151. löggjafarþing — 3. fundur,  5. okt. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:26]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að varpa hér fram spurningu og koma með athugasemdir við ræðu hv. þm. Birgis Þórarinssonar sem fór hér um víðan völl og tæpti á mörgum málum sem að sjálfsögðu væri ávallt áhugavert að ræða af meiri dýpt. En þar sem hann bar niður um útgjaldavöxt og sóun fjármuna, eins og ég skildi hann, og nefndi sérstaklega utanríkisþjónustuna þá vil ég koma því á framfæri við hv. þingmann og jafnframt leggja það til, virðulegi forseti, að við rýnum það kannski betur í vinnu okkar í fjárlaganefnd í meðferð þessa fjárlagafrumvarps um þróun útgjalda.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því, þegar hann ræðir um sóun í opinberum fjármálum og aukin framlög til utanríkismála, og segja aðeins að það eru tvö ráðuneyti. Ef skoðuð er útgjaldaþróun ráðuneyta allt til ársins 2007 á leiðréttu verðlagi til ársins 2020, þá hafa útgjöld til utanríkismála dregist saman um 2% á þeim tíma. Það eru minni útgjöld til þessa málaflokks en raunin hefur verið í mjög langan tíma, alveg öfugt við flest önnur ráðuneyti. Það er reyndar annað ráðuneyti sem sætir sams konar meðferð, þ.e. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem er með mun meiri samdrátt en utanríkisráðuneytið. Ég held að það sé ágætt að við nefnum þetta þegar hv. þm. Birgir Þórarinsson fjallar um fjárlagafrumvarpið með þessum hætti.

Ég get aðeins sagt að í fáum ráðuneytum hefur verið gengið jafn rösklega fram á undanförnum árum við að veita aðhald og hagkvæmni í rekstri. Það hefur verið gert með fækkun sendiskrifstofa, lokun sendiráða, staðarráðna starfsmenn o.s.frv. Þetta er ábending mín í fyrra andsvari við hv. þingmann, hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að samdráttur hefur verið til utanríkismálefna á undanförnum árum í fjárlögum.