnayfirvöld hafa haldið mjög vel utan um þennan faraldur, eins vel og hægt er.

Ég hef að vísu gagnrýnt að núna, akkúrat þegar við erum væntanlega að fara að samþykkja ríkisábyrgð á láni eða lánalínu til Icelandair upp á 15 milljarða kr., þá er ríkisstjórnin með hringlandahætti að takmarka möguleika sama félags til að sigla í gegnum þennan storm. Það er sérstakt athugunarefni. Þetta er reyndar því miður ekki eina málið, herra forseti, sem ríkisstjórnin hefur komið fram með sem er óvisst, illa unnið, illa ígrundað og alltaf koma málin á síðustu stundu. En eins og herra forseti veit mætavel er ríkisstjórnin afar heppin með stjórnarandstöðu. Í landinu er stjórnarandstaða sem hefur sýnt mikla ábyrgð í gegnum allt ferlið og mun væntanlega halda því áfram. Menn hafa að mestu staðist þann freistnivanda að slá sig til riddara á kostnað núverandi stjórnvalda vegna ástandsins. Vonandi heldur það líka áfram.

Herra forseti. Málið sem við eigum við núna er alveg örugglega ekki síðasta málið, því miður, sem við þurfum að taka á af festu þangað til þessi faraldur er yfirstaðinn. Það þarf örugglega að koma fram með alvörutillögur um það að fyrirtækjum, sérstaklega t.d. í ferðaþjónustu og skyldum og tengdum greinum, sé gert kleift að leggjast í nokkurs konar dvala og vakna að nýju þegar betur árar. Þess vegna er það kannski líka það sem þarf að segja hér núna vegna þess að það lítur út fyrir að þetta mál muni fá farsæla afgreiðslu á skömmum tíma vegna þess að allir hér sýna ábyrgð.

Ég vona að þetta og það sem þegar er liðið verði ekki til þess, herra forseti, að ríkisstjórnin gangi á lagið og haldi áfram að velta inn í þingið málum sem eru illa ígrunduð, illa unnin og koma öll á síðustu stundu. Það vona ég sannarlega og ég vona líka sannarlega að ríkisstjórnin fari nú að bera gæfu til þess að hlusta á það sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa í hinum ýmsu málum. Það vill svo vel til að þau mál sem þegar hafa verið afgreidd hafa mörg batnað í meðförum þingsins, í meðförum nefnda, og nefndarvinna, t.d. eins og í þessu máli, er til hreinnar fyrirmyndar. Menn hafa allir lagst á eitt við að reyna að afgreiða þetta mál sem allra fyrst og á eins vandaðan hátt og hægt er að gera.

Ýmsir hafa komið hér fram og sagt að það sé ekki verjandi að ríkisvaldið ábyrgist lán til einkafyrirtækis á markaði. En þá verðum við að horfa á það, herra forseti, hvað við höfum gert undanfarin ár til þess að styðja við atvinnuuppbyggingu bæði á landsbyggðinni og annars staðar. Hvað hefur þingið sem slíkt gert? Ég hef eitt dæmi. Þingið var fyrir nokkrum árum alveg til í að setja á fjórða milljarð króna af ríkisfé, ekki í ábyrgð heldur beint úr ríkiskassanum, í að bora göng í gegnum Húsavíkurhöfða til þess að liðka fyrir efnisflutningum og afurðaflutningum fyrir það sem var kallað af þáverandi hæstv. forsætisráðherra meðalstóriðja sem rísa skyldi á Bakka. Fyrir utan þetta voru líka settir af ríkisfé nokkrir milljarðar í þjálfun starfsfólks og ýmislegt fleira. Nú ætla ég ekki að lasta það verulega, herra forseti, ég er bara að benda á að ríkisvaldið hefur á hverjum tíma líka veitt ívilnanir í tæknistörf og nýjungar, sem betur fer, til að stuðla að því að slík fyrirtæki, sprotafyrirtæki og önnur, geti vaxið og orðið burðug.

