151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[11:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 sem er 1. mál 151. löggjafarþings. Samkvæmt 42. gr. stjórnarskrárinnar ber að leggja fram frumvarp til fjárlaga fyrir Alþingi þegar það kemur saman og í 25. gr. þingskapalaga er kveðið á um að frumvarpið skuli lagt fram á fyrsta fundi haustþings. Fjárlagafrumvarpið er byggt á grundvelli fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 sem lögð er fram samhliða frumvarpinu. Það er frábrugðið því sem gert er ráð fyrir í lögum en þetta er í samræmi við það sem við höfum áður ákveðið. Frumvarpið er lagt fram á grundvelli endurskoðaðrar fjármálastefnu sem samþykkt var í byrjun september.

Eins og kunnugt er brustu á fordæmalausar aðstæður í mars síðastliðnum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og óhjákvæmilegt reyndist að endurskoða þágildandi fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022 þar sem allar meginforsendur höfðu brostið. Þá var auk þess, í ljósi þessara óvenjulegu aðstæðna, ákveðið að framlagningu fjármálaáætlunar yrði frestað.

Nú blasir við að faraldurinn sem enn sér ekki fyrir endann á mun hafa gríðarleg áhrif á líf og lífsviðurværi þjóðarinnar næstu árin. Fjárlagafrumvarpið sem nú er lagt fram heldur áfram á þeirri braut sem mörkuð var með mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar á yfirstandandi ári þar sem áhersla var lögð á viðamiklar og öflugar aðgerðir til stuðnings heimilum og fyrirtækjum. Áfram mun meginviðspyrnan felast í því að ríkisfjármálunum verður beitt af fullum þunga með það að leiðarljósi að íslenskt samfélag komist eins hratt og kostur er út úr þessari dýrustu kreppu nútímahagsögunnar.

Fjárlagafrumvarpið endurspeglar markmið ríkisstjórnarinnar um að vinna gegn þeirri djúpu niðursveiflu í hagkerfinu sem við stöndum nú frammi fyrir. Þar er mikilvægur fjárhagslegur styrkur ríkissjóðs sem er afleiðing þess góða árangurs sem náðst hefur undanfarin ár og gerir okkur kleift að halda áfram uppbyggingu innviða og grunnþjónustu ríkisins þrátt fyrir erfiða stöðu. Við aðstæður sem þessar kemur í ljós hversu miklu hefur skipt að nýta góðu árin til að búa í haginn fyrir þau magrari. Sú staðreynd að ríkissjóður hefur verið rekinn með góðum afgangi á toppi hagsveiflunnar og skuldir lækkaðar gerir okkur nú mögulegt að mæta breyttum aðstæðum af fullum krafti og án harkalegra niðurskurðaraðgerða.

Virðulegur forseti. Ríkissjóður hefur tekið á sig þungt högg. Efnahagsáfallið hefur leitt til þess að tekjur hins opinbera hafa dregist saman um á annað hundrað milljarða kr. á yfirstandandi ári á sama tíma og útgjöld hafa stóraukist, einkum vegna aukins atvinnuleysis og mótvægisráðstafana stjórnvalda. Samanlagt eru áhrif þess á afkomu hins opinbera af þeirri stærðargráðu að vart eru fordæmi fyrir því í hagsögu Íslands.

Áætlun fjárlagafrumvarps ársins 2021 gerir ráð fyrir að halli verði á rekstri ríkissjóðs sem nemur rúmlega 264 milljörðum kr. eða um 8,6% af vergri landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að heildarútgjöld ríkissjóðs verði 1.036 milljarðar kr. á árinu og aukist um 118 milljarða á milli ára. Tekjur ríkissjóðs munu hins vegar dragast saman en gert er ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði um 772 milljarðar kr. eða 137 milljörðum lægri en áætlað var. Frumjöfnuður ársins verður neikvæður um 6,8% af vergri landsframleiðslu.

