150. löggjafarþing — 140. fundur,  4. sept. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[20:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Aðstoðin sem við ræðum hér er ekki sjálfgefin. Ég veit að í þessum atkvæðagreiðslum eru það fleiri þingmenn en ég sem þurfa að leggja töluvert á sig til að hafa það hreinlega í sér að vera ekki gegn því að velta ábyrgð og áhættu af rekstri fyrirtækis í einkarekstri, einkaeigu, yfir á skattgreiðendur og yfir á lífeyrisþega. En við stöndum bara frammi fyrir vondum kostum. Fáum dylst kerfislegt mikilvægi flugsamgangna fyrir íslenska hagsmuni. Öll rök hníga að því að ferðaþjónustan nái sér fyrr og betur á strik með sterku flugfélagi Icelandair. Það er gjarnan sagt að fyrsta reglan, sem ber að hafa í heiðri þegar fyrirtækjum í einkaeigu er rétt viðlíka hjálparhönd af ríkinu, sé að tryggja að skattgreiðendur fái hluta ágóðans ef vel gengur en ekki bara áhættuna ef illa fer. Við höfum deilt um það nokkuð í dag hvort stjórnvöld hafi tryggt þetta, haldi þessa reglu í heiðri nægilega mikið. Ég er ekki sannfærð um það og hef ekki fengið að sjá þau gögn nægilega vel og það veldur því að ég get ekki stutt þetta mál. (Forseti hringir.) En ég mun ekki greiða atkvæði gegn því heldur.

Mig langar að nefna eitt í viðbót. Stjórnendur Icelandair, fari þetta mál í gegn, eru líka skuldbundnir. (Forseti hringir.) Það hefur gustað um félagið undanfarið, það hafa verið kjarasamningar, samkeppnismál hefur borið á góma. (Forseti hringir.) Í fanginu á lífeyrisþegum, í fanginu á skattgreiðendum ber þeim að reka fyrirmyndarfélag.