Hvers vegna eigum við að samþykkja að ríkið ábyrgist 15 milljarða kr. lán til handa Icelandair? Ég vil setja það upp á nokkra vegu, herra forseti. Í fyrsta lagi: Hvað hefur fyrirtækið gert sjálft til að efla sig í þessum erfiðu kringumstæðum og tryggja að þegar þessu ástandi linnir sé það fært um að sinna starfi sínu eins og áður? Jú, fyrirtækið hefur samið við öll stéttarfélög og lánardrottna, samið við flugvélasala um bæði bætur félaginu til handa og um að þurfa ekki að taka við einhverjum sex vélum, ef ég man rétt, sem áður höfðu verið pantaðar. Þetta hefur fyrirtækið gert og unnið mikið í því að endurskipuleggja sig fjárhagslega. Fyrirtækið hefur, eftir því sem ég best veit, ekki verið að sækja um og/eða fengið einhverjar niðurfellingar lána heldur lengt lán þannig að þau standist betur á við breytt tekjumódel félagsins.

Ég heyrði í einum hv. þingmanni hér í dag sem sagði: Hvers vegna skyldum við tryggja þessu félagi fjármuni? Félagi sem er hugsanlega 5 milljarða virði, eins og mig minnir að hv. þingmaður hafi sagt. Gott og vel, við skulum gefa okkur það að fyrirtækið sé 5 milljarða virði núna í miðjum faraldri með 90–95% samdrátt í flutningstekjum, og þá spyrjum við okkur: Hvers virði verður fyrirtækið ef það nær kannski þriðjungi af þessum tekjum og flutningarnir eflast þannig að samdrátturinn verður ekki lengur 90–95% heldur kannski 65–70% og tekjumódelið og reksturinn verður með allt öðrum hætti þegar þessu linnir? Ég held að við eigum að horfa þangað, herra forseti. Við eigum ekki að horfa á ástandið akkúrat eins og það er í dag.

Því miður er það þannig, svo ég hnýti í ríkisstjórnina aftur, að þessi ríkisstjórn sér ekki langt fram á veginn og það sást kannski best í gær þegar þingið samþykkti það að ráði ríkisstjórnarinnar að framlengja hlutabætur um tvo mánuði. Það er verið að framlengja áhyggjur fólks. Í staðinn fyrir að taka lengra tímabil undir, sex til níu mánuði, er verið að framlengja áhyggjur fólks í tvo mánuði í senn. Það finnst mér ekki stjórnkænska, herra forseti. Mér finnst það ekki framsýni og mér finnst það ekki kjarkmikið. Ef ríkisstjórnin hefði t.d. lesið tillögur sem Miðflokkurinn lagði fram í vor og aftur síðar þá hefði hún kannski áttað sig á því að það er hægt að gera og leggja fram tillögur sem ná miklu lengra fram í tímann.

Það er líka athugunarefni í þessu máli, þegar við stöndum frammi fyrir því hvort við viljum ábyrgjast lán til handa þessu fyrirtæki, að horfa á það í hvaða ástandi keppinautar félagsins eru, næstu keppinautar þess. Það er þannig, herra forseti, eins og forseti veit því hann er glöggur maður, að keppinautar eins og SAS, Lufthansa og Norwegian voru að sækja um fjárhagsstuðning. Síðastnefnda félagið segist hafa orðið fyrir 91% samdrætti. Ég hef vitnað til þess áður í ræðu, held ég, að meira að segja Þjóðverjar, herra forseti, sem eru nú ekki gjarnir á það að ausa almannafé á báðar hendur, fóru þá leið að eignast 20% í flugfélaginu Lufthansa. Við kjósum þessa leið, að ábyrgjast lán upp á 15 milljarða frekar en að ríki gangi inn í félagið sem eigandi. Hvers vegna? Jú, ef allt fer á versta veg þá er hætta á því að hlutafé, sem búið er að leggja inn í félagið, verði aftarlega í röðinni þegar kemur að því að greiða út úr félaginu. Á móti tekur ríkið veð í vörumerki félagsins og lendingarleyfum þess sem eru vel að merkja á besta stað, bæði á Heathrow-flugvelli í London og í New York, og eru örugglega mjög mikils virði.