Umtalsverð og óhjákvæmileg skuldaaukning fylgir í kjölfarið á áætluðum hallarekstri. Skuldir ríkissjóðs munu vaxa gríðarlega næstu tvö árin þrátt fyrir forsendu þjóðhagsspár um 3,9% hagvöxt á næsta ári enda hefur hagkerfið orðið fyrir miklu framleiðslutapi. Raunar er útlit fyrir að áfallið verði það þungt að skuldir aukist næstu árin að öðru óbreyttu og er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði orðnar um 50% af vergri landsframleiðslu undir lok fjármálaáætlunar samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál.

Til skemmri tíma litið hafa stjórnvöld markað sér þá stefnu að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér að nýju líkt og kemur fram í endurskoðaðri fjármálastefnu. Þar eru sett fram markmið um afkomu- og skuldaþróun ríkissjóðs og hins opinbera fram til ársins 2022. Í stefnunni er gert ráð fyrir að halli á rekstri ríkissjóðs verði ekki meiri en 9% af vergri landsframleiðslu á komandi ári og gera núverandi áætlanir ráð fyrir að halli á afkomu ríkissjóðs verði innan þessara marka. Í þessu felst að þrátt fyrir lægri tekjur ríkissjóðs verða útgjöld ekki skorin niður á næsta ári heldur verða þau í þess stað aukin til að standa undir tímabundnum sértækum mótvægisaðgerðum og atvinnuleysi vegna farsóttarinnar.

Í fjárlögum næsta árs munu framlög til lykilmálaflokka halda áfram að aukast. Í því endurspeglast sá ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um tilfærslukerfin, mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins. Ekki verði þó efnt til nýrra eða aukinna útgjalda annarra en þeirra sem tengjast beinum mótvægisráðstöfunum eða aðstæðum af völdum kórónuveirufaraldursins. Útgjaldamál af öðrum meiði mun þurfa að fjármagna innan gildandi ramma.

Þannig endurspeglast útgjaldabreytingar í fjárlagafrumvarpi ársins 2021 fyrst og fremst af viðbrögðum við faraldrinum og afleiðingum hans. Gert er ráð fyrir að aukin framlög í tengslum við kórónuveirufaraldurinn nemi tæpum 31 milljarði á komandi ári. Þar af vega þyngst framlög vegna aukins atvinnuleysis en gert er ráð fyrir að þau verði 23 milljörðum kr. hærri á komandi ári en áætlað var í fjárlögum ársins sem nú er að líða og nemi alls tæpum 50 milljörðum á árinu 2021. Þá verður 27 milljörðum varið til aukinnar fjárfestingar í innviðum, hugviti og þekkingu en alls er gert ráð fyrir að verja meira en 100 milljörðum til slíkra verkefna á tímabili fjármálaáætlunar í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að styðja við hagkerfið þar til atvinnulífið hefur tekið við sér. Kemur þetta átak til viðbótar öðrum stórum fjárfestingar- og framkvæmdaverkefnum sem þegar hefur verið gert ráð fyrir samkvæmt fyrri áætlunum, svo sem byggingu nýs Landspítala, fyrri átaksverkefnum í samgöngumálum og byggingu nýs skrifstofuhúsnæðis fyrir Alþingi.

Í fjárlögum næsta árs verða heilbrigðis- og velferðarmál áfram í forgrunni. Framlög til heilbrigðismála aukast um ríflega 15 milljarða að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum. Þannig verður haldið áfram að styrkja heilbrigðiskerfið með það að markmiði að bæta þjónustu óháð efnahag og búsetu, greiðsluþátttaka sjúklinga verður lækkuð og áframhaldandi sókn er í byggingu hjúkrunarheimila. Framkvæmdir vegna byggingar nýs Landspítala halda áfram og verður tæplega 7 milljörðum varið til verksins á komandi fjárlagaári. Auk þess er áformað að verja 2 milljörðum til annarra fjárfestinga innan heilbrigðiskerfisins í tengslum við fyrrnefnt fjárfestingar- og uppbyggingarátak stjórnvalda.

