151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sóunina ætlum við að uppræta með því að nota gögn og upplýsingatækni. Við ætlum að fara í stafræna byltingu til að gera opinbera reksturinn gegnsærri. Við ætlum ekki bara að hætta að sóa tíma fólks og fyrirtækja heldur líka tíma og kröftum opinbera kerfisins í heild, þar með starfsmannanna sem vinna hjá hinu opinbera, með því að taka stafræna tækni í notkun okkur til gagns. Næsta stóra verkefni á þessu sviði eru þinglýsingar. Ímyndið ykkur alla sóunina sem felst í því að láta pappíra liggja í stöflum hjá sýslumannsembættum sem hægt væri að láta ganga rafrænt á milli og afgreiða með nánast sjálfvirkum hætti. Það er sóun víða.

Ég spyr hins vegar á móti þegar hv. þingmaður boðar að við ættum að gera mun meiri hagræðingarkröfu og í ljósi þess að langstærsti útgjaldaliður ríkisins er heilbrigðiskerfið og velferðarkerfið: Hvar sér hv. þingmaður tækifærin til sérstakrar hagræðingarkröfu þar?