150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:11]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er grundvallarspurning og grundvallarpólitík að baki. Rökin fyrir inngripinu virðast vera tvíþætt; tekjutap fyrirtækisins, sem það ber vissulega ekki sök á núna, og mikilvægi fyrirtækisins kerfislega og þjóðhagslega. Að hægt sé að sjá rökin fyrir því að ríkið stígi inn á þessum tíma leiðir ekki til þess að við fríum okkur ábyrgð á því að skoða hvaða skref er verið að stíga og hvernig það er gert. Stór hluti hlutafjár þessa fyrirtækis hefur verið félagslegt fjármagn lífeyrissjóðanna. Þar að baki eru líka almannahagsmunir. Það er á þeirri staðreynd sem flétta ríkisstjórnarinnar fellur. Lífeyrisþegar, almenningur, eiga samkvæmt þessari leið stjórnarinnar að taka mikla áhættu og meiri áhættu en aðrir fjárfestar. Aðrar útfærslur hefðu gert leikinn jafnari og réttlátari í mínum huga en sú leið sem hér er teiknuð upp. Þess vegna get ég ekki stutt þessa leið. Umgjörðin um þennan gjörning, þó að aðstæðurnar séu eins og þær eru, (Forseti hringir.) er með þeim hætti að þessa leið get ég einfaldlega ekki stutt og mun ekki greiða henni atkvæði.