Frá árinu 2017 hafa framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækkað verulega og vega þau þyngst á gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Þau eru 26% af heildarframlögum. Meðal helstu áherslna á kjörtímabilinu má nefna hækkun frítekjumarks atvinnutekna aldraðra, lengingu fæðingarorlofs sem verður 12 mánuðir á árinu 2021, aukin stofnframlög til byggingar leiguhúsnæðis fyrir þá tekjulægri auk laga um hlutdeildarlán sem taka gildi 1. nóvember næstkomandi, en slíkum lánum er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð.

Þá hefur menntakerfið verið eflt bæði á framhalds- og háskólastigi auk þess sem unnið hefur verið eftir metnaðarfullri áætlun um máltækni. Markmið hennar er að hægt verði að nota íslensku í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Gert er ráð fyrir að framlög til mennta- og menningarmála aukist um tæpa 6 milljarða á árinu 2021. Þar af eru 2 milljarðar vegna áætlaðrar fjölgunar nemenda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins ásamt því að tekið er mið af nýsamþykktum lögum um Menntasjóð námsmanna. Þá verður 1 milljarði varið til háskólastigsins í samræmi við stefnumörkun um að Ísland nái meðaltali OECD um fjármögnun háskólastigsins.

Virðulegur forseti. Mikil áhersla hefur verið lögð á nýsköpun og rannsóknir og má í því samhengi nefna stofnun Kríu, fjárfestingarsjóðs sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Auk þess hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs verið um það bil þrefaldaðar frá árinu 2017 en gert er ráð fyrir að sá fjárstuðningur hækki í 7,3 milljarða í fjárlagafrumvarpi ársins 2021. Áætluð framlög til nýsköpunarmála eru tæplega 26 milljarðar kr. og eru stóraukin milli ára, eða sem nemur um 9 milljörðum frá fjárlögum yfirstandandi árs. Auk þess er gert ráð fyrir að framlög ársins 2020 hækki um tæpa 7 milljarða frá fjárlögum sem skýrist að stærstum hluta af aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins. Þá stóraukast framlög til verkefnisins Stafræns Íslands og verkefnastofan Stafrænt Ísland er efld en hún sér um stafvæðingu opinberrar þjónustu í samstarfi við stofnanir ríkisins. Með auknu framlagi er settur enn frekari kraftur í að bæta samskipti og þjónustu ríkisins með einföldun afgreiðsluferla og frekari stafrænum lausnum.

Við erum í miðju verkefni við að stórauka framboð af opinberri þjónustu með stafrænum hætti og höfum nýlega opnað nýjan vef í þeim tilgangi. Við sjáum fyrir okkur að á næsta ári verði komið snjallsímaforrit sem gerir mönnum kleift að nálgast vefsíðuna með rafrænum hætti. Á þingmálaskrá minni er nýtt frumvarp um stafrænt pósthólf og það stendur yfir mikil vinna við að aðlaga lagaumhverfi og leysa tæknilegar hliðar þessara mála þannig að við getum náð stórum skrefum á komandi mánuðum og árum í átt að tæknivæddari opinberri stjórnsýslu. Það mun ekki bara einfalda afgreiðsluferla og spara tíma fyrir fólk heldur felst í þessu líka mjög mikil bæting á nýtingu fjármuna. Hagræðingin er augljós fyrir alla hlutaðeigandi, stofnanir og alla sem þangað þurfa að leita.

