151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um atvinnustigið og atvinnuleysið sem er aðalverkefni okkar um þessar mundir. Mér finnst hafa tekist vel til, þó að ég segi sjálfur frá, í fyrsta lagi að stilla upp grunnsviðsmynd, vera svo með sviðsmyndagreiningar, bæði svartsýnni og bjartsýnni spá, setja sér markmið um að skuldahlutföllin hætti að versna á tímabilinu og draga þannig fram í raun og veru í hverju verkefni okkar felst, sem er að skapa ný störf í einkageiranum fyrst og fremst. Hvað ef dekkri sviðsmyndir rætast? Það eru vond tíðindi. Það mun kosta meiri aðlögun.

Það er spurt um afskriftir skattkrafna. Þetta er að hluta til vegna þess að verið er að leggja á fyrirtæki sem á endanum fara á hausinn og þá bara gufar allt upp og það er ekki í neitt að grípa. En þetta er samt mjög stór liður og sjálfsagt að fara betur ofan í saumana á honum.

Það er rétt sem sagt er að frumjöfnuður er önnur (Forseti hringir.) tala en heildarjöfnuður en heildarhallinn árið 2025 stefnir í að vera í kringum 60 milljarðar í þessari áætlun. En það er a.m.k. (Forseti hringir.) fyrsti áfanginn að ná frumjöfnuði. (Forseti hringir.) Það er algjört grundvallaratriði. Ef við gerum það (Forseti hringir.) mun skuldahlutfallið hætta að versna.