151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi árs var ég bjartsýn. Ég taldi okkur vel í stakk búin fyrir þann lítils háttar samdrátt sem væntanlegur var enda höfðu skuldir ríkissjóðs hvergi lækkað hraðar en einmitt hér á Íslandi. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hafði verið hækkuð, lífskjarasamningar höfðu náðst og skattar á fólk og fyrirtæki höfðu farið lækkandi. Þannig hafði traust efnahagsstjórn skilar sögulega lágu vaxtastigi og aukið enn frekar við kaupmátt fólks. Við vorum tilbúin í það sem í vændum var, en fljótlega áttuðum við okkur öll á því að verkefnið var mun stærra en nokkurn hafði órað fyrir.

En ég er enn þá bjartsýn, bæði vegna þess að við höfum búið í haginn en líka vegna þess að við Íslendingar kunnum að takast á við áföll og aflabrest. En ég þakka guði fyrir að við höfum ekki búið við fjármálastefnu Samfylkingar og Pírata á síðustu árum. Þeim fannst bara ekkert mikilvægt að greiða niður skuldir ríkisins þegar vel áraði og vildu aukaútgjöld við hvert einasta tækifæri. En það er líklega frekar kjósendum en guði að þakka fyrir það.

Vel hefur verið haldið um ríkissjóð í tíð Bjarna Benediktssonar í fjármálaráðuneytinu og við höfum svigrúm til að taka á okkur höggið með því markmiði að vaxa hratt og örugglega út úr kreppunni. En peningar vaxa ekki á trjánum og auðvitað eru fyrir því takmörk hversu lengi og hversu mikið ríkissjóður getur tekið á sig. Þar þurfum við í þessum sal að vera á varðbergi. Hér má umræðan ekki snúast um yfirboð og innantóma frasa heldur raunverulegar og skynsamlegar leiðir til að skapa viðspyrnu og draga úr ríkisskuldum um leið og árar betur.

Áhrif veirunnar eru ekki bara efnahagsleg heldur fyrst og síðast samfélagsleg. Íslenska þjóðin hefur sýnt samstöðu og samkennd. Við höfum lært nýja siði og nýjar venjur. Við sprittum okkur og við hneigjum okkur í stað þess að takast í hendur og knúsast. Og við höfum fært ýmsar fórnir en kerfin okkar hafa staðist áhlaupið. Heilbrigðiskerfið, sem mikið hefur reynt á, hefur svo sannarlega staðið undir álaginu með undraverðum hætti. Heilbrigðisstéttin sýndi sem aldrei fyrr hvers hún er megnug, þau breyttu og aðlöguðu þjónustuna að stöðunni.

En það kom fleira til. Íslensk erfðagreining, einkafyrirtæki sem byggir á þekkingu og vísindum, hefur aðstoðað við að greina sýni og hvergi í heiminum er jafn góð yfirsýn yfir stöðu og þróun veirunnar og einmitt hér á landi. Vísindin eru okkur mikilvæg og þarna sannaðist það sem aldrei fyrr, en líka mikilvægi þess að leita út fyrir raðir hins opinbera og stuðla að eðlilegu samstarfi einkaaðila, nýsköpunarfyrirtækja og starfsfólks í opinbera geiranum. Þarna eru tækifæri til frekari sóknar.

Kostnaður á áfram að greiðast úr sameiginlegum sjóðum en það væri sóun að nýta ekki krafta nýsköpunar, frumkvöðlakraftinn sem í einstaklingum búa til að bæta og gera grunninnviði okkar enn betri. Tækni og fjarskipti eru í auknum mæli nýtt í heilbrigðiskerfinu og öll þjóðin hefur á stuttum tíma lært að nýta fegurðina sem býr í þeirri tækni. Tækifæri til frekari framþróunar á því sviði eru mikil og þar hafa íslensk nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki þróað góðar lausnir sem við eigum að nýta.

En öll él birtir upp um síðir og öll hlökkum við til að losna við veiruna úr samfélaginu og það mun gerast. Við viljum fara í fyrra horf í svo mörgu í okkar hegðun, en munum að á þessum tíma höfum við lært ýmislegt og notum það líka til að gera samfélagið enn betra.

Hér þurfum við að tryggja aftur heilbrigt, opið og öruggt samfélag. Við þurfum að vernda störf og gefa atvinnulífinu tækifæri til að skapa ný störf. Við þurfum að gefa fólkinu í landinu frelsi til að skapa sín eigin tækifæri og það er stefna ríkisstjórnarinnar.

Kreppan sem við glímum nú við er hvorki krónunni né stjórnarskránni að kenna og lausnin getur því ekki leynst þar. En þrátt fyrir veiruna og þær hræðilegu fréttir sem okkur berast daglega af afleiðingum af útbreiðslu hennar þá megum við ekki gleyma öðrum orrustum sem við háum. Grænlandsjökull bráðnar nú sem aldrei fyrr og snjókoma í dag og framvegis vegur ekki lengur upp á móti bráðnuninni, jafnvel þótt hlýnun jarðar stöðvist í dag. Ísinn á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni og á aðeins örfáum árum hefur íshellan minnkað um flatarmál sem nemur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Ítalíu samanlagt.

Ríkisstjórnin hefur þegar sett þessi mál á oddinn og aðgerðir til að mæta loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfið. Metnaðarfullar, raunhæfar og vel fjármagnaðar áætlanir um kolefnishlutleysi eru skýr merki um það.

Loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á heilbrigði hafsins, súrnun sjávar og fiskgengd og við þurfum að rannsaka betur og vita hverju við getum átt von á. Við þurfum að gæta að þeirri verðmætu matarkistu sem býr í hafinu í kringum okkur fyrir komandi kynslóðir.

Eitt er að bregðast við loftslagsógninni með því að draga úr útblæstri og stuðla að umhverfisvænni lifnaðarháttum og það er mikilvægt. En annað og ekki síður mikilvægt er að búa okkur undir þær breytingar sem óhjákvæmilega eru og munu verða á umhverfi okkar. Við þurfum að tryggja að innviðir okkar eins og hafnir, vegir, raflínur, brýr og fráveitur standist þann ágang sem loftslagsbreytingunum fylgja því það er allra veðra von.

En þrátt fyrir ógnina sem loftslagsváin veldur er ástæða til að vera bjartsýn á framtíðina. Það er engin þörf á heimsendaspá. Við vitum meira en nokkru sinni fyrr um áhrifin og hvað veldur. Við verðum að hlusta og bregðast við. Mikið væri nú gott ef við gætum verið öll saman á þeirri línu en Miðflokkurinn notar hvert tækifæri til að gera lítið úr loftslagsvánni, nú eða flækja og gera lítið úr umræðum um lausnirnar.

Tölum skýrt, hættum að flækja málin og einblínum á raunhæfar, sjálfbærar lausnir. Hugvit mannsins á sér engin takmörk — virkjum þetta hugvit, umhverfinu og samfélaginu öllu til góða.