Umhverfismál hafa verið í brennidepli allt kjörtímabilið. Má þar nefna aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, landgræðslu og endurheimt votlendis, auk þess sem mikil áhersla hefur verið lögð á að lækka álögur á vistvæna ferðamáta og stuðning við orkuskipti. Þá hefur auknum framlögum verði varið til viðamikillar uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum samhliða aukinni landvörslu. Alls eru nærri 24 milljarðar áætlaðir til umhverfismála á komandi ári en það er 3,4 milljarða kr. aukning á milli ára. Þyngst vegur aukning til ofanflóðasjóðs til að efla ofanflóðavarnir en auk þess nema ný framlög við styrki vegna fráveitumála til sveitarfélaga 800 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur minnkað álögur á kjörtímabilinu markvert og áhersla er lögð á að halda áfram að draga úr skattbyrði heimila og fyrirtækja með breytingum á fjármagnstekjuskatti, framlengingu á virðisaukaskattsendurgreiðslum, hækkun skattleysismarks erfðafjárskatts og frekari skattaívilnunum fyrir þriðja geirann. Umfangsmestar eru breytingar á tekjuskatti einstaklinga en þær eru þegar lögfestar og verða komnar að fullu til framkvæmda á næsta ári. Þær felast í upptöku þriggja þrepa skattkerfis með mun lægra grunnþrepi en áður. Með nýju skattkerfi hækka ráðstöfunartekjur heimila verulega en breytingin mun lækka skatta um rúmlega 14 milljarða árið 2021. Um áramót taka gildi síðari tveir hlutar tekjuskattsbreytingarinnar en í henni felst í heildina lækkun á tekjuskatti einstaklinga um 21 milljarð frá því sem ella hefði orðið á ári. Það samsvarar ríflega 10% af tekjum ríkisins af þessum skattstofni.

Að öðrum skattstofni, tryggingagjaldi, sem er iðulega í umræðunni. Það hefur einnig lækkað umtalsvert á kjörtímabilinu og verður skattbyrði fyrirtækja 8 milljörðum kr. minni á næsta ári en ella hefði orðið. Við þá lækkun bætist einnig tímabundin lækkun tryggingagjalds til að mæta áhrifum samningsbundinna launahækkana á almennum vinnumarkaði sem staðið verður við þrátt fyrir samdrátt vegna farsóttarinnar. Nemur sú tímabundna lækkun um 4 milljörðum kr. og verður því tryggingagjald orðið 12 milljörðum lægra á árinu 2021 en ella hefði orðið ef gjaldið hefði staðið óbreytt.

Í tengslum við kjarasamninga verður einnig unnið að útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga í því skyni að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið. Jafnframt verða skoðaðir skattalegir hvatar til að örva þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. Þá er einnig vert að minnast á flýtingu á lækkun bankaskatts, sem þegar er ákveðin, auk þess sem upphæð endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar fyrirtækja var tvöfölduð.

Ég hef miklar væntingar til þess að skattalegar aðgerðir til að hvetja til fjárfestinga geti skilað auknum umsvifum á næsta ári. Að mati Samtaka atvinnulífsins gæti þar munað milljörðum og hafa jafnvel verið nefndir milljarðatugir. Ég held að í því samhengi skipti máli að við horfum ekki til of skamms tíma í útfærslunni og gefum nauðsynlega atrennu að því að fara í fjárfestingu. Þeim mun stærri sem fjárfestingarverkefnin eru þeim mun lengri meðgöngutíma hafa þau almennt þurft að hafa. Þessu úrræði má ekki vera sniðinn svo þröngur stakkur að ekki sé raunhæft fyrir þá sem vilja nýta þessa ívilnun að gera það innan tímarammans. Þó verður ekki fram hjá því litið að við horfum auðvitað til þess að auka umsvifin þegar okkur skortir þau sárast.

