151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

einstaklingar sem vísa á úr landi.

[11:01]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr aðallega út í verklag stoðdeildar ríkislögreglustjóra sem sér um þessa vinnu. Þar vinna tíu manns og hafa ákveðið verklag sem ég hef nýlega farið yfir með þeim. Fyrst og fremst er ákveðin tilkynningarskylda á aðilum sem á að brottvísa og hafa ekki farið sjálfir úr landi. Ef hún bregst kemur annað verklag í kjölfarið. Auðvitað er fylgst vel með og lögreglan lýsir eftir aðilum. Það er ekki þannig fólk sjáist á vappi á Laugaveginum, eins og hv. þingmaður vill vera láta. Það getur haldið sig annars staðar, brotið síðan af sér og þess vegna komist í kast við lögin og verið brottvísað í kjölfarið. Það þarf auðvitað alltaf að fara yfir verklagið og þess vegna átti ég nýlega fund með stoðdeild ríkislögreglustjóra þar sem tíu manns vinna einungis við þetta. En það er auðvitað ljóst að það fer fjölgandi í þeim hópi sem þarf að brottvísa, enda sjaldan fleiri sem hingað hafa leitað.