151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum átt orðastað áður um þetta frumvarp og þau efni sem eru hér sérstaklega nefnd í ræðu hv. þingmanns. Mig langar til að nefna tvennt sérstaklega. Ég ætla annars vegar að spyrja hv. þingmann hvað hann á við þegar hann vill meina að stórútgerðir eigi að greiða hærra veiðigjald. Er hann að boða einhverja hugmyndafræði um ólíkt veiðigjald eftir stærð fyrirtækja eða við hvað er nákvæmlega átt? Við höfum þó verið sammála um að það sé aðgangurinn sem slíkur, rétturinn til að sækja miðin, sem er grundvöllur álagningarinnar. Þess vegna hljómar dálítið einkennilega að til viðbótar við það förum við að gera upp á milli tegunda útgerða.

En hitt sem ég ætla að nefna eru atvinnuleysisbæturnar. Auðvitað er auðvelt að taka undir með hv. þingmanni þegar hann segir að atvinnuleysisbætur mættu vera hærri, en þetta eru tryggingarréttindi. Þetta er hluti af tryggingagjaldinu og þau eru fjármögnuð með atvinnutryggingagjaldi. Þannig að þegar menn boða hærri atvinnuleysisbætur þá þurfa þeir að taka afstöðu til þess hvort hækka eigi tryggingagjaldið á móti og hverfa mögulega frá því að þetta séu tryggingarréttindi. Það eru ekki mörg ár síðan að vinnumarkaðsaðilar vildu hreinlega fá atvinnuleysismálin til sín með húð og hári, þ.e. bæði tekjurnar af atvinnutryggingagjaldinu og ábyrgðina á því að greiða út bæturnar. Ég veit ekki alveg hvort þeir væru búnir að hringja núna ef við hefðum látið undan því. Þeir væru a.m.k. að taka tugmilljarða lán ef ríkisstjórnin hefði látið undan ákallinu um að fá að taka þennan málaflokk bara yfir.

Hv. þingmaður telur að við ættum að hækka bæturnar og nefnir þessa tölu, 240.000 kr. eftir skatt, það sé ekki nægjanlega mikið til að lifa af. En hvað vill hv. þingmaður segja við þann sem er að vinna á lægsta taxta VR? Hann var í upphafi árs hjá skrifstofufólki 317.000 kr. Eftir skatta og launatengd gjöld sitja eftir 252.000 kr. Eða þann sem er á lægsta taxta Eflingar upp á 335.000 kr. og hefur 263.000 kr. á milli handanna? Þarna erum við með tvo, annar þeirra er með 252.000 (Forseti hringir.) og hinn með um 260.000 kr. Og hv. þingmaður segir: Við verðum að hækka þann sem er atvinnulaus verulega. Hvað á að gera fyrir hina?

(Forseti (BN): Áður en hv. 3. þm. Reykv. s. svarar andsvarinu vill forseti benda á að klukkan er í einhverjum ólestri, bæði á skjánum hjá forseta og í púltinu. Þannig að forseti reynir að telja niður.)