Eitt af því sem stendur upp úr í hagtölum ársins er hvað atvinnuvegafjárfestingin hefur skroppið mikið saman og er enn að skreppa saman. Þann vanda leysum við ekki eingöngu með því að auka opinbera fjárfestingu vegna þess að það er sjálfstætt vandamál að atvinnuvegirnir skuli ekki fjárfesta. Það verður alls ekki bætt upp með opinberri fjárfestingu einni og sér. Opinbera fjárfestingin þarf að jafnaði að vera nægjanleg til þess að þeim nauðsynlegu innviðum sem við byggjum á sé viðhaldið og byggt sé upp til framtíðar og umfram þær afskriftir sem við þurfum að horfast í augu við. Og jafnvel þótt við gerum átak til að auka framleiðni í opinbera geiranum þá erum við að sjálfsögðu líka að horfa til þess að það nýtist þjóðfélaginu öllu. Má ég nefna í þessu sambandi hugmyndir um að leggja sæstreng þar sem við horfum á allt hagkerfið og leggjum upp með að leggja sæstreng í þeim tilgangi að tryggja að fjarskiptainnviðir við Ísland séu til staðar. Það mun án vafa gagnast ekki bara hinu opinbera með beinum hætti heldur einmitt þjóðfélaginu öllu. Einkageiranum munu opnast ný tækifæri fyrir tilstuðlan þeirrar fjárfestingar.

Þetta vildi ég nefna sérstaklega og við munum ræða það í sjálfstæðu þingmáli þegar að því kemur hvernig við útfærum það skattalega úrræði sem hér er um rætt. Svo maður fari aðeins nánar ofan í það þá erum við fyrst og fremst að tala um fyrningarreglur skattalaga í þessu sambandi.

Virðulegi forseti. Ef litið er fram hjá sérstökum aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins verður skattlagning á næsta ári um 34 milljörðum kr. lægri en verið hefði ef ekki hefðu komið til skattalækkanir ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Sérstakar aðgerðir vegna faraldursins eru metnar í kringum 17 milljarða á næsta ári og alls eru þetta um 52 milljarðar ef menn vilja reyna að nálgast einhverja tölu í þessu samhengi. En ég vil alltaf halda því til haga að þegar við reynum að mæla umfang skattbreytinga þá horfum við á það í einhvers konar tvívíðu samhengi en auðvitað trúum við því að með lægri sköttum náum við að örva og skapa sem muni skila sér í aukinni landsframleiðslu og að tekjutap ríkisins verði ekki nákvæmlega sú tala sem hér er undir heldur verði til nýir, sterkari tekjustofnar.

Skattbreytingar síðustu ára hafa samkvæmt þessu engu að síður dregið verulega úr álögum og hækkað ráðstöfunartekjur fólks, tekjuskattsbreytingin sem ég hef hér rakið að hefur þegar verið lögfest. Þessi síðustu skref taka gildi um áramótin. Tekjuskattsbreytingin var lykilaðgerð í því að loka kjarasamningum og hefur hún stórhækkað ráðstöfunartekjur fólks en um leið bætt samkeppnishæfni atvinnulífsins. Einnig hafa skattbreytingar undanfarinna ára unnið að framgangi umhverfismarkmiða ríkisstjórnarinnar. Ég nefni sérstaklega það sem snýr að orkuskiptunum.

Virðulegi forseti. Við upphaf kjörtímabilsins ríkti jafnvægi í ríkisfjármálum. Losun hafta markaði kaflaskil í fjármálum ríkisins og var sá viðsnúningur nýttur til að lækka skuldir og greiða inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar. Með því skapaðist svigrúm til sóknar. Ríkisstjórnin markaði stefnu um verulega eflingu velferðarkerfa, stórsókn í innviðafjárfestingum, endurskoðun skattkerfa auk metnaðarfullra markmiða í umhverfismálum. Hafa framlög til flestra málefnasviða aukist jafnt og þétt í takt við aukið svigrúm til útgjaldavaxtar.

