151. löggjafarþing — 2. fundur,  1. okt. 2020.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Kæra þjóð. Við lifum á tímum sem kalla á samfélagslega sjálfsskoðun og við höfum einstakt tækifæri til að líta í spegil og spyrja okkur hvort samfélagið sem við höfum skapað sé samfélagið eins og við viljum hafa það. Verðlaunar samfélagið okkar raunveruleg verðmæti? Þarf þjóðin e.t.v. að breyta gildismati sínu? Eða er mögulegt að það þurfi bara að velja stjórnvöld sem endurspegla betur raunverulegt gildismat þjóðarinnar? Mín upplifun er nefnilega sú að þótt ríkisstjórnin segist deila gildismati með þjóðinni þá segi verk hennar allt aðra sögu. Ríkisstjórnin er raunar nokkuð lunkin í því að segja eitt og gera síðan eitthvað allt annað. Þau kalla t.d. stöðugt eftir samstöðu þjóðarinnar en eru síðan aldrei tilbúin að vera með. Hæstv. forsætisráðherra kallar eftir samstöðu á erfiðum tímum og hæstv. fjármálaráðherra segir að vinnandi fólk sem vildi halda umsömdum launahækkunum lífskjarasamningsins til streitu verði að átta sig á því að við erum öll í sama báti. En þegar við Píratar lögðum til að frysta launahækkanir kjörinna fulltrúa fyrr á þessu ári var minna um samstöðu og sjómannalíkingar á þessum bæ. Ráðherrarnir sóttu sína 115.000 kr. launahækkun og sýndu í verki að hjal þeirra um samstöðu átti ekki við um þau sjálf.

Kæra þjóð. Þegar forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni að þótt hlutverk stjórnmálamanna væri fyrst og fremst að hugsa um samfélagið í heild skipti máli að hugsa um örlög hvers og eins þá hljótum við að spyrja okkur hvers vegna örlög egypsku barnanna sem vísa átti úr landi skiptu hana engu máli. Þegar hún var spurð um örlög þessara barna sagði hún að hún skipti sér ekki af einstaka málum, þetta væri ekki fyrsta brottvísunin og að við tækjum ekki á móti öllum börnum sem hingað leita í átt að vernd og að verkefni stjórnmálanna sé að byggja upp mannúðlegra kerfi frekar en að grípa inn í einstök mál. En eina framlag hennar til þessa mannúðlega kerfis eru síendurteknar og ómannúðlegar tilraunir til að veikja réttarstöðu flóttamanna og barna og auðvelda brottvísanir þeirra í formi frumvarps sem við Píratar og aðrir í stjórnarandstöðunni höfum þurft að stöðva aftur og aftur með mikilli fyrirhöfn. Og aftur stendur til að flytja þennan ósóma í þessu húsi. Má ég þá frekar biðja um að stjórnarliðið geri sem minnst eins og þau gera í hvert einasta skipti sem útkeyrður þingmaður þeirra í Suðurkjördæmi hjólar í hælisleitendur á Facebook. Kannski voru stærstu mistök egypsku barnanna að hafa ekki bara sent tölvupóst á hæstv. sjávarútvegsráðherra því að hann virðist a.m.k. ekki hika við að beita sér í einstökum málum og redda reglugerðum fyrir ráðvillta hvalveiðimenn eða kannski voru stærstu mistök þeirra að vera bara börn en ekki moldríkir útvegsmenn sem greiða hámarksstyrki til Sjálfstæðisflokksins.

Kæra þjóð. Þessi ríkisstjórn segir eitt en gerir annað. Þau segja ekkert mikilvægara en að tryggja atvinnu og borga fyrirtækjum milljarða til þess að halda starfsfólki en borga svo sömu fyrirtækjum fleiri milljarða til að reka það sama starfsfólk stuttu síðar. Hér heyrum við forsætisráðherra hreykja sér af því að hafa stóreflt möguleika fræðimanna til að geta sinnt þekkingarleit sinni með auknum fjárframlögum til rannsókna. En ást hennar á akademísku frelsi þessara sömu vísindamanna var þó hvergi sjáanleg í sumar þegar fjármálaráðherra kom í veg fyrir að fræðimaður sem honum er ekki þóknanlegur fengi ritstjórastöðu í útlöndum. Og þessi ríkisstjórn segist vera femínistar og þau baka „he for she“-kökur fyrir myndavélarnar. En þegar kvennastéttir kalla eftir kjarabótum er enga samkennd að finna, hvorki með hundruðum kvenna sem óskabarn þjóðarinnar rekur í miðjum samningaviðræðum né konunum sem bera uppi heilbrigðiskerfið í heimsfaraldri svo að nærtæk dæmi séu nefnd.

Kæra þjóð. Við Píratar höfum reglulega látið kanna verðmætamat samfélagsins og ár eftir ár leggur fólk langmesta áherslu á gott heilbrigðiskerfi, vel fjármagnað og vel virkandi heilbrigðiskerfi. Þrátt fyrir þetta hefur Landspítalinn þurft að búa við stífar aðhaldskröfur ár eftir ár. Þrátt fyrir þetta hefur heilbrigðiskerfið okkar verið vanfjármagnað. Þrátt fyrir þetta erum við með fjármálaráðherra sem víkur sér endurtekið undan því að semja við hjúkrunarfræðinga. Þetta þarf ekki að vera svona. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem blessar brottvísanir barna og leyfir rasisma innan sinna raða. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem vanvirðir kvennastéttir. Við þurfum ekki ríkisstjórn sem segir eitt og gerir annað. Við getum valið stjórnvöld sem deila gildismati með þjóðinni. Við getum valið betri, heiðarlegri og réttlátari framtíð en til þess þurfum við að þora að velja nýja kosti í kjörklefanum. Við getum haft samfélagið eins og við viljum hafa það, við þurfum bara að ákveða það.