Einnig hefur verið talað um að aðrir gætu hlaupið í skarðið fyrir félagið og tekið upp merkið og flutt hér fólk og frakt til og frá landinu. Það kann vel að vera að við skekkjum samkeppni með þessu. Ég held þó ekki. Íslensk samkeppni mun væntanlega birtast — væntanlega er það ekki aðalsamkeppnisþátturinn heldur félög sem ég nefndi áður, þessi erlendu félög — en í fyrra flugu, ef ég man rétt, 60 félög til Keflavíkur um sumartímann. Þá kemur önnur ástæða: Hvers vegna skyldum við tryggja rekstur þessa fyrirtækis? Það hefur verið mjög vinsælt í þessum ræðustól að segja að félagið sé kerfislega mikilvægt. Jú, jú, ég get alveg fallist á það þó að mér leiðist svona merkimiðapólitík. Hvað viljum við tryggja? Í fyrra störfuðu þarna 4.700 vel menntaðir, vel þjálfaðir starfsmenn. Í þeirra þjálfun og þekkingu býr auður sem myndi væntanlega tvístrast ef þetta félag legðist af.

Það hefur líka verið talað um að flugvélar félagsins séu að uppistöðu til gamlar. Hver sem kemur í viðhaldsstöð Icelandair á Keflavíkurflugvelli ætti að fullvissa sjálfan sig um það með þeirri heimsókn hvernig viðhaldi flugvélanna er háttað. Það er algjörlega fyrsta flokks og til eftirbreytni og til fyrirmyndar fyrir aðra. Þar er líka mannauður, herra forseti, vel þjálfaður, vel menntaður, sem stendur að því að tryggja að þessar vélar fari um með öruggum hætti.

Við gætum líka minnst á það að dótturfélag Icelandair — nú erum við ekki að tala um að styrkja dótturfélög — er að gera sig mjög gildandi í þjálfun flugmanna í hermum og á núna herma fyrir þrjár flugvélategundir og er í sjálfu sér sjálfstæð tekjueining inni í félaginu, bæði til að afla því tekna og til þess að sjálfsögðu að halda þekkingu flugmanna við og til að tryggja að þeir séu eins vel þjálfaðir og best verður á kosið.

Og hvað erum við að tryggja líka, herra forseti? Jú, við erum að tryggja farþegaflutninga á því leiðakerfi sem félagið hefur byggt upp á áratugaþjónustu og þekkingu. Menn segja og hafa sagt: Það er ekkert mál að þetta félag hverfi. Nýtt kemur í staðinn og fær lendingarleyfi hér og hvar á engum tíma. Ég held að ég fari rétt með, herra forseti, að það hafi tekið flugfélagið WOW air á sínum tíma, sem nú er ekki til lengur, u.þ.b. þrjú ár að fá lendingarleyfi í Bandaríkjunum, þannig að ég held að þetta sé ekki alveg svona einfalt og leiðakerfi félagsins hefur tryggt það að við erum í betri samgöngum t.d. við Ameríku en margar aðrar þjóðir í Evrópu. Héðan er flogið á miklu fleiri staði þar og sama má segja um Evrópulegginn. Verið er að tryggja að hægt sé að ferðast héðan á mjög marga staði og fleiri staði en aðrir búa við. Þá er ég ekki farinn að minnast á það sem hefur kannski verið ljósið í myrkrinu fyrir félagið þessa mánuði og ljósið í myrkrinu líka fyrir okkur, þ.e. fyrir útflutning þessarar þjóðar, sem er flutningur félagsins á ferskum afurðum, bæði vestur og austur um haf. Þar sem við stefnum núna á að framleiða miklu meira af ferskum afurðum, sérstaklega í fiskeldi t.d., þá er það afskaplega mikilvægt að sá þáttur félagsins leggist ekki af og geti starfað áfram.

Að öllu þessu virtu, herra forseti, vildi ég taka fram að verkefni stjórnmála við þessar aðstæður er að tryggja að þjóðfélagið allt beri sem minnstan skaða, bæði þeir sem minnst hafa og þeir sem eru betur settir, og að fyrirtæki verði í stakk búin til að veita atvinnu. Við þurfum atvinnu vegna þess að atvinnuleysi verður hér örugglega gríðarlega mikið, því miður, næsta hálfa árið a.m.k. og það er verkefni okkar að tryggja að þjóðfélagið allt komist frá þessu áfalli eins sterkt og verða má.

Ég held, herra forseti, að það að tryggja starfsemi þessa kerfislega mikilvæga félags, svo ég taki nú undir merkimiðann, sé einn liður í því að gera einmitt það. Þess vegna mun Miðflokkurinn örugglega styðja þetta mál þegar það kemur til atkvæða hér á þinginu.