Ég hef leyft mér að orða það þannig í þessum sal að þegar rætt er um töluverðan útgjaldavöxt á undanförnum árum þurfum við að skoða heildarmyndina. Við vorum á sama tíma að lækka skuldir og búa í haginn til framtíðar. Við ættum kannski frekar að horfa til þess hvort við erum að auka útgjöld með sjálfbærum hætti en ekki bara einblína á útgjaldavöxtinn að nafnvirði eða í prósentum. Ég tel rétt að nálgast þetta þannig og það vildi ég rifja aðeins upp. Við erum fyrst og fremst að hlúa að samfélaginu með ríkisfjármálunum, ná utan um samfélagsleg verkefni sem við hyggjumst fjármagna. Það er í því samhengi oft og tíðum gleðiefni að geta aukið framlög til einstakra málaflokka, náð betur utan um þau verkefni, náð betur því markmiði okkar að hlúa að samfélaginu. Við stundum jú ekki ríkisrekstur í þeim tilgangi að hafa af því einhvern afgang eins og fyrirtækið rekur sig til að skila eigendum sínum einhverjum hagnaði. Langt í frá. En við skulum hafa í huga þegar við horfum núna fram á gríðarlega mikinn hallarekstur, ekki bara á komandi ári heldur inn í framtíðina, að við þurfum að endurheimta getuna til að hlúa að samfélaginu. Hún er ekki til staðar í augnablikinu og við þurfum að taka lán til að geta staðið undir þeim vilja okkar að taka utan um þau verkefni. Við getum ekki byggt framtíð okkar á lántökum heldur þurfum að endurheimta getu okkar til að standa með sjálfbærum hætti undir samfélagslegum verkefnum. Það er stóra verkefnið sem við okkur blasir núna og við ræðum það nánar þegar við förum ofan í fjármálaáætlunina.

Við höfum dreift ávöxtum langs hagvaxtarskeiðs í þessum tilgangi. Við lækkuðum skuldir, við styrktum opinberu þjónustuna, við þéttum félagslegt stuðningsnet og við lækkuðum skatta til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki. Þessar ráðstafanir og þessar áherslur hafa gert okkur kleift að bregðast við núverandi efnahagsáfalli af völdum kórónuveirufaraldursins af jafn miklum krafti og raun ber vitni með því að grípa til umfangsmikilla mótvægisráðstafana.

Geri menn sér grein fyrir því hversu mikla þýðingu það hefur fyrir okkur í dag þá hljóta þeir að stefna að því marki að koma ríkissjóði aftur í þá stöðu að geta brugðist við meiri háttar áföllum. Það hlýtur að vera markmið. Það er ljóst að það verkefni verður ekki leyst án þess að tekið verði á hallarekstrinum og það verður rætt nánar í samhengi við fjármálaáætlun á hverju ári á áætlunartímabilinu. Þetta verkefni verður ekki leyst í þessari umræðu en það verður viðvarandi verkefni næstu ára. Það sem ég tel vera vísustu leiðina til árangurs í því eru aðgerðir sem auka landsframleiðsluna. Aukin framleiðni hagkerfisins, bæði í opinbera geiranum og í einkageiranum, er frumforsenda þess að lífskjör á Íslandi verði áfram á meðal þeirra bestu sem þekkjast.

Fjárfesting hins opinbera í innviðum, menntun, nýsköpun og rannsóknum hefur mikil áhrif en í augnablikinu er áberandi að mest vantar upp á að atvinnulífið taki við sér með kröftugum hætti að nýju. Við þurfum að tryggja að sú viðspyrna sem nauðsynleg er sé til staðar þegar heimsfaraldurinn gengur yfir. Hið opinbera leikur þar lykilhlutverk við að skapa réttu aðstæðurnar, nota hvatana sem ég hef hér verið að ræða um og beina mönnum inn á brautir aukinnar verðmætasköpunar. Það mun renna styrkum stoðum undir samkeppnishæft þjóðfélag þar sem velsæld byggist á öflugum mannauði og kröftugu efnahagslífi.

Virðulegi forseti. Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.