150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að nefna sérstaklega að það er ekki sjálfgefið að þingið geti tekið svona mál og afgreitt á jafn skömmum tíma og raun ber vitni. Það er styrkur Alþingis að geta gert það jafnvel þó að hér séu uppi andstæð sjónarmið og það er út af fyrir sig ánægjulegt. Ég vil sömuleiðis nefna sérstaklega að mörg ríki, margar ríkisstjórnir, fengu nákvæmlega engan tíma, en vegna þess að fyrirtækið hafði fjárhagslegan styrkleika við upphaf þessarar krísu þá höfum við haft tíma. Ég tel að við höfum nýtt hann vel til að lágmarka áhættu fyrir ríkissjóð í þessu máli. Það lýsir sér í því að við höfum sagt: Það er ekki ríkisins að fella dóma um rekstraráætlanir fyrirtækisins. Markaðurinn sjálfur verður að fella þann dóm í hlutafjárútboðinu sem nú stendur fyrir dyrum. Að öðru leyti hefur félagið verið að vinna sína vinnu. Að því gefnu að allar þessar áætlanir gangi upp, sem markaðurinn verður að veita svar við (Forseti hringir.) hvort hann hafi trú á, þá mun ekki reyna á ríkisábyrgðina, en hún er þarna ef hlutirnir þróast á verri veg.